13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Karvel Pálmason hélt því fram áðan, að engar upplýsingar hefðu verið gefnar í fjh.- og viðskn. Nd. um væntanlegar greiðslur í samræmi við þá greiðsluáætlun sem hér er til umræðu. Auðvitað er þetta á nokkrum misskilningi byggt. Ef hv. þm. hefur setið þann fund sem hér um ræðir, þá veit hann jafnvel og aðrir að á þeim fundi gaf starfsmaður fjmrn. upplýsingar um það, hvernig þessi heimild yrði nýtt. M.a. veitti hann upplýsingar um það, hverjar væru áætlaðar greiðslur í þessum mánuði og hinum næsta. Hitt er ljóst, að fjmrn. treystir sér ekki til að leggja fram sundurliðaða og nákvæma greiðsluáætlun fyrir þennan mánuð og hinn næsta. Til þess að unnt sé að leggja slíka greiðsluáætlun fram þarf miklu lengri undirbúningstíma og fjmrn. skortir upplýsingar sem þarf til þess að geta sett saman af einhverri nákvæmni greiðsluáætlun af þessu lagi.

Ef Alþ. gerir kröfu til þess að fá sundurliðaða greiðsluáætlun í hendur, þá er alveg ljóst að hún verður ekki fyrirliggjandi fyrr en eftir helgi, og það þýðir þá í raun að Alþ. tekur ákvörðun um það að loka ríkiskassanum fram í næstu viku, með þeim afleiðingum sem það hlýtur að hafa.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. fjmrh., gerði grein fyrir því á fundi deildarinnar í gær að fjmrn. hefði lagt fram greiðsluáætlun við afgreiðslu málsins fyrir jól. Hann vitnaði reyndar í þessa greiðsluáætlun áðan og hafði hana bersýnilega í sínum höndum. Hann fullyrti í gær að samkv. þessari greiðsluáætlun hefði verið óheimilt að greiða t.d. útflutningsbætur. En þarna fór hann ekki með rétt mál. Ég hef séð þetta plagg og veit að þetta er sama plaggið og hann hefur í höndum og samkv. því er beinlínis fram tekið að heimilt sé að greiða útflutningsbætur.

Hitt er allt annað mál, að eftir að greiðsluheimildin hafði verið samþykkt í þinginu túlkaði fyrrv. ráðh. greiðsluheimildina á þann veg, að sér væri ekki heimilt að greiða útflutningsbætur, sem er að sjálfsögðu allt annað mál. En að þingið eða nefndin hafi sett honum stólinn fyrir dyrnar við meðferð málsins í nefnd fyrir jól, það er alls ekki rétt og enn síður rétt að fjmrn. hafi lagt það fyrir, Þetta var persónuleg túlkun ráðh. og við hana hélt hann mjög fast, eins og hér hefur komið fram. Þetta hefur fyrrv. ráðh. básúnað út sem aðhaldssama fjármálastjórn og segir að sér leiki forvitni á að vita hvort nýi ráðh. muni fylgja jafnaðhaldssamri fjármálastjórn, að neita að greiða lögbundnar greiðslur svo og svo lengi. Ég get upplýst það hér, að ég tel að fjármálastjórn af þessu lagi geti tæpast flokkast undir aðhald, þar sem um lögbrot er að ræða, og ég tel að „aðhaldsöm fjármálastjórn“ af þessu lagi sé með öllu óframkvæmanleg til lengdar. Það er hægt að vera með reikningskúnstir af þessu lagi í nokkrar vikur og sýna fram á að ríkið hafi ekki safnað skuldum einfaldlega vegna þess að lögbundnir reikningar hlaðast upp í fjmrn. og fjmrh. neitar að greiða þá. En það segir sig nokkuð sjálft, að gersamlega er útilokað að halda slíku áfram í tvo mánuði í viðbót.

