12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel rétt að koma því alveg ákveðið á framfæri, að það var um engan misskilning af minni hendi að ræða og ég hef engan sérstakan hug á að rýra tekjur sjómanna, eins og að mér var dróttað. Hins vegar vildi ég gjarnan koma því á framfæri, að ég tel að það sé mesta hættuspil í íslenskum sjávarútvegi að veiðar séu leyfðar um hávetur á loðnu langt undan Norðurlandi. Það tel ég meira hættuspil en nokkuð annað. Vel má vera að það megi örlítið horfa á þann þátt líka, þó að ekki hafi orðið að stórslysi til þessa.

Ég vil líka bæta því við í þessu sambandi, að olíukostnaður íslenskra fiskiskipa er orðinn mjög stór þáttur í rekstrarkostnaði þeirra. Vissulega mætti setja það inn í reikningsdæmið ef það væri gert upp.