12.02.1980
Neðri deild: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þegar ljóst var í des. s.l. að fjárlög fyrir árið 1980 yrðu ekki afgreidd fyrir upphaf fjárhagsársins var ríkisstj., eins og öllum hv. þm. er kunnugt, veitt heimild til þess með lögum nr. 98 31. des. 1979 að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða í samræmi við fjárlög fyrir árið 1979, en að teknu tilliti til almennrar verðlagsþróunar, öll venjuleg rekstrargjöld og önnur gjöld er talist geta til venjulegra fastra greiðslna ríkisins, þótt ákveðin séu eða heimiluð til eins árs í senn, eins og þar sagði. Enn fremur var ríkisstj. heimilað að greiða úr ríkissjóði nauðsynlegar greiðslur til að standa við þegar gerða samninga vegna fjárfestinga ríkisins. Heimildir þessar skyldu gilda þar til fjárlög fyrir árið 1980 tækju gildi, þó ekki lengur en til 15. febr. 1980.

Með framangreindum lögum var þáv. fjmrh. enn fremur heimilað að stofna til tímabundins yfirdráttar á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum vegna árstíðabundinna sveiflna í fjármálum ríkisins svo og að taka allt að 12 þús. millj. kr. lán til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eða endurlána til sveitarfélaga og samtaka á þeirra vegum.

Nú ætti að vera nokkuð ljóst að fjárlög fyrir árið 1980 verða ekki afgreidd fyrir þessa tímasetningu, 15. febr. Af þeim ástæðum ber að sjálfsögðu brýna nauðsyn til að framlengja gildi laganna þannig að ekki komi til greiðslustöðvana hjá ríkissjóði þegar um næstu helgi.

Í 1. gr. þess frv., sem hér er lagt fram, er tillaga gerð um að greiðsluheimildir laganna verði framlengdar til 3. apríl n.k. 3. apríl er skírdagur og þessi tímasetning er ákveðin eða tillaga um hana gerð í trausti þess, að þá verði Alþ. búið að afgreiða fjárlög fyrir yfirstandandi ár. Vissulega hefði komið til greina að hafa heimildina ótímasetta, en ég held að hyggilegt sé að Alþ. veiti sjálfu sér aðhald með þessum hætti og einsetji sér að hafa afgreitt fjárlög fyrir páska.

Í 2. gr. frv.er lagt til að fjmrh. verði veitt heimild til að selja innanlánsstofnunum ríkissjóðsvíxla eða ríkisskuldabréf. Þetta er í fullu samræmi við málefnasamning núv. ríkisstj., í fullu samræmi við þá stefnu ríkisstj. að fjármögnun á árstíðabundnum halla ríkissjóðs verði sem mest utan Seðlabankans.

Í 3. gr. frv. er lagt til að fjmrh. verði veitt heimild til að gefa út til sölu innanlands ríkisskuldabréf eða spariskírteini að fjárhæð allt að 5600 millj. kr. Gert hefur verið ráð fyrir að verulegur hluti þess fjár, sem ætlað er til lánsfjármagnaðra framkvæmda innanlands á þessu ári, komi af sölu spariskírteina ríkissjóðs. Undanfarin ár hefur hluti þeirra spariskírteina, sem til sölu er, verið settur á markað í marsmánuði. Þar sem ekki er öruggt að fjárlög verði afgreidd fyrr en í lok þess mánaðar er bersýnilega nauðsynlegt að leita þessarar lagaheimildar nú þegar til þess að hægt sé að bjóða skírteinin til sölu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.