12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð að þessu sinni, fyrst og fremst til þess að gera ofurlitla aths. við það, sem hæstv. ráðh. sagði nú í þessari ræðu, og einnig til þess að fagna upplýsingum sem hann kom þar með. Hins vegar fannst mér einkennilegt þegar hann segir nú í lok sinnar ræðu, að það væri full ástæða til þess að hafa Norðmenn og samninga við þá í huga þegar svona ákvarðanir væru teknar. Þá segir hann auðvitað allt annað og þvert ofan í það sem hann hafði sagt í sinni fyrri ræðu. Menn eru ekki lengi að snúast. Þessar upplýsingar eru alveg öfugar við þær sem hann gaf fyrst. Ég undrast það, satt að segja.

En þegar hann hóf sitt mál byrjaði hann svo gott sem á því að segja að ég hefði haft hér í hótunum. Hann hefur yfirskilvitlega náttúru til þess að skilja hvað menn eru að segja hér. Ég hafði alls ekki í neinum hótunum. Ég sagði ósköp einfaldlega að þetta væri slæm byrjun og það væri röng stefna að hafa ekki samráð við þingið, þingflokkana og sjútvn. Það er röng stefna og lofar ekki góðu í samstarfi við þá aðila, sem þurfa að fjalla um þessi mál hér, að nota slíkar aðferðir. Og ég vil endurtaka það, að ef slík vinnubrögð verða viðhöfð í framtíðinni er stórhætta á því að þar komi mikið mótslag. Menn vilja ekki slík vinnubrögð og geta í rauninni alls ekki þolað slík vinnubrögð. Það er málið, og það eru ekki hótanir. Það er bara verið að benda mönnum á þegar þeir leyfa sér að viðhafa röng vinnubrögð og ósæmileg vinnubrögð. Hæstv. ráðh. ber skylda til þess að gera Alþ. grein fyrir því, hvað þeir hafa í huga, og ræða málin efnislega við þm. og viðkomandi þingnefndir áður en ákvarðanir eru teknar. Þess vegna gladdist ég yfir því, að hann virtist á þessum stutta tíma hafa tekið sinnaskiptum í þeim efnum, vegna þess að hann sagði orðrétt: „Og það mun ég gera í framtíðinni áður en ákvörðun er tekin.“ Það er mjög gott ef það, sem ég sagði, hefur orðið til þess að hann ætlar sér að vinna góð verk í framtíðinni.

Ég vil segja það, að ég hef verið í sjútvn. í allmörg ár og þar hafa starfað ýmsir ráðh. Síðasti hæstv. sjútvrh. lék lengi þennan leik, að tala ekki við nokkurn mann. Og ég margsagði honum það — vegna þess að ég átti að heita stuðningsmaður þeirrar ríkisstj. — að þar veldi hann sér hina erfiðu braut og hina erfiðu aðferð, að láta okkur ekki vita um nokkurn skapaðan hlut fyrr en allt hefði verið ákveðið. En ég kemst ekki hjá því að segja það um leið, fyrst ég var að nefna síðasta hæstv. sjútvrh., að þegar hv. þm. Matthías Bjarnason var hér sjútvrh. — og þótti frekur nokkuð og djarfur í ákvörðunum, þá má hann eiga það, að hann hafði ekki aðeins samband við þingflokka, einnig stjórnarandstöðuflokka, heldur líka við sjútvn. og lét okkur ítrekað fylgjast með málum og það vel. Ég tel að þannig eigi að vinna. Það gerði einnig Lúðvík Jósepsson þegar hann var ráðh. Hann hafði yfirleitt gott samband við okkur þó að hann þyki stundum fara talsvert eigin leiðir. Þannig þarf að vinna, að hæstv. ráðh. ræði við okkur, og það var í fyrsta lagi þess vegna sem ég talaði hér áðan.

