19.12.1979
Efri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það frv., sem liggur hér fyrir um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, boðar byltingu á sviði aðbúnaðar og hollustuhátta og er mjög tímabært. Þetta frv. var lagt fyrir á síðasta Alþingi. Mikil vinna var lögð í frv. og margar athuganir gerðar. Felld voru saman ýmis lög og margar reglugerðir sem áttu að tryggja að þessi mál væru í sæmilegu horfi, og er von mín að þetta frv. fái afgreiðslu sem allra fyrst. Þá má í raun ekki bíða, svo eru þessi mál brýn.

Eins og hv. þm. Ólafur Jóhannesson greindi frá áðan, er ástandið í þessum málum mjög misjafnt. Reyndar kemur fram og í þeirri könnun sem fram fór hjá 170 fyrirtækjum sem aðilar vinnumarkaðarins tóku sig saman um að gera athugun á, að ástandið er mjög bágborið. Það er reyndar ekki rétt að niðurstöður liggi ekki fyrir. Þær liggja fyrir, en hafa ekki verið gefnar út því miður, og eru skýringar á því sem ástæðulaust er að nefna hér.

Ég vil minna á það, að verkalýðssamtökin hafa frá árdögum sett þá kröfu fram, að aðbúnaður verkafólks á vinnustöðum yrði bættur. Kröfurnar voru í upphafi ekki miklar, en mönnum hefur skilist æ betur, hversu mikils virði það er fyrir manneskjuna að lifa og starfa í umhverfi sem er henni samboðið.

Það er ýmislegt, sem áður hefur orðið til þess að aðbúnaður hefur batnað í hinum ýmsu greinum, ekki aðeins fyrir kröfur verkalýðssamtakanna, heldur og vegna þess að neytendur erlendis hafa gert kröfu um það, að umhverfi og innri aðbúnaður vinnustaða hér á Íslandi yrði betra eða snyrtilegra en áður var. Og ég vil minna á það, að í frystihúsum hér á Íslandi hefur aðstaða starfsfólksins og aðstaða til að taka við fiski verið bætt mjög verulega vegna krafna sem komu erlendis frá, en atvinnurekendur höfðu áður dregið að verða við.

Þá vil ég víkja að atvinnusjúkdómum. Í frv. er ákvæði um þá. Það hefur verið allmikil tregða hjá læknum hér á landi að skilgreina atvinnusjúkdóma, en þeir eru tvímælalaust fyrir hendi. Hygg ég að fyrirtæki eins og álverið megi nefna í þessu sambandi, og reyndar mætti nefna mörg önnur fyrirtæki. Sannleikurinn er sá, að aukin tækni og breytingar á atvinnuháttum hafa gert það að verkum, að mjög mikil nauðsyn er á að vera á verði. Það er ekki aðeins nokkurs virði að hafa snyrtilegt húsnæði, heldur þarf að gæta þess að loftræsting, efnasamsetning andrúmslofts o.fl. sé í lagi og meðferð hættulegra efna sé á þann veg, að ekki verði tjón af fyrir manninn er við það vinnur.

Ég vil vekja athygli á því, að í bráðabirgðaákvæðum frv. er gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands útvegi fjármagn er nemur 300 millj. kr. á ári, miðað við verðlag 1. jan. 1979, til lánveitinga til fyrirtækja sem þurfa að framkvæma endurbætur á vinnuaðstöðu starfsfólks eða til þess að bæta aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Í frv. segir og að tryggja skuli að lánsféð verði eingöngu notað til endurbóta á almennu starfsumhverfi starfsfólks hjá fyrirtækum sem eru í rekstri við gildistöku þessara laga, og fleiri ákvæði eru um þessi efni.

Það var alveg ótrúlegt, hversu góð samstaða tókst í nefndinni milli aðila vinnumarkaðarins, annars vegar manna frá verkalýðshreyfingunni og hins vegar frá vinnuveitendasamtökunum. Ég hygg að mönnum sé að verða það æ ljósara, hversu mikils virði það er að gera vel í þessum málum, og því varð að samkomulagi milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna vorið 1977 að gera þetta átak. Ríkisstj., sem samdi um þetta, gerði því miður sáralítið í þessum efnum annað en að skipa nefndina, en nefndina skorti fjármagn til að geta farið af stað, gera athuganir og vinna að frv. Það var ekki fyrr en núv. félmrh. tók við rn. að málin fóru að ganga, og veit ég að allir nm. eru honum mjög þakklátir fyrir hversu vel hann hefur unnið að þessum málum.

Ég legg áherslu á það, að reynt verði að hraða afgreiðslu frv. Það var lagt fyrir síðasta þing og þm. hafa vafalaust haft það til athugunar s.l. sumar. Það hefur verið rætt á hinum ýmsu samkomum verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda, og eru menn einhuga í því, að frv. verði samþ. svo til óbreytt, enda var svo mikil vinna í það lögð að ástæða er til að ætla að ekki þurfi mikilla breytinga við.

Það er talað um ágreining hér, þ.e. einn nm. skilar séráliti, sem reyndar er prentað með frv. Við hinir nm. gerum lítið úr þeim ágreiningi, enda kom hann á síðustu fundum nefndarinnar og varð ekki vart fyrr en þá, og teljum við ástæðulaust að gera mikið úr honum. Aðilar vinnumarkaðarins eru mjög andvígir fyrrgreindu séráliti.