12.02.1980
Neðri deild: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Sighvatur Björgvinsson:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins nokkur orð.

Það kom ljóslega fram í þeirri greiðsluáætlun, sem ég var krafinn um, að útflutningsbæturnar voru meðal þess sem Alþ. heimilaði mér ekki að greiða.

Ég ítreka spurningu mína, hvort ekki megi eiga von á því að hæstv. fjmrh. sýni Alþ. og fjh.- og viðskn. sömu háttvísi og ég gerði, að um leið og hann leggur fyrir Alþ. beiðni um greiðsluheimildir leggi hann fram greiðsluáætlun um það í stórum dráttum, hvað það er sem hann er að biðja Alþ. að veita hér heimildir til að greiða og hvað ekki.

Ég vona að það hafi ekki vafist neitt fyrir mönnum og komi engum á óvart að útflutningsbætur hafa ekki verið greiddar á árinu 1980. Skýringin er mjög einföld. Alþ. heimilaði ekki greiðstu þeirra. Í þeirri greiðsluáætlun, sem fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. og Ed. afgreiddi í sambandi við afgreiðsluna á frv. frá því fyrir jólin, var skýrt tekið fram að í þeirri áætlun væri ekki gert ráð fyrir að greiða útflutningsbætur. Þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt til að taka af öll tvímæli um slík mál að kalla eftir því hjá hæstv. ríkisstj. að hún láti fylgja beiðni eins og hér um ræðir áætlun um hvaða greiðslur hún hyggst inna af hendi á tíma heimildarinnar.