Hæstv. ráðh. sagði líka að menn hér treystu sér ekki til þess að segja hversu mikið mætti veiða. Ég veit ekki hverjir geta staðið hér upp einir sér og sagt: Það á að fiska svona miklu meira. — Það er hrein frekja að ætlast til þess að einn maður geri það. Og mér finnst það ekkert minni frekja, að einn maður geri það, þótt hann sitji í ráðherrastól. Það jaðraði við stórmennskubrjálæði, fyndist mér, ef ég færi að standa hér upp og segja: Það má fiska 100 þús. tonn í viðbót eða 150 þús. tonn í viðbót. Það, sem ég á við, er að um þessi mál sé rætt, að leitað sé upplýsinga alls staðar þar sem von er á góðum upplýsingum og ekki aðeins hjá fiskifræðingum. Og það er ekki rétt, það er bókstaflega rangt, að ég hafi verið að gagnrýna hér vinnubrögð fiskifræðinga. Það er misskilningur. Ég óttast það, að við séum annaðhvort ekki á sömu bylgjulengd eða þá jafnvel að við tölum ekki sama málið. Ég hef aldrei leyft mér að segja það. Ég tók m.a.s. sérstaklega fram, að ég treysti fullkomlega þeirra útreikningum, en ég efaðist hins vegar um að forsendurnar væru nægilega góðar. Þetta ætlast ég til að hæstv. ráðh. skilji, svo menntaður sem hann er.

Sannleikurinn er nefnilega sá, að því miður hafa okkar ágætu fiskifræðingar ekki haft tækifæri til þess að afla sér nægilega traustra forsendna. Það er vegna þess að þeir hafa ekki haft nema eitt skip í senn til þess að mæla stofninn, eins og það heitir. Það er alls ekki nóg. Það þarf lengri tíma til þess og fleiri skip. Þetta mál þarf sérstaklega að athuga, hvort ekki er unnt að leggja til þess peninga að fiskifræðingarnir hafi fleiri skip undir höndum þegar þannig stendur á. Það er auðvitað ekkert vit í því að fjölga skipum til brúks allt árið í þessu skyni. Þetta er gert á ákveðnum tímum, þegar það á best við og þegar líklegt er að réttastar niðurstöður fáist. Þá þarf auðvitað að fá leiguskip þann tíma. Það er öllum fyrir bestu og það skiptir gífurlega miklu máli. Þetta getur munað milljörðum og milljarðatugum, en það kostar kannske nokkrar milljónir að leigja skip takmarkaðan tíma.

Þetta vona ég að hæstv. ráðh. hugsi aðeins um. Ég stend ekki hér upp til þess að hreyta í hann ónotum að tilefnislausu. Ég geri það fyrst og fremst til þess að reyna að minna hæstv. ráðh. á að hann verður — og það er öllum þessum málum fyrir bestu — að ræða málin hér við viðkomandi aðila. Það er ekki verið að ráðast á hann persónulega með þessu. Þetta eru bara hin réttu vinnubrögð.

Hæstv. fyrrv. sjútvrh., Kjartan Jóhannsson, breytti nokkuð um stefnu síðari hluta síns stjórnartímabils og fór að hafa meira samráð við okkur hér. Það tók að vísu nokkuð langan tíma fyrir hæstv. ráðh., að átta sig á þessu. En hæstv. ráðh. Steingrími Hermannssyni til hróss, þá hefur hann nú þegar ákveðið að gera þetta.

Það er nú þannig með þetta loðnumál allt, að það hefði auðvitað þurft að taka því tak miklu fyrr. Það er málið. Það er ekki nóg að bíða þess dags, þegar nauðsynlegt er að taka ákvörðun, og gefa út einhverja reglugerð. Það eru ekki góð vinnubrögð heldur. Við vitum að göngur loðnunnar eru ákaflega misjafnar. Nú hagar hún sér meira að segja allt öðruvísi en nokkru sinni fyrr. Stundum hefur hún gengið vestur með öllu landi og til Vestfjarða aftur, suður með Austfjörðum og svo vestur úr. En stundum hefur hún ekki komist lengra en að Ingólfshöfða. Nú er hún öll fyrir norðan. Þetta eru ákaflega breytilegar göngur og það eru líka ákaflega breytilegar aðstæður. Það getur verið um markaðsaðstæður að ræða einnig, eins og hefur komið í ljós núna.

