18.02.1980
Efri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. fór héðan án þess að svara fsp. frá mér. Ég vil gjarnan ítreka að ráðh. gæfi svör við fsp. sem komu fram um það, hvenær bændum yrði bættur sá tekjumissir sem þeir hafa orðið fyrir tvívegis með stuttu millibili vegna þess að stjórnvöld hafa tekið þær ákvarðanir að fresta þeim greiðslum sem þeir hafa átt rétt á.

En þetta var kannske ekki meginerindi mitt hingað í ræðustól að þessu sinni, heldur voru það orð ráðh. þar sem hann var að tala um ónýttar útflutningsuppbætur. (Fjmrh.: Hugsanlega.) Mér er alveg óskiljanlegt hvernig þær gætu orðið til að óbreyttum lögum. Eins og málum er nú kotnið er þessi greiðslutrygging miðuð við 10% af framleiðsluverðmætum landbúnaðarafurða. Í lögum er svo ákveðið, að því aðeins eigi að nota það fjármagn að það þurfi að greiða það vegna útflutningsuppbóta. Nú hefur hins vegar komið fram í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. að breyta eigi lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Við skulum vona að það verði til góðs. En yfirlýsing ráðh. verður tæpast skilin á annan veg en að þá eigi m.a. að breyta þessu ákvæði í framleiðsluráðslögunum þannig að landbúnaðurinn eigi að fá fé til ráðstöfunar sem svarar 10% af framleiðsluvörum og að það sé ekki nauðsynlegt að binda það einvörðungu við útflutning á landbúnaðarvörum. Með öðrum aðferðum geta þessar ónýttu útflutningsuppbætur, sem ráðh. var að tala um áðan, ekki orðið til.