18.02.1980
Efri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu auðvelt fyrir sjálfstæðismenn að greiða götu þessa frv. í gegnum Alþingi, því að eins og mönnum er í fersku minni varð um það samkomulag á milli þriggja stjórnmálaflokka á s.l. vori, að mætt skyldi verða óskum bænda um að greiða það sem á vantaði eða verulegan hluta þess sem vantaði á verðlagsuppbætur vegna útfluttra landbúnaðarafurða á framleiðsluárinu 1978. Eins og mönnum er líka væntanlega kunnugt um hafa sjálfstæðismenn flutt á Alþingi nú nýverið till. sem lýtur alveg að því sama og hér um ræðir, og eins og mönnum er kannske kunnugt um er hæstv. núv. landbrh. 1. flm. að þeirri tillögu.

Í raun er enginn eðlismunur á þessum tveimur till., þar sem þannig er hér frá málum gengið að öll þessi greiðsla er bundin ríkisábyrgð og þar af leiðandi loku fyrir það skotið, að þarna geti orðið um að ræða lán sem hugsanlega félli á bændurna eða landbúnaðinn.

Af þessari ástæðu, eins og ég hef skýrt að framan, er ekki nein fyrirstaða frá okkar hendi að greiða götu þessa máls í gegnum Alþingi. En vegna þess að ég kom nú hingað í ræðustól vil ég aðeins minna á það — og það væri gagnlegt að fá svör um það frá hæstv. ríkisstj. að það eru ýmsir aðrir hlutir óafgreiddir. Í því sambandi má minna á að á s.l. hausti, þegar nýtt verðlag á landbúnaðarvörum átti að taka gildi, var að tilhlutan þeirrar ríkisstj., sem þá hafði völd í landinu, frestað að láta verðlagið taka gildi. Þarna er um að ræða halla, sem hefur ekki enn þá verið greiddur, upp á tæplega 1/2 milljarð króna, að því er ég hygg. þáv. landbrh. lýsti því oftsinnis yfir, að þetta fé ættu bændur og þetta yrði greitt af ríkissjóði, og s.l. gaf hann yfirlýsingu á aðalfundi Stéttarsambands bænda sem fól þessi fyrirheit í sér. Það væri afar gagnlegt að fá það upplýst, hvað ríkisstj. hyggst gera í því að inna þessa greiðslu af hendi.

Alllangt er síðan Framleiðsluráð landbúnaðarins sendi frá sér bréf eða reikning upp á þessa fjármuni til ríkisstj., og þótt þessi ríkisstj. hafi ekki lengi setið, þá er raunar útilokað að um þetta mál hafi ekki verið fjallað við gerð stjórnarsáttmálans og aðrar umræður varðandi landbúnaðarmálin síðar.

Þá er það líka á allra vitorði, að þær verðlagshækkanir, sem bændur og sölufélög landbúnaðarins áttu rétt á 1. des., hafa ekki enn þá komið að fullu til framkvæmda. Við setningu Búnaðarþings lýsti hæstv. landbrh. því yfir, að þessar hækkanir yrðu heimilaðar og bændum bætt það tjón sem þeir hafa orðið fyrir af þessari ástæðu. Með sama hætti vildi ég fá upplýsingar um það, hvenær þessi fyrirheit verða efnd. Þegar dráttur á slíkum greiðslum verður beinlínis af völdum opinberra aðila er að sjálfsögðu útilokað annað en að bændur fái skaðann bættan.

Þetta vildi ég láta koma hér fram, um leið og ég endurtek það sem ég sagði áðan, að það er sjálfsagt að afgreiðslu þessa máls verði hraðað hér í deild, og það mun ekki standa á sjálfstæðismönnum að svo geti orðið.