Þessum aðstæðum öllum þarf að fylgjast með á hverjum degi, en ekki síðasta daginn fyrir ákvörðun, og haga sér samkvæmt því. Þegar menn átta sig á því, hvað er fram undan í þessum efnum, þurfa þeir að grípa til þeirra ráðstafana sem eru viðeigandi við þær aðstæður. Að þessu sinni hefði verið skynsamlegt að átta sig nógu fljótt á því, ef menn vildu jafna aflanum milli verksmiðja, að taka annaðhvort upp loðnuflutningasjóð eða eitthvað annað af því lagi sem ég nefndi áðan. Það væri auðvitað rétt. En sumum mönnum virðist vera fyrirmunað að gera þessa hluti rétt, því miður. Það þarf að liðka kerfið okkar betur. Það þarf fleiri möguleika til þess að geta snúist nógu fljótt við þeim vanda sem upp kemur. Hann er kannske allt annar en hann verður næst. En kerfið þarf líka að vera svo liðugt að það geti snúist yfir á þann væng sem þá dugar best. Auk þess held ég að sé alveg ljóst, að það þurfi að fylgjast betur með stofninum og lengur, ekki fara í skyndileiðangra aðeins um takmarkaðan tíma í kannske einum afmörkuðum tilgangi, heldur fylgjast stöðugt með göngunni og reyna að athuga hvort hún sé ekki víðar en einmitt á þeim stað þar sem verið er að veiða. Með því móti glöggva menn sig betur á stærð stofnsins. Þarna er atriði sem ég vonast til að hæstv. ráðh. átti sig á.

Hæstv. ráðh. sagði að hann hefði tekið þessa ákvörðun sjálfur, hann hefði skýrt ríkisstj. frá þessu, en ekki lagt málið fyrir ríkisstj. Það, sem ég vissi þegar ég heyrði fréttina í hádegisútvarpinu og þegar ég talaði hér í fyrra skiptið, var aðeins það sem okkur hafði verið sagt, að um þetta hefði verið gert samkomulag þegar ríkisstj. var sett á laggirnar, þannig að ekki mætti taka slíkar stórvægilegar ákvarðanir nema með samþykki hinna flokkanna. Þetta var það sem ég vissi þá. Nú eftir ræðu hæstv. sjútvrh. veit ég að þetta samkomulag var ekki haldið. Þetta var ákvörðun hans. Málið var aðeins lagt fyrir, það var skýrt frá því, en það var ekki lagt fyrir ríkisstj. til úrskurðar. Þess vegna verð ég að segja það, að ég fagna því og ég fagna því mjög, að þetta skuli ekki vera ákvörðun allrar ríkisstj. og að ráðherrar míns flokks bera þar með ekki ábyrgð á henni.

Hæstv. ráðh. sagði að lokum, þegar hann ætlaði að gera tilraun til þess að vera skemmtilegur, sem honum tekst einstaka sinnum, að hann hefði nú ekki haft fyrir því, eins og hann sagði orðrétt: „Ég kom ekki til þessa hv. þm.“— og horfði á mig um leið og þóttist miklu meiri maður fyrir að hafa getað gert þetta einn, án míns stuðnings. En þetta er nú einmitt málið. Það má auðvitað gera að gamni sínu, en þetta er málið. Hann hefði ekki átt að hrósa sér af því að hafa sniðgengið menn úr sjútvn. eða formann hennar. Hann átti að harma það og viðurkenna það. Þarna er nefnilega potturinn brotinn. Og ég vona, satt að segja, að hæstv. ráðh. standi við það í framtíðinni að ræða þessi mál við okkur og þá kannske ekki síst mig áður en hann hleypur til slíkra ákvarðana.