19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Svör þau við fyrirspurnum hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem ég les hér upp á eftir, eru undirbúin og samantekin í utanrrn. í tíð forvera míns þar.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur borið fram tvær fyrirspurnir, aðra þá sem hann vék að hér áðan og hina varðandi samstarf við Færeyinga. Svörin hafa verið þannig útbúin í hendur mér, að báðum þessum fyrirspurnum er svarað í einu lagi, og ég mun lesa svörin upp þannig ef hv. fyrirspyrjandi hefur ekki við það að athuga.

Þetta byrjar nú í rauninni á endurtekningu á því sem hv. fyrirspyrjandi var að rekja sjálfur áðan. Svarið er svo hljóðandi:

Á 100. löggjafarþingi lagði fyrirspyrjandi ásamt öðrum fram þáltill. um landgrunnsmörk Íslands til suðurs. Í því tilefni gerði utanrrh. á fundi í Sþ. hinn 24. okt. 1978 grein fyrir ýmsum atriðum sem varða þetta mál. Umrædd þáltill. fékk ítarlega meðferð í utanrmn., en náði ekki fram að ganga, heldur var henni samkvæmt till. n. vísað til ríkisstj. svo breyttri:

„Alþingi lýsir því yfir, að ytri landgrunnsmörk Íslands til suðurs verði ákveðin án tillits til klettsins Rockall og að samvinna verði höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnssvæðinu utan 200 sjómílna marka landanna.“

Rétt er að minnast á þau orð, sem frsm. n., hæstv. fyrrv. utanrrh., Einar Ágústsson, lét falla við það tækifæri, eins og hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir, að með afgreiðslu þeirri, sem till. hlaut, undirstrikuðu Íslendingar enn einu sinni samstöðu sína í landhelgismálinu. Síðan þessari till. var vísað til ríkisstj. hafa gengið í gildi lög nr. 41 frá 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, og er í þeim lögum m.a. að finna ákvæði um skilgreiningu landgrunnsins, um afmörkun þess gagnvart nærliggjandi ríkjum og um landgrunnsrannsóknir. Á sama hátt og við ákvörðun fiskveiðilögsögu Íslands 1975 var við ákvörðun landgrunnsmarka í lögunum ekki tekið tillit til Rockall. Mörkin hafa ekki verið sett utan 200 mílna, og var m.a. tekið tillit til þess, að enn var ólokið könnun á ýmsum hliðum þessa máls á Hafréttarráðstefnunni.

Að því er varðar samvinnu við Færeyinga þarf varla að taka það fram, að Íslendingar leitast ávallt við að styðja Færeyinga þar sem um sameiginlega hagsmuni er að ræða, hvort sem er á hafréttarsviði eða öðrum sviðum. Er þetta sjálfsagður liður í íslenskri utanríkisstefnu.

Skal nú fjallað um einstaka liði fyrirspurnanna. Ég byrja á þeirri sem varðar samvinnu við Færeyinga:

1) Sendinefnd Íslands á Hafréttarráðstefnunni hefur haft stöðugt samband við fulltrúa Færeyinga þar og hefur stutt sjónarmið þeirra gegn kröfum Breta og Íra til víðtækra réttinda á svæðinu á þeim grundvelli að um sé að ræða landgrunn lands og/eða Bretlands, hvort sem Rockall er með í myndinni eða ekki.

2) Engir formlegir fundir hafa verið haldnir með fulltrúum landsstjórnar Færeyja.

3 ) Ég tel óhætt að fullyrða að Færeyingar meta stuðning íslensku sendinefndarinnar og verður samvinnu haldið áfram.

4) Um viðræður við Breta og Íra skal tekið fram að Hans G. Andersen, formaður sendinefndar Íslands, og Guðmundur Pálmason hafa rætt málin við fulltrúa Breta og Íra og hafa haldið fram þeirri afstöðu sem grein var gerð fyrir. Og þessar upplýsingar varðandi þessa fyrirspurn eru einmitt fengnar sérstaklega frá Hans G. Andersen, formanni sendinefndarinnar á Hafréttarráðstefnunni, og stuðst við upplýsingar frá honum.

Varðandi hina fyrirspurnina skal þetta tekið fram:

1) Stöðugt er unnið að málinu á Hafréttarráðstefnunni. Verður áhersla lögð á að móta grundvöll til ákvarðanatöku af Íslands hálfu með hliðsjón af viðhorfum á næsta fundi ráðstefnunnar í mars. Iðnrh. hefur einnig skýrt frá ýmsum hliðum landgrunnsrannsókna, nú nýlega að ég hygg, eða nánar tiltekið á fundi Sþ. 29. jan.

2) Samkvæmt 121. gr., 3. málsgr., hafréttaruppkastsins á Rockall ekki að fá efnahagslögsögu eða landgrunn. Að því er varðar landgrunnsréttindi er aðalatriðið hvaða ríki hafsbotninn á svæðinu er talinn tilheyra án tillits til Rockall.

3) Svo sem kunnugt er hefur enn ekki náðst samkomulag á Hafréttarráðstefnunni um reglur varðandi afmörkun landgrunns strandríkja og eru þessi mál því öll enn í deiglunni. Það er hlutverk sendinefndar Íslands að fylgjast með þessum málum og undirbúa grundvöll fyrir ákvarðanatöku af Íslands hálfu sem ekki er tímabær að svo stöddu.

Ég vænti þess, að sú stutta greinargerð, sem ég hef hér flutt, gefi hugmynd um aðalatriðin í þessu máli. Og ég get lýst því yfir, að landhelgisnefnd mun fjalla um þessi atriði, en þess mun hafa verið óskað á sínum tíma, að landhelgisnefnd fjallaði um þau eða rætt yrði um þau á landhelgisnefndarfundi.

Ég bið svo hv. fyrirspyrjanda afsökunar á því, að ég hef tekið hér í einu lagi þessar fyrirspurnir, og verður það að reiknast honum til tekna við mál hans hér á eftir, að hann hefur ekki gert sérstaklega grein fyrir síðari fyrirspurninni. Ég vil svo aðeins endurtaka það, að frá þessu svari var að sjálfsögðu gengið áður en ég tók sæti í utanrrn. og þó að ég hafi lesið þessi svör hér yfir og sé þeim sammála, þá hefði ég í sjálfu sér kosið að hafa rýmri tíma til þess að geta sett mig inn í þessi mál áður en fyrirspurninni var svarað, en þau verða rædd á næstunni, bæði í landhelgisnefnd og að sjálfsögðu einnig í utanrmn., eftir því sem við á.