14.02.1980
Neðri deild: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Formaður fjh.og viðskn., hv. 3. þm. Austurl., hefur nú gert grein fyrir nál. og þeim brtt. sem fjh.- og viðskn. flytur við það frv. sem hér er til umr., en frv. er árangur af framhaldsstarfi sem unnið hefur verið eftir að ný skattalög voru sett vorið 1978, lög nr. 40.

Á þinginu vorið 1977 var flutt frv. til nýrra skattalaga sem náði þá ekki fram að ganga, enda tæplega gert ráð fyrir því. Hins vegar fékk það frv. mjög ítarlega skoðun og miklar umræður og niðurstaða þess varð svo nýtt frv. sem flutt var á þinginu vorið 1978 og Alþ. samþykkti þá sem lög. Það var ljóst þá þegar, að ákveðin ákvæði í þeim lögum yrði að endurskoða og athuga nánar. Þar var um að ræða svo mikil nýmæli að rétt þótti að hafa slíkan fyrirvara á þegar löggjöfin var sett. Þeir hinir sömu aðilar, sem unnu að samningu þess frv. sem síðar varð að lögum, hafa unnið að þessu frv. og þeim brtt. sem hér eru til umr., þ.e. á vegum fjmrn. Ég vil taka undir orð formanns n. varðandi vinnubrögð þeirra, en ég vil ekki láta niður falla hans eigið nafn í því sambandi, því að hann hefur sjálfur frá fyrstu tíð unnið mjög ötullega að þeim breytingum á skattalögum sem við fjöllum um, bæði í tíð minni sem fjmrh. og síðar. Ég vil þess vegna færa honum þakkir. Þegar hann nefnir aðeins fulltrúa fjmrn. vil ég geta hans einnig.

Löggjöfin, sem nú gildir, er ný frá rótum að heita má. Hefur slík grundvallarbreyting á skattalögum ekki verið gerð frá því að skattalög voru sett 1971, því að allar þær breytingar, sem síðar voru gerðar, fram til ársins 1978, voru felldar inn í þann ramma sem smíðaður hafði verið með lögunum frá 1971. En breytingarnar, sem gerðar voru með lögum nr. 40/1978, voru ekki eingöngu formbreytingar, heldur voru gerðar mjög veigamiklar og margvíslegar efnisbreytingar. Má þar m.a. minna á breyttar reglur um skattlagningu hjóna, þar sem tekin var upp sérsköttun hjóna með nokkurri takmörkun. Það má benda á breyttar reglur í sambandi við frádráttarliði til skatts og þá tillögu sem fram kom um að gefa skattaðilum val milli fasts frádráttar eða að telja upp þá frádráttarliði sem þar um ræðir. Síðan má víkja að breyttum reglum um skattmeðferð einstaklinga sem fást við atvinnurekstur. Allt voru þetta nýmæli sem höfðu verið til umræðu nokkuð langan tíma. Með svo ítarlegri vinnu sem fram hafði farið tókst að mínum dómi að ná fram í mörgum tilfellum þeim reglum sem flestir gátu við unað, og ég held að ekki hafi komið fram mjög mikil gagnrýni.

Auðvitað liggur ljóst fyrir, að þegar um svo mörg nýmæli er að ræða sem raun ber vitni í þessari löggjöf hlýtur eitthvað að orka tvímælis og leiðréttingar fram að koma. Eru m.a. ákvæði í þeim till. sem fluttar eru af n. þar að lútandi.

Varðandi atvinnureksturinn eru í lögum nr. 40/1978 veigamiklar breytingar, en þar eru stærstu breytingarnar á reglunum um fyrningu og söluhagnað. Í þessum lögum eru heimilaðar fyrningar af endurmetnu stofnverði einstakra fyrnanlegra eigna, en þar er gert ráð fyrir að fyrningarnar séu takmarkaðar hjá þeim aðilum sem fjármagnað hafa fyrnanlegar eignir með lánsfé og notið hafa vaxtafrádráttar frá tekjum. Þá voru einnig samþykktar tillögur um breytingar á söluhagnaði af öllum eignum innan og utan atvinnurekstrar og söluhagnaðurinn þar gerður skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma, en söluhagnaður reiknaður sem mismunur söluverðs annars vegar og hins vegar kaupverðs sem framreiknað hafði verið eftir verðbreytingarstuðli að teknu tilliti til fenginna fyrninga.