Ég vil taka það fram, að ég tel alveg óhjákvæmilegt að í vissum tilvikum verði um að ræða greiðslur til fjárfestingarframkvæmda, svo að dæmi sé nefnt, eins og hv. þm. spurði um áðan. Ég held að ekki sé hægt að binda hendur fjmrn. að þessu leyti, að ekki megi ein einasta króna fara til undirbúnings fjárfestingarframkvæmda á komandi ári, einfaldlega vegna þess að það er verið í ýmsum stofnunum að undirbúa verk sem er auðvitað alveg fullljóst að ráðist verður í, og það er ekki hægt að stöðva slíkan undirbúning með öllu fram í aprílmánuð. Það mundi hafa hinar verstu afleiðingar. Auðvitað segir það sig sjálft, að framkvæmdatíminn hjá hinum ýmsu stofnunum er ekki hafinn enn og hefst ekki fyrr en á vormánuðum, og er því ekki um það að ræða að fjmrn. muni fara að greiða fjármagn út í stórum stíl til fjárfestingarframkvæmda. Hins vegar er ekki hægt að loka þarna atgerlega fyrir og þar af leiðir að greiðsluheimildarbeiðnin er alls ekki orðuð á þann veg að hún útiloki greiðslur af þessu lagi. Ég held aðmálið sé ósköp einfaldlega komið í þann hnút, að ekki sé um annað að ræða fyrir þingið en annaðhvort samþykkja þetta greiðsluheimildarfrv. eins og það liggur fyrir ellegar þá að taka málið allt til nákvæmrar athugunar á næstu viku eða 10 dögum, og þá þýðir það, eins og ég nefndi áðan, að Alþ. lokar ríkiskassanum þennan tíma, með þeim afleiðingum sem það hlýtur að hafa.

Ég vildi aðeins að lokum víkja að nokkrum aths. sem komu fram í máli hv. þm. Alberts Guðmundssonar, 3. þm. Reykv. Hann vék að 2. gr. frv. þar sem fjmrh. er heimilað að selja innlánsstofnunum ríkissjóðsvíxla eða ríkisskuldabréf. Hér er um að ræða lántöku til skamms tíma, það er rétt að undirstrika það. Hér er um að ræða lántöku til skamms tíma sem er fyrst og fremst ætluð til þess að reyna að draga úr árstíðabundinni skuldasöfnun ríkissjóðs í Seðlabankanum. Þessi sala ríkissjóðsvíxla eða ríkisskuldabréfa hefur auðvitað einhver ákveðin áhrif á fjármagnsmarkaðinn, en ég held að flestir — og það menn úr öllum flokkum — séu sammála um að hin mikla skuldasöfnun ríkissjóðs í Seðlabankanum a fyrstu mánuðum ársins sé ákaflega óheppileg og mjög hyggilegt sé af efnahagslegum ástæðum að reyna að draga úr henni.

3. gr. fjallar hins vegar um heimild ríkissjóðs til þess að selja innanlands ríkisskuldabréf eða spariskírteini og hér er um að ræða lántöku til lengri tíma. Þessi heimild er vissulega nokkurs annars eðlis. En hún er að sjálfsögðu hugsuð í þeim tilgangi að draga úr erlendum lántökum, og ég held líka að flestir séu sammála um að það sé nauðsynlegt og skynsamlegt markmið að reyna að draga úr erlendum lántökum eins og nokkur kostur er, reyna að afla innlends lánsfjár eftir því sem tækifæri gefst til.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fjölyrða að öðru leyti frekar um þetta mál. Ég held að upplýsingar hafi verið gefnar í n. í morgun um það, hverjar væru í grófum dráttum áætlaðar greiðslur úr ríkissjóði samkv. þessari heimild í febr. og mars. Vissulega er hægt að sundurliða þessar greiðslur þannig, að þessari heildarupphæð sé skipt á aðalútgjaldaliði fjárlaga, og það er það plagg sem ég tel að sé væntanlegt úr fjmrn. innan tíðar. En eins og ég sagði áðan er vonlaust með öllu að gera kröfur til þess, að fjmrn. leggi í dag eða á morgun fram sundurliðaða nákvæma greiðsluáætlun fyrir næstu tvo mánuði. Það þarf áreiðanlega langan tíma til að undirbúa slíka áætlun, og ef þingið gerir kröfu til þess, þá hlýtur það að hafa þær afleiðingar að ekkert verður greitt úr ríkissjóði næstu vikuna a.m.k.