13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef grun um að fleiri en mér þyki einkennilegur hávaði út af þessu máli. Kjarni málsins er auðvitað ósköp einfaldlega sá, að fjmrn. hefur lagt fram áætlun um heildargreiðslur samkv. lagaheimildinni í febrúarmánuði og mars og þær heildargreiðslur eru í grófum dráttum byggðar á útgjöldum samkv. fjárlagafrv. því sem Tómas Árnason, fyrrv. fjmrh., lagði fram í haust. Að sjálfsögðu er þar gert ráð fyrir að heildargreiðslurnar verði í hverjum einstökum málaflokki í nokkuð réttu hlutfalli við útgjöld í fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar miðað við hvern útgjaldaflokk fyrir sig. Eins og ég sagði áðan er vafalaust von á sundurliðuðu plaggi sem geri nánar grein fyrir hvernig heildargreiðsluáætlunin skiptist. En þar er um mjög grófa skiptingu að ræða, svo grófa að það er auðvitað tæpast hægt að kalla slíkt greiðsluáætlun, það væri frekar að kalla það greiðsluyfirlit. Ég hef sagt það og segi enn, að það stendur að sjálfsögðu ekkert á því að leggja plagg af þessu lagi fram. En ef menn ætla að fá raunverulega sundurliðaða greiðsluáætlun hljóta menn að þurfa að bíða í talsvert marga daga eftir að hún verði tilbúin.

Svo var það innlegg fyrrv. fjmrh. út af fjárfestingarframkvæmdunum, sem áreiðanlega hefur komið fleiri en mér spánskt fyrir sjónir. Hann segir að það hafi aldrei áður gerst að fjmrh. hafi fengið heimild til greiðslu á fjárfestingarframkvæmdum. Hv. síðasti ræðumaður, Karvel Pálmason, spyr sérstaklega hvort ætlunin sé að heimildin nú verði nýtt á annan veg en sú heimild sem veitt var í desembermánuði, hvort það eigi að fara að greiða fé úr ríkissjóði til fjárfestingarframkvæmda sem ekki hafi áður verið ætlunin. Ég sé á öllu að menn eru að tala um hluti sem þeir hafa ekki ýkjamikið kynnt sér. Ef við lítum á frv. til l. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði, sem varð að lögum í desembermánuði, segir þar í 3. gr., með leyfi forseta:

„Fjmrh. f.h. ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að 12 þús. millj. kr. á árinu 1980 og verja andvirði þess í samráði við fjvn. til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eða endurlána til sveitarfélaga eða samtaka á þeirra vegum.“

Þetta hefur þingið þegar samþykkt. Það þarf ekki að fimbulfamba frekar um það á Alþ., hvort fjmrh. hafi eða eigi að hafa rétt til að greiða úr ríkissjóði til fjárfestingarframkvæmda. Það er auðvitað alveg ljóst af þessari heimild.

Skýringin er gefin í því frv., sem fyrrv. fjmrh. lagði fram, hvernig á því standi að veita þurfi heimild af þessu lagi. Í grg. segir, með leyfi forseta:

„Heimildar til lántöku er leitað til þess að halda megi áfram þeim verkefnum sem þegar eru hafin. Langveigamest verkefni eru á sviði orkumála. Afla verður fjár til áframhaldandi framkvæmda víð Vesturlínu, en sú framkvæmd nálgast nú lokastig. Hliðstæðu máli gegnir um ýmsar framkvæmdir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins. Gjaldfallinn fjármagnskostnaður við byggðalinur er umtalsverður á fyrri hluta ársins 1980 og því nauðsynlegt að fjár verði aflað til að inna þær greiðslu af hendi.“

Síðan er fjallað um ýmsar fjárfestingarframkvæmdir sem nauðsynlegt sé að verja fé til, og þarf ég ekki að lesa frekar.

Auðvitað er málið þannig, að nú eins og þá er óhjákvæmilegt að greiðslur eigi sér stað úr ríkissjóði til fjárfestingarframkvæmda. Fyrrv. fjmrh. lokaði hins vegar algerlega á slíkt. Ég var að upplýsa það hér áðan, að ég mundi telja óhjákvæmilegt að nýta þær heimildir sem berum orðum eru teknar fram í lögunum eins og þau liggja nú fyrir, vegna þess að undan því verði ekki vikist á næstu tveimur mánuðum.