19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

Kosning sjö manna og jafnmargra varamanna í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Við kosningu í Framkvæmdastofnun var óskað eftir að kosið yrði um aðalmenn sérstaklega, en forseti lýsti þá yfir að kosning færi fram um bæði aðalmenn og varamenn. Þegar svo forseti lýsti kosningu varamanna hljóp hann yfir þann mann á A-lista, þ.e. lista Sjálfstfl., sem var nr. 3, og tók þá tvo sem voru í 1. og 2. varasæti. Ég hefði haldið, að þar sem aðeins tveir menn af þessum lista voru kosnir, 1. og 2. maður, þá væru eðli málsins samkv. 3. og 4. maður á listanum kosnir 1. og 2. varamaður þess lista. Þegar stillt er upp þremur aðalmönnum og þremur varamönnum, þá sé ég ekki hverju það skiptir að sett sé orðið varamaður eða varamenn á undan þeim þremur síðari. Ef stillt hefði verið upp sex nöfnum, þá voru samkv. öllum venjulegum reglum þeir, sem voru nr. 1 og 2, kosnir aðalmenn, þeir, sem voru nr. 3 og 4, kosnir varamenn. Ég vildi mega mælast til þess við forseta, að þetta mál verði athugað og leiðrétt ef það sjónarmið, sem ég hér kem fram með, sýnist vera réttara en sú niðurstaða sem hann kynnti áðan.