13.02.1980
Efri deild: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég held að því verði ekki á móti mælt, að æskilegra hefði verið að fyllri upplýsingar hefðu legið fyrir áður en mál þetta er tekið til afgreiðslu hér í þinginu. Það, sem lagt hefur verið fram af hálfu fjmrh., er fyrst og fremst greiðslurammi og mjög lauslegt yfirlit yfir væntanlegar greiðslur, en ekki nein útfærð greiðsluáætlun sem getur staðið undir því nafni. Skýringin á þessu er sú sem allir þekkja hér, að ekki hefur unnist tími til að vinna það verk. Ef svigrúm hefði verið meira hefðu að sjálfsögðu fylgt ítarlegri upplýsingar þessu frv.

Við erum hins vegar komin í tímanauð og stöndum frammi fyrir því, hvort unnt verður að sinna greiðslum úr ríkissjóði nú fyrir helgi eða ekki. Ég þakka fjh.- og viðskn. fyrir það, að hún hefur afgreitt málið þótt gleggri upplýsingar liggi ekki fyrir, og mun beita mér fyrir því, að fjmrn. sendi fjh.- og viðskn. beggja deilda greiðsluáætlun þegar hún liggur fyrir.