12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hygg að þótt þessi umræða sé orðin býsna langdregin getum við verið sammála um að hún hafi verið gagnleg. Hér hafa fulltrúar allra flokka tjáð sig um þessi mál og þeir eru allir þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ákvarðanir um meiri háttar takmarkanir á nýtingu fiskstofna okkar verði teknar í samráði við þá aðila sem hér eiga helst um að véla, þ.e. stjórnmálaflokkana sem eiga fulltrúa á Alþ., sjútvn. þingdeildanna og aðra slíka aðila. Það er sérstök ástæða til að fagna þessari eindregnu samstöðu, sem komið hefur fram hér á Alþ., með tilliti til þess, að með því virðist ríkisstj. eiga stuðningsmenn miklu víðar en til þessa hefur þó komið fram. En í málefnasamningi ríkisstj. Gunnars Thoroddsens, á bls. 9, segir svo í tölul. 4: „Fiskveiðistefnan verði ákveðin þannig að hagsmunaaðilum sé ljóst með góðum fyrirvara, hvaða reglur eigi að gilda um nýtingu fiskimiðanna, og framkvæmd stefnunnar verði endurskoðuð með það í huga að tryggja sem víðtækust samráð.“ Hér er komið í ljós eftir umræður í dag, að á þessu sviði a.m.k. á ríkisstj. ákaflega víðtækan stuðning á hv. Alþingi.

Reynslan úr vinstri stjórninni í þessum efnum var hins vegar ekki alveg nógu góð. Þá kom fyrir að teknar voru ákvarðanir, t.d. um þorskveiðistefnuna, í rauninni án þess að slíkt væri borið undir ríkisstj. Auðvitað er ráðh. sjálfstætt stjórnvald samkv. laganna hljóðan. Ríkisstj. er ekki fjölskipað stjórnvald og þess vegna ber ráðh. ábyrgð á sinni gjörð. En hin pólitíska ábyrgð er hjá öllum þeim flokkum — eða hvernig sem það nú er — sem að ríkisstj. standa á hverjum tíma. Þess vegna er skylt að hafa pólitískt samráð um hlutina þrátt fyrir að hið formlega vald sé á hendi ráðh. Um þetta eru allir menn nú sammála. Einkum er mönnum þetta ljóst eftir að sú nauðsyn vex stöðugt að höfð sé aðgát við nýtingu fiskstofna okkar.

Ég vil í tengslum við þessar umræður láta það koma fram, að ég er viss um að núv. hæstv. ríkisstj. mun standa þannig að þessum málum að leita sem víðtækasts samráðs við þá aðila sem hér eiga um að fjalla. En ég vil einnig láta það koma hér fram, vegna þess að það mál er nokkuð skylt, að á fundi sínum í morgun ræddi ríkisstj. sérstaklega um þau atvinnuvandamál sem nú blasa við Vestmannaeyjum, ekki einungis vegna ástandsins að því er loðnuna varðar, heldur einnig á öðrum sviðum atvinnulífsins. Ríkisstj. hefur ákveðið að taka sérstaklega á atvinnuvandamálum Vestmannaeyja og mun gera grein fyrir því opinberlega næstu daga.