18.02.1980
Neðri deild: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég held að öllum hv. þm. sé fullljóst, að ef ekki tekst að afgreiða þetta mál áður en þing gerir hlé á störfum sínum kæmi til alvarlegra vandræða. Ég sé á vinnubrögðum að menn eru ákveðnir í að láta ekki til þess koma og gera sér fyllilega grein fyrir því, að brýn þörf er á að hraða afgreiðslu þessa máls. Ég vil þakka fjh.- og viðskn. beggja d. fyrir ágæt störf þeirra að þessu máli og einnig sérstaklega þakka þeim ýmsu embættismönnum sem hafa undirbúið það, m.a. undanfarna daga við gerð ýmiss konar brtt. sem hafa komið fram á seinustu dögum.

Ég held að það leyni sér ekki að þetta frv. og þau lög, sem hér er verið að breyta og eiga að koma til framkvæmda á þessu ári, hafa ótvíræða kosti. Hér er um að ræða takmarkaða sérsköttun hjóna, aðskilnað rekstrar einstaklinga frá öðrum tekjum einstaklinga, aðlögun tekjuhugtaksins að verðbólgunni, endurmat eigna og gerbreyttar fyrningarreglur og um leið skattlagningu verðbólguhagnaðar. Allt er þetta tvímælalaust til hins betra og með þessari lagasetningu er gengið til móts við ýmis konar gagnrýni sem fram hefur verið borin á það tekjuskattskerfi sem áður var í gildi. Ég held sem sagt að kostirnir verði ekki dregnir í efa. Ég vil hins vegar minna á það í þessu sambandi, að ég var ekki einn þeirra sem greiddu atkvæði með tekjuskattslögunum þegar þau voru afgreidd fyrir tæpum tveimur árum. Ég flutti till. um að frv. yrði vísað til þáv. ríkisstj., þar sem það væri á ýmsan hátt ófullkomið og í mörgum atriðum gallað, og taldi eðlilegra að málið yrði tekið til nánari skoðunar. Ég flutti raunar brtt. við ýmis ákvæði frv. eins og það var þá, m.a. um fyrningarhlutföllin, sem ég taldi óhæfilega há, og um skatthlutfall lögaðila, sem ég taldi óhæfilega lágt. Ég óttaðist að atvinnureksturinn í landinu mundi sleppa óeðlilega frá skattlagningu að þessum lögum óbreyttum.

Ég greiddi sem sagt ekki þessu frv. atkvæði mitt þegar það var hér til lokaafgreiðslu. En það varð samt að lögum, til þess var sannarlega nægur meirihluti á þeim tíma. Síðan eru liðin tæp tvö ár. Það hefur komið í ljós, sem marga grunaði fyrir tæpum tveimur árum, að lögin byggju yfir mörgum ágöllum. Þeir ágallar hafa verið að koma í ljós, eins og best sést á því, að eftir að lögin hafa verið endurskoðuð, einkum í fjármálaráðherratíð Tómasar Árnasonar, fyrrv. fjmrh., koma í kjölfar þess fram 43 brtt. við lögin, hvorki meira né minna, og þær margar mjög flóknar og margþættar. Svo eftir að þetta frv. kemur fyrir þingið og er búið að vera þar til athugunar um nokkurt skeið koma enn fram fjöldamargar brtt., samtals 24. Og enn eru brtt. á ferðinni og eiga sjálfsagt eftir að koma fram.

Ég held að það leyni sér ekki að meðferð þessa máls er ákaflega óvenjuleg, að ekki sé meira sagt, og málið svo síðbúið að einsdæmi hlýtur að heita. Það er þess vegna eðlilegt og skiljanlegt að það sé kvíði í mörgum þegar menn hugsa til þeirrar álagningar tekjuskatts sem fram undan er. Ég hef orðið var við alvarlegar aðvaranir mætustu manna, sem hafa sagt við mig að það væri ekki aðeins kvíðvænlegt, það væri ábyrgðarhluti að leggja á samkv. hinum nýju lögum, jafnófullkomin og sumum virtust þau vera og jafnseint og lögin væru á ferðinni á þessu ári og allar brtt. Menn hafa kallað lögin tilraunastarfsemi og hafa sagt að það sé ekki aðeins mikil óvissa ríkjandi um það, hvaða ágallar kunni enn að leynast í þeim, heldur sé líka fullkomin óvissa um hvað lögin muni gefa og alveg sérstaklega hvað lögin muni gefa í tekjur af atvinnurekstri einstaklinga og félaga. Hafa hinir mætustu menn ráðlagt mér að beita mér fyrir því, að þessari lagasetningu yrði allri slegið á frest í heilt ár og menn legðu skatta á á komandi sumri samkvæmt gömlu lögunum, en skoðuðu málið allt vandlega í millitíðinni.

