19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég er hæstv. utanrrh. að sjálfsögðu þakklátur fyrir að hafa lesið þessi svör upp, þótt ég sé á hinn bóginn mjög óánægður með efni þeirra. Og þar sem var í niðurlagi sagt að þessi svör gæfu hugmynd um aðalatriði málsins, þá verður ekki hægt að skilja þau orð öðruvísi en svo, að aðalatriði í framkvæmd þessara tillagna af hálfu hæstv. síðustu ríkisstj. hafi verið þau að gera ekki neitt, gæta hagsmuna Íslands ekki í einu eða neinu. Svörin voru nánast útúrsnúningar eða beinlínis farið fram hjá efni málsins og skal ég rökstyðja það.

Vík ég þá að þeirri fsp. sem ég hafði ekki rætt hér, en ég hafði að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að þær yrðu teknar hér saman til umræðu.

Það er byrjað á því að segja að till. hafi ekki náð fram að ganga á Alþ., heldur verið vísað til ríkisstj. Formlega er þetta rétt. En ég las upp ummæli þáv. formanns utanrmn. um það, að utanrmn. hefði orðið sammála um að breyta till. og leggja til að hún yrði afgreidd með þeim hætti sem þarna varð niðurstaðan. Ég vil leyfa mér af þessu tilefni að vitna til ummæla í hörðum umræðum sem urðu á Alþ. 6. febr. 1979, þar sem þáv. utanrrh. hélt þessu fram, að það hefði ekki verið ákvörðun Alþingis, ekki samstaða Alþingis um að framfylgja ætti þessu máli. Þá kom til liðs við mig hv. þm. Stefán Jónsson, sem ofbauð þetta eins og fleirum, og sagði þá orðrétt:

„Fallist var á það af hálfu 1. flm. að vísa þessum till. til ríkisstj. Það var sátt af hans hálfu. Það var komið að lokadegi í afgreiðslu fjárlaga. Hann hótaði því þá, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, og hafði raunar stuðning þingmanna úr fleiri flokkum á bak við þá hótun, að ef þessar þáltill. þeirra sjálfstæðismanna hlytu ekki afgreiðslu fyrir jól vegna þess hversu brýnt væri að afgreiða þær, þá skyldi verða haldið uppi þess háttar umræðum um einstaka liði fjárlaga, að fjárlagaafgreiðslan drægist fram yfir jól af þeim sökum. Reyndar var þá viðbúið að fjárlagaafgreiðslan drægist fram yfir jól af öðrum sökum. En forustumenn stjórnmálaflokkanna sömdu um það við 1. flm. þessara þáltill., að þær yrðu afgreiddar með þessum hætti. Það var það sem kallast á enska tungu „gentlemen’s agreement“, sem var á vitorði — ég vil segja: allra þm. og hann féllst á í því trausti að með till. yrði farið eins og þær hefðu hlotið þinglega meðferð. Þetta vissi hver maður sem var hér í þingsölunum þá.“

Og þetta vita allir sem hér eru enn á þingi og þá voru á þingi. Það átti að stöðva málin, þ. á m. Jan Mayen-málið. Það var ekki hægt að koma því inn í kollana á mönnum, — það tók raunar heilan meðgöngutíma að fá menn almennt til að skilja það, — að við ættum fersentimetersréttindi á Jan Mayen-svæðinu. Það var ekki fyrr en í júní í fyrra sem menn almennt fóru að gera sér grein fyrir því. Og það átti sem sagt að drepa allar þessar tillögur. Það varð að beita þessari hótun, sem hv. þm. Stefán Jónsson hefur upplýst með hvaða hætti var. Og enn í dag er sagt: Tillagan náði ekki fram að ganga.

En Bretar, okkar andstæðingar í þessu máli, þeir eru þó ekki svo skyni skroppnir að halda að þetta hafi ekki verið þingleg afgreiðsla, því að í bréfi breska utanrrn. eða öllu heldur breska sendiráðsins í Reykjavík, sem dagsett er 8. jan. 1979, þar sem mótmælt er afgreiðslunni hér á Alþ., er talað um „the resolution taken by the Althing“ — ályktun Alþingis, sem verið er að mótmæla. Auðvitað var þetta ályktun Alþingis — einróma ályktun Alþingis. En þó að hún hafi verið hér afgreidd, þá hefur ekkert verið gert í málunum, ekki nokkur skapaður hlutur. Það er að vísu skrifað eitt bréf til að mótmæla þessum ummælum breska sendiráðsins 1979, það er dagsett 2. febr. 1979, og þar er það eina, sem um þetta er sagt:

„Iceland does not intend to revise the regulations of 1975 in this respect.“ — Ísland ætlar sér sem sagt ekki að breyta um línu, en engin mótmæli af neinu tagi, engin bein mótmæli. Þetta er það eina sem mér kunnugt um að hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafi gert í málunum.