Þessar reglur, sem settar voru í lögin, voru þess eðlis, að ljóst var að sum ákvæði þeirra varð að endurskoða. Er það frv., sem við ræðum í dag, árangur af því starfi.

Frv. gerir ráð fyrir annarri meðferð í sambandi við verðbreytingarhagnað. Í stað þess að gera ráð fyrir sérstökum endurmatsreikningi er gert ráð fyrir tekjufærslu og endurmatsreikningurinn ekki hafður með. Það liggur ljóst fyrir, að meðferðin í sambandi við verðbreytingarhagnað eða tap vegna peningaeigna og skulda er að mínum dómi það viðkvæmasta sem hér um ræðir. Eins og fram kemur í frv. er gert ráð fyrir að mögulegur verðbreytingarhagnaður geti skapað greiðsluvandræði. Frv. gerir ráð fyrir að slíkur hagnaður færist án tillits til peningastreymis. Til að koma á móti þessu er í 18. gr. frv. heimiluð sérstök fyrning, sérstök afskrift á móti verðbreytingarhagnaði, sem nemur í frv. 25%. Það kom fram í ræðu hv. formanns fjh.- og viðskn. að um þessa grein og þetta ákvæði varð ekki samkomulag í n., en samkomulag varð um allar aðrar brtt. sem n. flytur, enda eru þær til samræmis við það sjónarmið sem er í löggjöfinni, sem gildir, og því frv., sem flutt hefur verið til breytinga á skattalögunum. Brtt. ganga allar í þá átt að koma í veg fyrir að verðbreytingarhagnaður án peningastreymis lendi í skatti, en þar sem slík tilfelli geta og hljóta að verða að sjálfsögðu mörg sýnist mér að mjög vel verði að líta til þess þegar farið er úr einu kerfi yfir í annað og gera þessar reglur þannig úr garði að ekki skapist tjón af.

Eins og fram kemur í nál. fjallaði fjh.- og viðskn. um ýmsar aðrar till. auk þessarar brtt, og ýmis önnur atriði, þ. á m. afskriftir vörubirgða og meðferð þeirra í uppgjöri fyrirtækja. Það náðist ekki heldur samkomulag um þau atriði og brtt. þar að lútandi því ekki fluttar við 2, umr. þessa máls. Hins vegar er í nál. vikið að atriðum varðandi fyrningarhlutfall, og n. taldi eðlilegt og rétt að láta koma fram skoðun sína þar að lútandi við afgreiðslu á þessu máli.

Það hefur komið fram gagnrýni í sambandi við þetta frv. og þá vikið að því, að e.t.v. sé hér ekki nógu varlega farið í þá breytingu sem löggjöfin og frv. gera ráð fyrir. Það má vel vera. En skoðun mín er hins vegar sú, að eftir því sem mögulegt er sé rétt að tryggja að þessi löggjöf og þær breytingar, sem lagðar eru til með frv., verði þannig úr garði gerðar að sá ótti, sem fram hefur komið, reynist ástæðulaus.

Ég tel að í ræðu formanns fjh.- og viðskn. hafi komið fram þau meginsjónarmið sem rædd voru í fjh.- og viðskn. varðandi afgreiðslu þessa máls. En eins og hann gat um undirrita fulltrúar Sjálfstfl. nál. með fyrirvara, og bæði kom það fram í ræðu hans og í því sem ég hér hef sagt, að ekki hefur náðst samkomulag um atriði sem að okkar dómi eru svo veigamikil að við töldum að ástæða væri til þess að þau væru skoðuð betur og freistað að ná samkomulagi. En við vildum ekki standa í vegi fyrir því að 2. umr. gæti farið fram um málið í dag og því yrði þannig þokað áfram.