18.02.1980
Efri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Út af fsp., sem hér kom fram frá Lárusi Jónssyni, hv. 3. þm. Norðurl. e., vil ég láta koma fram, að því er haldið opnu samkv. frv. hvernig endurgreiðslu verði háttað á þessu láni. Því er bersýnilega haldið opnu. Það er ekki ákveðið með hvaða hætti eða hvenær lánið verði greitt. Gengið er út frá því, að það verði ákveðið á síðara stigi.

Hv. þm. spurði hvort það mætti kannske skilja textann á þann veg, að bændur ættu að standa undir endurgreiðslunni. Ég get alveg hiklaust svarað þeirri spurningu neitandi. Það kemur ljóslega fram í aths. við 2. gr. frv, að slíkt er ekki ætlunin. Hins vegar kemur líka ljóslega fram, að ríkið áskilur sér rétt til þess í fyrsta lagi að taka endurgreiðsluna af útflutningsbótunum, að svo miklu leyti sem það er hægt innan þeirra marka sem lög ákveða á síðara stigi, ef tilefni verður til, kannske ekki á næsta ári, en hugsanlega eftir 2–3 ár þegar framleiðslan hefur aðlagast meira markaðsaðstæðum en nú er. Þessu er sem sagt haldið opnu. Hinn möguleikinn er sá, að ríkissjóður láti einhvern annan aðila greiða þetta. Þess vegna er greinin orðuð á þann veg, að ríkissjóður annist greiðsluna. Það er hugsanlegt, að menn kæmust að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fá fé úr einhverjum þeim sjóði, sem til væri, og ekki yrði staðið af öðrum undir þessari greiðslu. En því er alls ekki slegið föstu í frv. hvernig það verði gert eða að því staðið.

Hv. þm. nefndi að hugsanlegt væri að Byggðasjóður greiddi þetta fé og þeir sjálfstæðismenn hefðu gert tillögu um það. Mér hefur fundist að slíkt gæti komið til greina En eins og komið hefur fram í umr. á Alþ. eru ekki allir á einu máli um það.

Það verður að segja eins og er, að því er alls ekki slegið föstu hvernig þessu verði háttað í framtíðinni. Ríkissjóður á að greiða lánið ef ekki verða aðrir til þess. Það eru hreinar línur. Það er ekki hægt að velta þessari byrði yfir á bændur á síðara stigi. Það eru líka alveg hreinar línur.

Hv. þm. Eiður Guðnason gerði tilraun til að tortryggja þetta mál á þann einfalda og gamalkunna hátt að etja launþegum þessa lands gegn bændum með því að vitna til þeirra orða minna, að ekki sé nú svigrúm til almennra grunnkaupshækkana í þjóðfélaginu, það sé nú aldeilis munurinn á meðferðinni sem launþegarnir sæti annars vegar og svo hins vegar bændur. Staðreyndin er sú, að flokkur hv. þm., svonefndur Alþfl., hefur sótt það af feikilegri hörku undanfarnar vikur og mánuði að skerða verðtryggingu launa hjá almennu launafólki og hefur að sjálfsögðu alls ekki verið til viðræðu um grunnkaupshækkanir, heldur þvert á móti sótt það af mikilli hörku að skerða kjörin með því að setja hámark á verðbótavísitölu og valda þannig talsvert mikilli lífskjaraskerðingu. Sem betur fer var ekki mynduð stjórn af því tagi að unnt væri að koma stefnu Alþfl. í þessu máli í framkvæmd. Þessi atlaga gegn launamönnum tókst ekki. Um bændur gegnir aftur á móti allt öðru máli. Þeir hafa orðið fyrir stórfelldri tekjuskerðingu nú þegar vegna þess að þeir hafa orðið að flytja út töluvert mikið af óverðtryggðum framleiðsluvörum. Hér er spurningin um hvort bændur eigi alfarið að taka á sig þá skerðingu eða hvort samfélagið ætlar að hluta til að hlaupa undir bagga með þeim.

Ég vek á því athygli, að hér er ekki um að ræða að útvegað sé lán til að greiða að fullu það tap sem bændur hafa orðið fyrir. Hér er einungis gert ráð fyrir að bæta þeim 2/3 hluta af þessu tjóni. Það er allmikill munur á því, hvort ríkisvaldið hleypur undir bagga og auðveldar bændum að taka á sig stórfellt tjón af þessu tagi, og svo á hinu, hvort verið er að færa mönnum gjafir, hækka kaupið þeirra, veita mönnum almennar grunnkaupshækkanir og bæta þau kjör sem þeir höfðu fyrir. Á þessu tvennu er auðvitað reginmunur. Við teljum sjálfsagt og eðlilegt, að úr því að launamenn virðast hafa fengið tryggð núverandi laun sín þeir halda sinni verðtryggingu, hún verður ekki skert, m.a. vegna þess að Alþfl. er ekki í ríkisstj., þá liggi líka beint við — að kjör bænda verði ekki heldur skert. Þess vegna er þetta frv. flutt.

Ég vil svo að lokum leggja til, herra forseti, af því að mér láðist að geta þess áðan, að þetta frv. fari til fjh.-og viðskn. að lokinni umr.