12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan að hann hefði tilkynnt ríkisstj. ákvörðun sína í morgun. Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði, að með þessari ákvörðun hefði verið rofinn sá samstarfssamningur sem myndaður hefði verið um núv. hæstv. ríkisstj., og fagnaði því að hæstv. Alþýðubandalagsráðh. hefðu því ekki stutt hana. Mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh., hvort ráðh. Alþb. hafi gert athugasemdir á ríkisstjórnarfundi við ákvörðun hæstv. ráðh. Hafi svo ekki verið bera ráðh. Alþb. fulla ábyrgð á ákvörðun hans. Það er best að í ljós komi hvort svo hafi verið.

Ég ætla ekki að deila um það við hv. þm. Stefán Jónsson, hversu dyggur hann hefur verið í upphafi þessa stjórnarsamstarfs. Ég hef aðrar hugmyndir um það mál og eftir nokkuð ábyggilegum leiðum. Hitt þykir mér einkennilegur skilningur hjá hæstv. félmrh., þegar hann telur að þær umræður, sem orðið hafa í dag, hafi orðið til að fjölga í stuðningsliði hæstv. ríkisstj. Tveir hv. þm. Alþb. höfðu um það orð í upphafi þingfundar í dag og létu að því liggja að þeir væru vægast sagt mjög svo tregir stuðningsmenn þessarar ríkisstj. ef svo héldi fram sem horfði, í ljósi þeirrar ákvörðunar sem tekin var í morgun. Þetta þykir hæstv. félmrh., hátt settum í forusturöð Alþb., merki þess að það hafi aukist stuðningur við hæstv. ríkisstj. í dag. Tveir hv. þm. Alþb. svo gott sem afneituðu henni í upphafi þingfundar í dag. Þetta er einkennilegur skilningur á þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað. En það er auðvitað mál hæstv. ráðh. hvernig hann skilur hálfgerða afneitun þeirra hv. þm. Garðars Sigurðssonar og Stefáns Jónssonar.