18.02.1980
Efri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram er hér um gamalkunnugt mál að ræða í sölum hv. Alþingis og ekki ástæða til að fara að fjölyrða mjög um það við þessa umr. En ég vildi vekja athygli á því, að a.m.k. get ég ekki séð að með þeim lagagreinum, sem eru lagðar fram í þessu frv., komi fram hvernig eigi að greiða lánið. Ríkissjóði er heimilað að ábyrgjast með sjálfsskuldarábyrgð lán allt að 3 milljörðum kr. og auk þess líka vexti og verðtryggingu þess láns, en það kemur alls ekki fram í raun hver eigi að greiða það, hvort það sé ríkissjóður eða með hvaða hætti eigi að endurgreiða lánið. Það er að vísu reynt að fara um það orðum í 2. gr. að fé verði tekið af útflutningsbótum í framtíðinni til að greiða lánið. En þegar ástandið er þannig, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að á skortir í ár 6–7 milljarða kr. til að fullnægja útflutningsbótaþörfinni sýnist ekki vera vænlegt að greiða þetta lán með þeim hætti sem í frv. er látið í veðri vaka.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram frv. um þetta efni. Þar er skýrt fram tekið með hvaða hætti slíkt lán ætti að endurgreiða, svo sem eðlilegt og sjálfsagt er um ábyrga afstöðu til ríkisfjármála. Mér sýnist hér verið að heimila ríkissjóði að taka lán sem með engu móti er rökstutt hvernig verði endurgreitt. Ef um misskilning er að ræða hjá mér vil ég biðja hæstv. ráðh. að upplýsa með hvaða hætti hann hugsar sér að þetta lán verði endurgreitt, hvort hann gerir ráð fyrir að ríkissjóður endurgreiði það eða hvort bændur eiga með einum eða öðrum hætti að standa undir endurgreiðslu þess.

Því hefur verið haldið fram meðal bænda, ef svo væri að bændur ættu að standa undir endurgreiðslu þessa láns, að það væri allnýstárleg leið, sem menn vildu fara til að bæta kjör manna, að láta þá slá lán til að auka tekjur sínar. Ekki hefur tekist hjá venjulegu fólki að bæta þannig kjör sín. Ég vona að hæstv. ráðh. sé mér sammála um að það muni ekki takast heldur hjá bændum.