Nú vil ég halda því fram, að það mál, sem hér er til umræðu, sé ekki þýðingarminna en Jan Mayen-málið. Það er orðið tímabært að íslenskir ráðamenn fati að gera sér grein fyrir því, að við eigum að gæta réttinda okkar þarna suður í höfum, þótt ekki væri af neinu öðru en því, að við ætlum okkur að koma í veg fyrir að jarðrask verði þarna framið sem gæti stofnað fiskimiðum okkar og auðæfum Atlantshafsins í voða. Þarna er um geysilega þýðingarmikil réttindi að ræða sem samkvæmt þeim uppköstum, sem nú eru á Hafréttarráðstefnu, tilheyra Íslandi að verulegu leyti. Og það er með öllu óverjandi að taka ekki upp samvinnu við Færeyinga, ekki til þess að hjálpa þeim einum, þeir eru ósköp þakklátir fyrir að við þá hafi verið rætt, það hefur verið rætt við þá eitthvað yfir kaffibolla, ekki eftir neinum fyrirmælum frá utanrrn., á Hafréttarráðstefnu. Engin fyrirmæli voru um það svo mér sé kunnugt um. Þó skrifaði ég utanrrn. svo hljóðandi bréf, áður en ég fór á næstsíðasta fund Hafréttarráðstefnunnar og leyfi mér að lesa það hér upp:

„1) Verður strax útvegað fjármagn til að afla upplýsinga um hafsbotninn?

2) Verður strax tekið upp samstarf við Færeyinga til að gæta sameiginlegra réttinda á Rockall-svæðinu?

3) Verður haldið fast við þá kröfu, að Íslendingar eigi réttindi á Jan Mayen-svæðinu a.m.k. til jafns við Norðmenn?

4) Verður orðsendingu Breta frá 8. jan. 1978“ — þeirri sem ég gat um áðan — „mótmælt eindregnar en með bréfi utanrrn. 2. febr. 1979?

Svör óskast við þessum spurningum áður en undirritaður ákveður hvort hann fer á fund Hafréttarráðstefnu.“ Það kom að vísu loðin svör við þessu, en þó þess eðlis að ég taldi rétt að ég sem aðrir reyndi að fara á Hafréttarráðstefnuna og gera þar tilraunir til að gæta íslenskra hagsmuna. Varðandi það að við höfum stutt Færeyinga, er það að sjálfsögðu rétt, að við höfum stutt Færeyinga, en tillögurnar fjalla bara ekkert um það, að við eigum að styðja Færeyinga, þær fjalla um það, að við eigum að gæta sameiginlegra réttinda Íslendinga og Færeyinga. Það er stuðningur fyrir Færeyinga vegna þess að hagsmunir okkar fara saman. En ég er ekki að biðja um að gefa Færeyingum eitt eða neitt á okkar kostnað. Ég er að biðja um að við höfum sameiginlega réttargæslu gagnvart Bretum og Írum, að við sjáum um að þau réttindi, sem hugsanlega — við skulum ekki orða það sterkar eiga að tilheyra okkur, verði ekki frá okkur tekin vegna gáleysis okkar, afskiptaleysis, umhirðuleysis, sinnuleysis, aumingjaskapar. Og varðandi það að Færeyingar meti okkar stuðning, auðvitað meta þeir okkar stuðning, en hann hefur bara ekki verið neinn nema smávegis orðagjálfur yfir kaffibolla, eins og ég áðan sagði.

Allir vita að ekki hefur náðst samkomulag á Hafréttarráðstefnunni. En það er einmitt vegna þess að nú er að byrja fundur á Hafréttarráðstefnu sem er algjörlega nauðsynlegt að íslenskir ráðamenn — og þá Alþingi Íslendinga, því að illa treysti ég hæstv. ríkisstj. í því efni — taki af skarið um það, hvaða stefnu við eigum að marka okkur í þessum málum, þannig að fulltrúar Íslands á Hafréttarráðstefnunni, sem eru oft æðimargir, viti hvað þeir eigi að gera, hvernig þeir eigi að haga sér, hvað þeir hafi á bak við sig og hvernig afstaða annarra þjóða sé, t.d. hve langt við getum komist í samningum við Norðmenn, vegna þess að ef við gætum náð hagstæðum samningum við Norðmenn mundum við auðvitað ekkert vera að berjast gegn 121. gr. um eyjar. Þá mundum við samþykkja hana. Það væri þá okkur í hag að samþykkja hana, ef við vissum að við gætum náð góðum samningum við Norðmenn. Ef hins vegar ekkert liggur fyrir um það, þá hljótum við að berjast fyrir breytingu á þeirri grein, hvort sem okkur tekst það eða ekki, vegna þess að hún óbreytt mundi auðvitað styrkja hagsmuni Norðmanna. Alveg á sama hátt eigum við að ræða við Íra og Breta og ekki bara líka yfir kaffibolla, heldur formlega, enda er um það spurt, hvort beinar viðræður hafi verið teknar upp Hvað eigum við að gera til að kanna þeirra viðhorf? Ég er ekki kominn til með að segja að þessar fjórar þjóðir, Írar, Bretar, Færeyingar og Íslendingar, gætu ekki í sameiningu skipt þessu á milli sín, haft sameiginlegt yfirráðasvæði, eins og ég teldi kannske eðlilegast og mest í anda hafréttarsáttmálans, uppkastsins að honum, þar sem menn semdu í bróðerni og eftir sanngirnissjónarmiðum um mál eins og þessi. Æskilegast væri sjálfsagt að reyna að ná slíkum samningum. Við gætum kannske verið liðlegir í þeim samningum. Ég held að réttindi okkar þarna séu út af fyrir sig ekkert minni en hinna þjóðanna. Kannske eiga Bretar og Írar alls engin réttindi á Rockall-svæðinu vegna þess — eins og margsinnis hefur verið frá skýrt — að hin upphaflega gliðnun, þegar Atlantshaf varð til, varð þar sem nú heitir Rockallsund eða Rockall-dýpi, sem er á milli Rockall-svæðisins, Írlands og Bretlands. Þess vegna er þetta sokkna land ekkert eðlilegt framhald af Bretlandi og Írlandi, heldur er það hluti af því svæði sem Ísland og Færeyjar standa á. Og það var áfast við Grænland og rak þaðan fyrir um 60 milljónum ára, en fyrir 110 milljónum ára sprakk það frá Bretlandi og Írlandi. Við eigum þarna mjög mikilla réttinda að gæta.

