19.12.1979
Efri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem komið hefur fram í þessum umr., að það frv., sem hér er til umr., markar að verulegu leyti tímamót í meðferð aðbúnaðar og hollustumála á vinnustöðum. Í því eru fjölmörg ákvæði sem eru tvímælalaust til bóta. Það er einnig rétt, að skortur á mannsæmandi aðbúnaði, vinnuaðstöðu og öryggismálum á vinnustöðum hér á landi er meðal þeirra þátta sem einna helst skyggja á það velferðar- og réttindasamfélag sem við teljum þó að hér eigi að vera. Hins vegar held ég að nauðsynlegt sé að menn geri sér grein fyrir því, að þótt þetta frv. sé fyrir marga hluta sakir gott, þá er það ekki tilefni til þess einhliða lofs sem fulltrúar Alþfl., hæstv. ráðh. og hv. síðasti ræðumaður, hafa flutt hér í umr. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst dálítið hvimleið til lengdar þessi sífellda tilhneiging hæstv. ráðh. til að hæla sér nánast alfarið af margvíslegum réttindamálum launafólksins í landinu, sem vitað er að aðrir menn en hann hafa átt mestan hlut í að knýja fram og semja. Þetta á bæði við um þau frv., sem voru í félagsmálapakkanum margnefnda, og einnig um þetta frv. Mér hefði fundist manneskjulegra í alla staði að sá víðtæki hópur forustumanna í hreyfingum launafólks, sem fyrst og fremst er meginhöfundur að þessu frv., fengi að bera þann heiður, sem hann á fyrir þetta frumkvæði, og aðrir ráðh. einnig, þótt það hafi fallið í hlut félmrh. samkv. stjórnskipun að bera þessi mál inn á Alþingi.

Ég vil hins vegar segja það við þessa 1. umr., að ég hefði talið nauðsynlegra að fela verkalýðsfélögum og fulltrúum þeirra mun meiri rétt til íhlutunar í öryggis- og aðbúnaðarmálum á vinnustöðum en gert er í þessu frv. Þetta frv. er málamiðlunarsamkomulag milli fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa launafólks. Það ber greinilega með sér, að þarna er reynt að feta vissan meðalveg. Ég held t.d. að skoða þurfi sumar greinar frv. í n. með tilliti til þess að veita fulltrúum verkalýðsfélaganna möguleika á beinni aðild og beinna inngripi í þessi aðbúnaðarmál en gert er samkv. frv. Ég held einnig að komið geti til greina að veita öryggistrúnaðarmönnunum sterkari rétt til stöðvunarvalds en gert er samkv. þessu frv. Ég held einnig að í þetta frv. skorti ákvæði sem taka sérstaklega til aðbúnaðar og hollustuhátta þess verkafólks sem við stundum nefnum farandverkafólk, þ.e. þess verkafólks sem í reynd býr á eða í tengslum við vinnustaði. Ýmislegt fleira mætti nefna varðandi þetta frv. sem getur horft til bóta og getur styrkt það enn frekar sem verulegan áfanga í réttindamálum launafólks. Ég tel hins vegar að sú umr. eigi betur heima í nefndum þingsins.

Vegna þeirrar miklu áherslu, sem hér var lögð á að afgreiða þetta frv. nánast óbreytt, og þeirra almennu orða, sem fallið hafa áður um einhliða ágæti þessa frv., vildi ég ekki láta þessa umr. fram hjá fara án þess að vekja athygli á því, að í mörgum ákvæðum þessa frv. mætti gera enn betur til réttindaaukningar fyrir launafólkið í landinu og til þess að veita betri tryggingu um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum en gert er í þessu frv.