18.02.1980
Efri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt urðu bændur á seinasta verðlagsári fyrir mjög verulegri tekjuskerðingu vegna óverðtryggðs útflutnings búvara. Á þinginu veturinn 1978–79 voru fluttar till. þess efnis, að Framleiðsluráði landbúnaðarins yrðu útvegaðar 3000 millj. kr. til þess að greiða bændum 2/3 hluta af því tekjutapi sem þeir urðu fyrir á því verðlagsári vegna hins óverðtryggða útflutnings.

Eins og menn vita náðu þessar till. ekki fram að ganga hér á þinginu. Var þetta einn af meiri háttar pólitískum hvellum sem þann veturinn urðu hér með frægri útgöngu í Nd. Síðan hefur þetta mál verið ófrágengið með öllu. En í málefnasamningi þeirrar stjórnar, sem nú hefur verið mynduð, er kveðið svo á, að þessar 3000 millj. kr., verði útvegaðar, og um það fjallar það frv. sem hér er til umræðu.

Í frv. er gengið út frá því, að Framleiðsluráð landbúnaðarins taki lán allt að 3000 millj. kr., en ríkissjóður ábyrgist lánið með sjálfsskuldarábyrgð. Lánið má vera verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu eða jafngildi allt að 3000 millj. kr. í erlendri mynt, og ábyrgðin tekur jafnt til greiðslu afborgana, vaxta, verðbóta og annars kostnaðar. Gert er ráð fyrir að ríkisstj. fjalli um lántökuskilyrðin áður en frá lántöku er gengið.

Í aths. við 2. gr. frv. segir: „Framleiðsluráð landbúnaðarins mun greiða bændum andvirði láns samkv. 1. gr. sem uppbætur á verð. Ákvæði 2. gr. gert heldur ekki ráð fyrir því, að Framleiðsluráð endurgreiði lánið af eigin fé.“ Það er sem sagt alveg ljóst, að ekki er ætlunin að þessi skuld lendi á Framleiðsluráði landbúnaðarins. Hins vegar er í 2. gr. gert ráð fyrir því, að verði heimild til greiðslu útflutningsbóta samkv. 12. gr. laga nr. 101 frá 1966 eigi fullnýtt á næstu árum hugsanlega, þá sé ríkisstj. heimilt að greiða úr ríkissjóði til lækkunar þessu láni það sem á vantar til þess að hámarki útflutningsbóta verði náð. Því er sem sagt haldið opnu, að verði svigrúm til þess að greiða af þessu láni af útflutningsbótakvóta allt að 10% eins og hann er samkv. lögunum, heimilt sé að gera það. En að öðru leyti og ef svo reynist ekki vera, þá er gengið út frá því að ríkissjóður annist afborganir, vexti og kostnað allan af láni þessu.

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða það, að mjög óheppilegt væri fyrir Framleiðsluráð landbúnaðarins að samþykkt þessa frv. drægist langt fram í næsta mánuð. Þess vegna fer ég fram á það við hv. Ed., að hún afgreiði þetta frv. hið skjótasta, og bið fjh.-og viðskn. að taka það þegar til meðferðar, þannig að unnt sé að afgreiða það áður en að því kemur, sem ekki hefur nú verið tekin ákvörðun um, að gert yrði nokkurt hlé á þingstörfum.