Menn hafa auðvitað sérstaklega áhyggjur af hinni gerbreyttu álagningu sem nú er tekin upp varðandi skattlagningu hjóna, þar sem ljóst er að frádráttur vegna tekna útivinnandi kvenna er ekki lengur fyrir hendi og útivinnandi konur munu því fá í raun stórhækkaða skatta. Menn hafa skotið því að mér, að hyggilegra hefði verið að stíga þetta stóra spor í nokkrum áföngum, en stíga það ekki allt í einu skrefi, og eiga við þá gífurlegu óánægju sem þetta hlýtur að valda óhjákvæmilega, hvaða ríkisstj. sem við völd er.

Eins hefur verið á það bent, að hér sé verið að breyta fáeinum mánuðum fyrir álagningu skattlagningu atvinnurekstrar og enginn viti raunverulega hvernig það kerfi komi út og síst af öllu hvað það gefi, en það væri, segja menn, algjört lágmark að keyrð væru í gegnum tölvukerfi framtöl svo sem eins og 200–300 fyrirtækja, sem valin væru af handahófi, og þannig fengin nokkur reynsla á hvernig skattálagningin kemur út í raun, svo að tryggt væri í fyrsta lagi, að hún sé eðlileg hvað prósentur snertir, og í öðru lagi, að það komi ekki í ljós einhverjir þeir ágallar sem menn koma ekki auga á við fyrstu sýn, áður en kerfið hefur verið prófað.

Menn hafa sagt með miklum rétti að hér komi fram sandur af brtt., næstum að segja í hverjum mánuði, og hljóti það að gefa vísbendingu um að það eigi eftir að koma í ljós sandur af ágöllum þegar farið verður að leggja á eftir hinu nýja kerfi. Menn óttast líka að fyrirtæki geti lent í ískyggilegum greiðsluvandræðum vegna þess að hér sé verið að leggja skatt á skuldir, þannig að fyrirtæki, sem er kannske rekið með bullandi tapi og á ekki einu sinni fyrir skuldum, fær á sig skatt. Svo hafa menn verið að vekja máls á því, sem ég var að nefna, að álagningin hlyti að verða mjög síðbúin af öllum þessum ástæðum og þar að auki kynni það að vera að framtöl vefðust mjög fyrir fólki.

Ég vil vegna þeirra umræðna, sem orðið hafa um skattamálin í þessum anda og sannarlega ekki að ástæðulausu eða tilefnislausu, upplýsa að nú um helgina hef ég rætt við ýmsa embættismenn, sem gerst þekkja stöðu þessara mála, og lagt fyrir þá spurningar af því tagi sem ég var að vekja máls á áðan. Ég vil láta koma hér fram, að það var í fyrsta lagi samdóma álit þessara manna, þ. á m. ríkisskattstjóra, formanns ríkisskattanefndar og deildarstjóra tekjudeildar fjmrn., að framtöl ættu að heppnast hjá fólki án verulegra erfiðleika og þrátt fyrir að framtalseyðublað væri kannske svolítið flókið í augum margra. Með vitnisburð embættismannanna í huga er greinilega ekki um annað að ræða en að vona að þetta reynist rétt.

Áformum um meðferð skattframtala hefur verið breytt. Ráðgert er að hraðskoðun framtala verði lokið fyrir 30. júní og strax eftir að hraðskoðun hefur farið fram hefjist álagning. Reynt verður að tryggja að álagning og innheimta dragist ekki alvarlega, a.m.k. ekki meira en mánuð. Þarna er vissulega tekin ákveðin áhætta, en að dómi embættismannanna er þó áhættan ekki mikil.

Til viðbótar vil ég upplýsa að það var samdóma álit þessara embættismanna, sem ég ræddi við svo sannarlega að gefnu tilefni, að ekki yrði aftur snúið úr því sem komið væri, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Þau skattalög, sem við erum hér að ræða um, hafa verið í gildi allt s.l. ár. Menn hafa gert margvíslegar ráðstafanir í fjármálum sínum og atvinnurekstri í samræmi við þau lög sem í gildi hafa verið. Það er því talið mundu valda stórfelldum vandræðum og síðar hugsanlegum málaferlum ef menn vildu reyna að staldra við og leggja á að þessu sinni samkv. gömlu lögunum. Það er sem sagt einfaldlega ekki talið framkvæmanlegt.

