19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Þriðja þingmál á haustþingi 1978 var till. til þál. um landgrunnsmörk Íslands til suðurs, sem flutt var af átta sjálfstæðisþingmönnum, einum úr hverju kjördæmi. Þegar till. var flutt var hún orðuð þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að mótmæla nú þegar öllum tilraunum Breta til að reyna að slá eignarhaldi á klettinn Rokk (Rockall).

Alþingi lýsir því jafnframt yfir, að ákvörðun ytri landgrunnsmarka Íslands til suðurs miðast við, að engri þjóð beri tilkall til Rokksins.“

Í grg. örstuttri segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Stóra-Bretlands hefur gert tilraun til að slá eignarhaldi Breta á klettinn Rockall í þeim tilgangi að teygja yfirráð þeirra út á hafsbotnssvæði, sem tilheyrir Íslendingum eftir þeim þjóðréttarreglum, sem nú eru í mótun. Öllum slíkum tilraunum ber þegar í stað að mótmæla, enda þótt sker þetta mundi ekki fá sjálfstæða efnahagslögsögu eftir þeim reglum, sem nú eru skráðar í uppkasti að hafréttarsáttmála.

Þegar fiskveiðilögsaga Íslands var loks færð út í 200 mílur, var þess að sjálfsögðu gætt, að engin skerðing yrði á henni vegna Rokksins. Bretar viðurkenndu síðan fiskveiðitakmörk Íslands samkv. reglugerð frá 15. júlí 1975 með Oslóarsamkomulaginu 1. júní 1976 og staðfestu þar með, að engin efnahagslögsaga ætti að vera út frá Rokknum, þótt þeir teldu klettinn tilheyra sér. Ljóst er því, að nibba þessi getur ekki skert ytri landgrunnsmörk Íslands, fremur en efnahagslögsöguna.“

Samkomulag varð um það hér á hinu háa Alþingi að afgreiða till. þessa hinn 22. des. 1978 með nokkuð breyttu orðalagi, og var hún afgreidd þannig orðuð:

„Alþingi lýsir því yfir, að ytri landgrunnsmörk Ístands til suðurs verði ákveðin án tillits til klettsins Rockall og að samvinna verði höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnssvæðinu utan 200 sjómílna marka landanna.“

Formaður utanrmn., Einar Ágústsson, sagði í ræðu nefndan dag, m.a.: „Undir þetta skrifar öll utanrmn. og ég mun ekki hafa fleiri orð um þessar till., aðeins segja það í lokin, að ég tel að með samþykkt þeirri og afgreiðslu undirstriki Íslendingar einu sinni enn samstöðu sína í landhelgismálinu, sem hefur verið órofa alla tíð.“

Því miður hefur ekki miklum sögum af því farið, hvað gert hafi verið til að framfylgja þessari ályktun Alþingis, þótt eftir hafi verið gengið. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurnir um það mál, sem hafa nú verið á dagskrá alllengi. En af ástæðum, sem þm. og þjóðinni allri raunar eru kunnar, hafa hugir manna snúist um annað nú að undanförnu og skal ég út af fyrir sig ekki ásaka neinn fyrir það, að dregist hefur að svara þessum fyrirspurnum, þótt ég hyggi að hitt muni verða talið ámælisvert, hve lengi hefur dregist að aðhafast eitthvað í málinu. En nánar fáum við að vita um það nú þegar hæstv. utanrrh. svarar spurningum mínum. Þær eru í þremur liðum:

1) Hvað hefur verið unnið að því að ákveða ytri landgrunnsmörk Íslands til suðurs í samræmi við ákvörðun Alþingis 22. des. 1978?

2) Hefur ríkisstj. mótmælt aðgerðum Breta til að reyna að helga sér klettinn Rokk og þá með hverjum hætti?

3) Hefur verið mótmælt í orði eða á borði tilraunum Breta til að koma einhliða á 200 mílna fiskverndarsvæði umhverfis Rokkinn eða eru uppi um það fyrirætlanir, t.d. að senda íslensk fiskiskip til veiða á þessu svæði?

Ég hygg að þessar fyrirspurnir séu nægilega skýrar þannig að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þær nú, en fæ væntanlega tækifæri til að ræða málið örlítið nánar í stuttum ræðutíma eftir að hæstv. ráðh. hefur svarað þessum spurningum.