12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Sennilega hefði ég ekki gengið öðru sinni í ræðustól ef ég hefði ekki fundið hjá mér þörf til þess vegna ummæla hv. þm. Karvels Pálmasonar að undirstrika það alveg sérstaklega, að ég var einn af þeim þm. Alþb. sem með hvað glöðustu sinni hvöttu nú til þess að gengið yrði til þess stjórnarsamstarfs sem hér hefur tekist. Hnígur það æ í sömu áttina hjá hv. þm., að ýmist byggir hann vitneskju sína á röngum upplýsingum eða misskilur það sem honum er sagt.

Fyrst ég kom hingað upp í ræðustólinn hvort sem var, þess erindis að taka af allan efa um afstöðu mína til núv. ríkisstj., verð ég rétt aðeins að víkja að fremur ómerkilegum atriðum í ræðu hæstv, sjútvrh. sem snerta þó ákaflega náið nokkur atriði í mínu vitsmunalífi á þann hátt að ég get ekki látið kyrrt liggja.

Hafi starfsmönnum sjútvrn. ekki verið kunnugt um það í nóvembermánuði s.l., að fyrir lágu í Japan eins og hálfs árs birgðir af loðnuhrognum óseldum miðað við meðalnotkun undanfarinna þriggja ára, er þar um að ræða vítaverða fávisku og ber þá hæstv. sjútvrh. að mínu viti að kynna sér hið fyrsta ástæðurnar fyrir því arna. Nú er telexsamband, veit ég, alldýrt við Japan, en hefði þó borgað sig a.m.k. í því tilfelli að eyða nokkrum símskeytum til að fylgjast þar með. Og hafi sérfræðingar sjútvrn. ekki þá afsökun að þeir hafi ekki vitað af þessu, þá má spyrja þá sem svo, hvort þeir hafi ekki talið sennilegt að sölutregða á loðnumarkaði í Japan kynni að hafa einhver áhrif á möguleika okkar til að selja meiri hrogn á þennan markað sem svo var birgur af vörunni.

Nú ítreka ég þá skoðun mína, að aðrir viti ekki betur en fiskifræðingar um ástand fiskstofnanna í kringum landið. En þar með er ekki sagt að fleiri viti ekki nokkuð um ástand þeirra stofna, og þar með tel ég skipstjóra og stýrimenn á 50 hringnótaskipum sem þessar veiðar stunda og hafa gert árum saman.

Ég ætla alls ekki að fara að álasa ráðh. fyrir að hafa tekið ákvörðun í morgun varðandi loðnuveiðarnar sem ég tel ranga. Vitaskuld tók hann þá ákvörðun af því að hann taldi hana sjálfur vera rétta. En hann hefur reynt það í dag, sem við ýmsir höfum reynt áður og okkur hefur flestum orðið á á lífsleiðinni, að það er ekki sama með hvaða hætti röng ákvörðun er tekin. Það getur valdið ákaflega miklu um framhaldið. Honum hefur raunar ekki verið legið á hálsi fyrir annað en að veita ekki hv. Alþ. — eða nánar tiltekið sjútvn. Alþ. — hlutdeild í þessari ákvarðanatöku. — Ákvörðunin var mín, sagði hæstv. ráðh. Það er rétt. Það gladdi mig að hann skyldi vera hættur að kenna krötum um. Mér finnst ekki stórmannlegt að kenna þeim um þess háttar.

Og aðeins í lokin: Því fer víðs fjarri, þótt hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefði orð á því, að ég hafi haft í hótunum við hæstv. ráðh. eða við ríkisstj. í sambandi við þetta mál. Ég tel að þessar umræður hafi verið góðar og nytsamar, og þeim mun betur mun ég standa við bakið á núv. ríkisstj. sem ég gagnrýni ákafar eða hvassar vinnubrögð af því lagi sem hér áttu sér stað.