Sumir brosa að þessu. Það var líka hlegið að því, að við ætluðum að fara að ásælast eitthvað á Jan Mayen-svæðinu, Jan Mayen væri norsk eiga. Það var tal.að um landvinningastefnu, heimsvaldastefnu jafnvel, og margir hlógu að þessu. Það var þvælst fyrir þessu í þinginu, þannig að það varð að beita hótunum, eins og ég gat um áðan, til að koma málinu í gegnum Alþingi. Þess vegna bjóst ég nú við að fá eitthvað skýrari svör en þetta. Ég varð fyrir geysilegum vonbrigðum með það. Svörin eru sem sagt fólgin í því, að engri spurningunni er beint svarað, hins vegar sagt: ja, það hefur verið spjallað um þetta fram og til baka.

Ég ætla að lesa núna upp síðari fyrirspurnina sem hæstv. ráðh. svaraði með fyrri spurningunum. Hún er í fjórum liðum:

1. Hefur samvinna verið höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnssvæðinu utan 200 mílna marka landanna í samræmi við ákvörðun Alþingis 22. des. 1978, og þá með hverjum hætti?

Svarið við þessu var sem sagt: Íslendingar hafa verið að styðja Færeyinga, stöðugt samband við Færeyinga á Hafréttarráðstefnunni. Við höfum reynt að halda smávægilega fundi, þeir eru nú ekki margir þar Færeyingarnir, einn og tveir venjulega. Danir eru þarna. Þeir hafa kvartað mjög undan því, að við skyldum ekki hafa nánara samband okkar á milli. Við höfum ekkert umboð haft til annars en að bjóða þeim upp á kaffi eða bjórglas.

2. Hafa verið haldnir formlegir fundir með fulltrúum landsstjórnar Færeyinga?

Það fékkst svar við því, að það hefði ekki verið gert, því miður. Auðvitað hefði átt að gera það fyrir 11/2 ári, þegar mönnum, a.m.k. sumum, var ljóst að þarna var um mikilvæg réttindi að tefla.

3. Hvern árangur hefur samvinna við Færeyjar í þessu efni borið?

Auðvitað engan, það hefur ekkert verið gert.

4. Hefur afstaða Breta og Íra til krafna Íslendinga og Færeyinga verið könnuð með beinum viðræðum?

Mér er sagt að tíminn sé búinn. Ég hefði getað talað hér miklu lengur og langað til þess, en það, sem fyrir mér vakir, er þó ekki að hefja illdeilur. Ég hef reynt að komast hjá því í þessum málum og það höfum við flest borið gæfu til að gera hér á Alþingi. Það, sem fyrir mér vakir, er að brýna fyrir mönnum að nú má ekki lengur láta staðar numið. Við verðum að taka höndum saman um að marka okkur skynsamlega stefnu og halda á íslenskum réttindum alveg jafnt þarna suður í höfum eins og á Jan Mayen-svæðinu. Og þó að ég treysti illa núv. hæstv. ríkisstj., eins og ég sagði áðan, kannske verr en flestum stjórnum sem á Íslandi hafa fram til þessa setið, þá treysti ég fólki hér í Alþ. til að taka þessi mál í sínar hendur. Og hins og hæstv. ráðh. gat um, þá er landhelgisnefnd þegar farin að starfa og utanrmn. reyndar líka, og ég hygg að hæstv. utanrrh. muni einmitt gera utanrmn. grein fyrir málinu á morgun. En þessi mál verður núna að fara að skilja og taka föstum tökum. Um það skulum við reyna að sameinast.