18.02.1980
Neðri deild: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Á þskj. 171 hafa nokkrir sjálfstæðismenn flutt brtt. sem er um það eitt að fella niður 59. gr. laganna. Eins og fram kom í máli frsm. þessarar till., Steinþórs Gestssonar, fjallar hún um ákvörðun launa við eigin atvinnurekstur. Þessi lagagrein hefur lengi verið þyrnir í mínum augum, og vil ég nú mælast til þess, að flm. verði við þeirri beiðni hæstv. fjmrh. að draga hana til baka og skoða þetta mál, þar til nýtt frv. um þessi sömu lög kemur fram að nokkrum vikum liðnum. Ef þessi till. fer hér til atkvgr. óttast ég að hún verði felld. En hitt kann að vera, að við nánari athugun á þessari grein muni nást samstaða um að fella hana úr lögum eða a.m.k. að breyta henni á einhvern hátt, þannig að hún sé meira afmörkuð en hún er í lögunum. Ég óska sem sagt mjög eftir því, að flm. dragi hana til baka til þess að tryggja að þetta mál verði athugað nánar.