18.02.1980
Efri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Út af orðum hv. 11. landsk. þm., Egils Jónssonar, vil ég segja það, að hugsunin, sem býr að baki 2. gr. frv., er ósköp einfaldlega sú, að ef þróunin verði á þann veg á næstu árum að úr framleiðslunni dragi, vegna þess að verið er að reyna að samræma framleiðsluna betur markaðsaðstæðum, og þær aðstæður koma upp að heimildin í framleiðsluráðslögunum verði eigi fullnýtt, þ.e. ekki þörf á að greiða á allt að 10% af framleiðslunni í útflutningsbætur þá megi nota mismuninn til að greiða af þessu láni. Hvort slíkt verður nokkurn tíma að raunveruleika skal alveg ósagt látið. Þessu er haldið þarna einfaldlega opnu.

Hjá hv. þm. kom fram sú hugsun, að hér væri vandi á ferð vegna þess að framleiðsluráðslögin væru á ákveðinn veg í þessum efnum, það yrði þá væntanlega að breyta þeim. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri fullyrðingu af því tagi, að þm. séu í vandræðum með afgreiðslu einhvers frv. til l. vegna þess að einhver önnur lög komi í veg fyrir að slík samþykkt sé gerð. Auðvitað er kjarni málsins ósköp einfaldlega sá, að lagaheimildin, sem hér er til umr., er nægileg til viðbótar við það sem stendur í framleiðsluráðslögunum. Ef koma upp aðstæður eins og hér er verið að lýsa er fengin lagaheimild til að inna greiðslu af þessu tagi af hendi og þarf ekki að breyta öðrum lögum í því skyni. Þetta eru lög, jafnfullgild og augljós þeim sem fyrir eru.

Að lokum: Spurningum hv. þm. verð ég að geyma að svara. Ég held að það sé eðlilegra að landbrh. svari þeim spurningum. Þetta voru spurningar sem snertu starfssvið landbrh. og viðskrh. Ég tel eðlilegra að gefa þeim kost á að svara þessum spurningum við síðari tækifæri. Það ætti þá að gefast tóm til þess við 2. eða 3. umr. málsins.