Ég held að því neiti enginn, að allt þetta mál er komið í talsvert óefni, og það má vel vera, eftir þeim upplýsingum sem gefist hafa, að það sé talsvert fen fram undan. Það eru áreiðanlega margvísleg vandamál fram undan, en ég endurtek: Það virðist nokkuð ljóst að ekki verði aftur snúið.

Ég vænti þess, að frv. verði afgreitt af hv. Nd. í dag. og á morgun úr Ed. Strax og þing kemur aftur saman að loknu þinghléi því, sem enn hefur ekki verið ákveðið, eins og menn vita, og ég veit ekki nákvæmlega hvenær hefst, en endar væntanlega að loknu Norðurlandaráðsþingi, það virðist nokkuð ljóst, þá geri ég ráð fyrir að frv. um þá þætti þessa máls, sem enn hafa ekki verið hér til afgreiðslu, enn eru óafgreiddir, verði lagt fram hér í þinginu. Þá á ég við frv. um skattstiga, persónuafslætti, barnabætur, frádráttarliði, tekjuskattshlutfall félaga, eignarskatt og fleiri atriði sem enn hefur ekki verið fjallað um. Þá gefst tækifæri til að athuga nánar öll þau atriði sem menn telja að enn þurfi að athuga frekar.

Mér er það alveg sérstakt ánægjuefni, að í fjhm- og viðskn. Nd. hefur skapast mjög góð samstaða um afgreiðslu till. sem hér liggja fyrir. S.l. föstudag tókum við þátt í því hér í d. að afgreiða samhljóða niðurstöðu fjh.og viðskn. Nd. Mér er tjáð að nú sé von á einni brtt. til viðbótar, sem hækkar hlutfallið í 22. gr. frv. úr 45% 150%. Ég vænti þess, að sú brtt. verði samþykkt, af því að það er um algjöra samstöðu að ræða. Hins vegar verð ég var við að ýmsar aðrar brtt. eru hér á ferð, bæði frá einstökum nm. og frá öðrum hv. þm. Ég tel eðlilegast að þingmenn, nefndir og fjmrn. fái aðstöðu til að skoða þær betur en hægt er að gera á svo skömmum tíma sem við höfum nú til ráðstöfunar. Ég vil því eindregið mælast til þess, að þeir tillögumenn, sem hafa borið fram till. um ýmsar aðrar breytingar sem ekki hefur skapast samstaða um, dragi þær til baka þannig að þær komi ekki til atkvgr. við 3. umr. málsins hér ellegar við afgreiðslu málsins í Ed., og ég fái tækifæri til að láta athuga till. í fjmrn. fram að þeim tíma að lögin verða enn tekin til endurskoðunar að þremur vikum liðnum. Ég geri ráð fyrir að nm. í fjh.og viðskn, vilji einnig fá nokkurt ráðrúm til að skoða till. frekar. Ég mælist sem sagt eindregið til þess að menn fallist á að draga þær till. til baka sem ekki er samstaða um á þessu augnabliki.

Ég vil svo að lokum í tilefni þeirra orða, sem ég hef sagt hér um þessi tekjuskattslög, um þá óvissu sem bersýnilega er fram undan í álagningu tekju- og eignarskatts á þessu ári, gefa svofellda yfirlýsingu:

Vegna þeirra grundvallarbreytinga, sem verða á skattstofnum atvinnurekstrar með lögum nr. 40/1978 og því frv. sem hér er til umræðu, er erfitt að hafa fulla yfirsýn yfir áhrif laganna á atvinnurekstur eða einstakar greinar hans. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að taka ýmis ákvæði laganna til endurmats í ljósi þeirrar reynslu sem fæst við framkvæmd þeirra. Á þetta ekki síst við um það hlutfall af tekjufærslu vegna verðbreytinga sem heimilt er að fresta skattlagningu á með flýtifyrningu. Ég mun beita mér fyrir slíkri athugun jafnskjótt og nauðsynlegar upplýsingar berast skattayfirvöldum með framtölum rekstaraðila.

Ef álagning samkv. þessum skattalögum leiðir til bersýnilega ósanngjarnrar niðurstöðu gagnvart tilteknum hópum skattgreiðenda getur einnig orðið óhjákvæmilegt að endurskoða þessi lög. Ef þessi nýju tekjuskattalög skila ríkinu verulega miklu meiri tekjum en gert verður ráð fyrir við ákvörðun skattstiga og afgreiðslu fjárlagafrv. eða tekjurnar verða talsvert minni en gert er ráð fyrir er eðlilegt og getur orðið óhjákvæmilegt að lækka álagningu eða bæta við álagningu eftir því hvernig nýja skattakerfið kemur út í raun.