18.02.1980
Neðri deild: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. um breyt. á þeim skattalögum sem tóku gildi um síðustu áramót. Um það hefur verið rætt úr þessum ræðustól, að mörgu hafi þurft að breyta og margt hafi verið lagað í meðförum þingsins. Mér sýnist þó að ekki hafi verið gert nægilegt í því efni og ein ákveðin grein, sem sérstaklega mikil umræða var um þegar skattalögin voru til fyrstu umfjöllunar hér á Alþ., þyrfti að fella niður. Hún stendur þar enn. Ég hef leyft mér ásamt þeim alþm. Friðrik Sophussyni, Matthíasi Bjarnasyni og Halldóri Blöndal að bera fram brtt. á þskj. 171. Þó að till. séu tvær á þskj. er í raun og veru um að ræða aðeins eina till. að 59. gr. laganna falli niður, en hún er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef maður, er starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða hjá aðila honum tengdum, telur sér til tekna af starfi þessu lægri fjárhæð en ætla má að launatekjur hans hefðu orðið ef hann hefði unnið starfið sem launþegi hjá óskyldum aðila, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., skal ákvarða honum tekjur af starfinu. Ríkisskattstjóri skal árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til slíkrar ákvörðunar. Skattstjóri ákvarðar síðan tekjur þessar með hliðsjón af viðmiðunarreglunum og skal þá gætt aðstöðu viðkomandi aðila, aldurs hans, heilsu og starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli skipta. Viðmiðunartekjur þeirra er landbúnað stunda skulu miðast við launaþátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða, þó að teknu tilliti til aðstæðna hverju sinni, svo sem því ef bóndinn nær ekki heildartekjum grundvallarbúsins vegna afurðaverðs, árferðis eða annarra atriða er máli skipta að mati ríkisskattstjóra.

Telji skattyfirvöld, að endurgjald fyrir starf maka manns eða barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., sé hærra en makinn eða barnið hefði aflað hjá óskyldum eða ótengdum aðila skulu þau ákvarða tekjur makans eða barnsins af starfinu.“

Eins og heyra má af þessum lestri mínum er skattstjóri skyldugur til að ákvarða laun einstaklinga sem svo stendur á um sem hér er greint. Ríkisskattstjóri á að setja viðmiðunarreglur. Geri ég ráð fyrir að þá sé átt við hverja starfsgrein um sig, og ýmsir þættir eru það sem skattstjórar eiga að taka tillit til við ákvörðun þeirra launa sem telja ber fram. Ég tel að það sé með öllu útilokað að slík ákvæði geti orðið eðlileg með þessu móti. Ef maður rétt aðeins vill leiða hugann að því, að hér er verið að fjalla um skatt á tekjur manna, þá hlýtur hann að spyrja sjálfan sig: Hvað eru tekjur? Í hverju er tekjuhugtakið fólgið? Og ég held að ég verði að lesa hér upp eina setningu, sem er tekin upp úr skilgreiningu prófessors í Bandaríkjunum um það hvað tekjuhugtakið er. Ég geri ráð fyrir að hún eigi við hér. Ég vil biðja d. afsökunar á því, en mér finnst málfarið á þessu ekki reglulega gott: Tekjur manns eru peningagildi hreinnar aukningar efnahagsgetu hans frá einum tíma til annars. Og tekjur geta aldrei orðið annað en það sem er hrein peningaaukning manns. Tekjur eru ekki neitt sem maður hugsar sér að geti verið, heldur það sem er raunverulegt í þessu efni.

Mér finnst því og okkur, sem stöndum að þessari till., að það sé algerlega óeðlilegt að hafa þetta ákvæði í lögum.

Ég vil í þessu sambandi rifja það upp sem fram kom í ræðu tveggja manna þegar skattalögin voru til 1. umr. á Alþ. þegar frv. um þau var lagt fram.

Lúðvík Jósepsson, fyrrv. alþm., hafði eftirfarandi orð um þessa lagagrein:

„Mér er t.d. spurn,“ segir hann, „hvernig á að ákveða laun — persónulaun — til trillubátamanns, sem gerir út í 4 eða 5 mánuði lítinn trillubát, eða þess manns, sem rekur atvinnubíl, og þar getur verið um það að ræða að bíllinn sé ýmist rekinn hérna á höfuðborgarsvæðinu eða norður á Raufarhöfn, svo að dæmi séu tekin? Vitanlega eru tekjumöguleikar þessara manna, sem hér eiga hlut að máli, geysilega misjafnir, og það getur því verið miklum vandkvæðum bundið að ákvarða þessum mönnum réttlátar persónutekjur.“

Annar hv. þm., Tómas Árnason, ræddi einnig um þetta við 1. umr. og sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Ekki álít ég að rétt sé að gera mönnum skatt án tillits til rekstrarafkomu. Þjóðfélagið á mikið undir ýmiss konar smáatvinnurekstri, þ. á. m. búrekstri, svo að dæmi sé tekið. Ekki verður mögulegt að greiða tekjuskatt nema af raunverulegum tekjum. Það liggur ekki í eðli málsins að greiða tekjuskatt af tekjum sem engar eru. Skattalög mega ekki drepa niður eðlilega og nauðsynlega löngun manna til að stofna til smærri atvinnurekstrar.“

Ég vil minna á orð þessara tveggja alþm. frá þessari umræðu. Ég tel þau mjög réttmæt. Ég er sömu skoðunar og þeir um að ekki ber að leggja skatt á tekjur sem engar eru.

Mér er tjáð að í ræðu, sem hæstv. fjmrh. flutti áðan, hafi hann óskað eftir því, að ég drægi till. til baka við þessa umræðu. Ég sé ekki ástæðu til að ég geri það, og fyrst og fremst er það vegna þess, að áður en fjh.- og viðskn. hélt sinn fund milli umr. kynnti ég formanni hennar, Halldóri Ásgrímssyni, þessa till. sem ég sagðist mundu flytja við 3. umr. ef nefndin tæki hana ekki upp. Eins og sjá má hefur nefndin ekki orðið við því. Því sé ég ekki ástæðu til að draga till. til baka.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að tala öllu lengur um þessa brtt. Málið er afmarkað og einstakt í sinni röð, þar sem skattyfirvöldum er skylt í þessu tilviki að ákvarða skattgreiðslur einstaklinga, jafnvel þótt ekki sé um raunverulegar tekjur að ræða. Það verður að teljast með öllu óeðlilegt. Vegna þess er brtt. flutt og þess vænst um leið, að hún fái stuðning hv. alþm.