13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið bent á það, m.a. í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens, að til þess að geta náð árangri í stjórnun ríkisfjármála sé nauðsynlegt að gerðar verði strangari greiðsluáætlanir fyrir ríkissjóð innan hvers árs heldur en gert hefur verið, m.ö.o. að menn taki ekki áhættuna af því að ætla að vinna það upp á síðustu mánuðum ársins sem menn fyrirsjáanlega tapa á þeim fyrstu í ríkisfjármálunum — eða eins og vís maður hefur orðað það: að menn ætli ekki að gera vísvitandi út með taprekstri á parísarhjólinu, en hala það síðan inn á rekstri hringekjunnar.

Þegar lögð var fram beiðni hér í desembermánuði um bráðabirgðafjárgreiðsluheimildir fyrir ríkissjóð, þótti Alþ. sjálfsagt og eðlilegt að krefjast þess af fjmrh., sem um þær bað, að hann gæfi upplýsingar um hvernig hann ætlaði að haga útgreiðslum sínum, við hvaða greiðsluáætlun hann ætlaði að styðjast. Þetta var lagt fram. Þetta er ekki mjög flókið plagg. Það er á einni bls., var lagt fram 20. des. 1979 og var ekki mikill undirbúningur sem þurfti til að vinna þá áætlun út af fyrir sig. Miðað við þá greiðsluáætlun, sem þar var samin, var gert ráð fyrir að tekjur í janúarmánuði hjá ríkissjóði yrðu 19 milljarðar kr. rúmlega, gjöld 26.5 milljarðar, þannig að rekstrarhalli á ríkissjóði í janúarmánuði yrði 7.4 milljarðar kr.

Mér þótti sýnt að það væri svo ríkur stuðningur við aðhaldssama fjármálastjórnun, eins og m.a. fram hefur komið í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens, að ég starfaði eftir talsvert strangari greiðsluáætlun en gert var ráð fyrir, með þeim afleiðingum, eins og hv. formaður fjh.- og viðskn. lýsti áðan, að tekjur og gjöld í janúarmánuði voru nánast hin sömu. Rekstrarhalli ríkissjóðs varð því ekki 7.5 milljarðar, eins og gert var ráð fyrir, heldur rúmar 100 millj. kr.

Ég held að vart geti farið hjá því, að hæstv. ríkisstj. vilji gjarnan halda áfram slíkri aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum, a.m.k. ef marka má stjórnarsáttmála hennar. Það hefur komið hér fram hjá hv. formanni fjh.og viðskn., að gert sé ráð fyrir því varaðandi greiðslur úr ríkissjóði þann tíma sem greiðsluheimildirnar taka til, til 3. apríl n.k., að starfað verði með svipuðum hætti og sú greiðsluáætlun gerði ráð fyrir sem lögð var fyrir fjh.- og viðskn. 20. des. s.l. Í því sambandi vil ég aðeins vekja athygli á því, að utan greiðsluheimilda eru þá taldar t.d. vegagerðarframkvæmdir allar eins og þær leggja sig, nýjar hreinar ríkisframkvæmdir, nýjar framkvæmdir sem kostaðar eru af fleiri aðilum en ríkinu, allir fjárfestingarstyrkir til sveitarfélaga, allir fjárfestingarstyrkir til einstaklinga og öll framlög til fjárfestingarsjóða.

Ég spurði um það í gær, hvort ríkisstj. treysti sér til þess að athuguðu máli að halda við slíka greiðsluáætlun, hvort hún treysti sér t.d. til þess, að ekki yrði hægt fyrir 3. apríl n.k. að greiða svo mikið sem eina krónu vegna vegagerðarframkvæmda, sem mun, ef að öllum líkum lætur, verða talsverður þrýstingur á að hefjist fyrir þann tíma. Ég tel með öllu útilokað að afgreiða þetta mál á Alþ. öðruvísi en a.m.k. einhver yfirlýsing liggi fyrir um það frá hæstv. fjmrh. — þó svo að honum hafi ekki gefist tími til að semja neina slíka greiðsluáætlun — hvort hann, þegar hann fær nú þessar heimildir sem ég tel sjálfsagt að veita honum, muni halda sér við þá greiðsluáætlun, sem lögð var til grundvallar þeim bráðabirgðafjárgreiðsluheimildum sem veittar voru í desembermánuði, eða hvort hann hyggst framkvæma þetta með einhverjum öðrum hætti, t.d. að láta þessar greiðsluheimildir ná til fjárfestingarframkvæmda og þá hverra.

Ég vil gjarnan biðja hæstv. fjmrh. um það, þó að ekki hafi gefist tími til að leggja fram þetta plagg hér eða ígildi þessa plaggs, sem ekki er langt eða flókið, að svara eftirfarandi spurningum: Treystir hæstv. ráðh. sér til að framkvæma í stórum dráttum þá greiðsluáætlun sem starfað hefur verið eftir í fjmrn. undanfarinn hálfan annan mánuð? Hyggst hann víkja frá þeirri greiðsluáætlun? Ef svo er, ef hann hyggst taka inn í sína greiðsluáætlun einhverjar fjárfestingarframkvæmdir, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir Alþ. að vita af því. Ég vil láta það koma fram, að ég tel mjög vafasamt að veita ríkisstj. greiðsluheimildir til nýrra fjárfestingarframkvæmda, því að það er meginviðfangsefni Alþingis og fjvn. að afgreiða slík mál.