19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. var ekki öfundsverður af því að lesa upp þau svör sem samin höfðu verið í tíð fyrrv. utanrrh., Benedikts Gröndals. Ég ætla að vona að hæstv. núv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, taki upp í þessu máli allt önnur vinnubrögð en fyrirrennari hans, hv. þm. Benedikt Gröndal.

Staðreynd er sú, að því miður er sú ádeila sem hv, þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti hér á fyrrv. utanrrh., í fyllsta máta réttmæt og eðlileg, þótt í henni séu stórir og þungir dómar. Við talsmenn Alþb. höfum, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lýsti áðan, ætíð stutt að því, að hér væru tekin upp miklu myndarlegri vinnubrögð og haldið af meiri einurð á hagsmunum Íslendinga í þessu máli. En staðreyndin virðist einmitt vera sú, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð gat um áðan, að það er eins og sumir menn, þar með talinn fyrrv. utanrrh., hafi ekki skilið hagsmuni Íslendinga í þessu máli. Ég óttast að það sé einmitt kjarninn, sem við erum hér að glíma við, að við erum í 11/2 ár búin að hafa utanrrh. sem ekki hefur viljað eða ekki hefur haft skilning eða manndóm til að fylgja fram hagsmunum Íslendinga í þessu máli.

Ég vil mælast af fullri vinsemd til þess við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, að hann hætti nú að kenna hæstv. fyrrv. ríkisstj., þ.e. þeirri sem sat næstsíðast, um þessa málsmeðferð. (Gripið fram í: Hún bar alla ábyrgð á því.) Það má vel vera að forminu til. Innan þeirrar stjórnar og hér í þinginu hafa talsmenn Alþb. ætíð, eins og hv. þm. veit, tekið undir þá gagnrýni og þá kröfugerð sem hann hefur flutt í þessu máli.

Ég vil þakka þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni sérstaklega fyrir að hann hefur haldið vöku þingsins í þessu máli. Það hefur enginn annar þm. tekið sig sérstaklega fram um að gera það. Í málum af þessu tagi, sem varða þjóðarhag og langtímahagsmuni þjóðarinnar jafnríkulega, á þingið að virða það að innan þingsala skuli vera maður sem sleitulaust heldur vöku þingsins í þeim málum. Staðreyndin er sú, að bæði í Jan Mayen-málinu og í þessu máli varð þingið annaðhvort formlega í þingsölum eða í þeim nefndum, sem þingflokkarnir tilnefndu, bæði í viðræðunefnd um Jan Mayen og í landhelgisnefnd, hvað eftir annað að reka á eftir hv. þm. Benedikt Gröndal og taka fram fyrir hendurnar á honum til að koma í veg fyrir að hagsmunum Íslands væri glutrað niður. Það segir kannske langa sögu um áhuga hv. þm. Benedikts Gröndals á þessu máli, að hann skuli ekki sjá ástæðu til að vera hér viðstaddur þegar þessi umræða fer fram.

Ég vil að lokum, vegna þess að tími minn er skammur í umræðum í fyrirspurnatíma þótt fyllilega væri ástæða til að ræða þetta mál ítarlega, lýsa yfir fullum stuðningi við þá gagnrýni, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð flutti hér, og beina þeirri árnaðarósk til hins nýja utanrrh., Ólafs Jóhannessonar, að hann taki nú upp öflugri og kröftugri vinnubrögð í þessu máli sem og Jan Mayen-málinu en fyrirrennari hans, að ganga hans verði önnur í embætti en að fylgja fram þeim texta sem Benedikt Gröndal lagði grundvöll að, eins og gert var áðan. Það eru miklir þjóðarhagsmunir til langs tíma í veði. Hæstv. núv. utanrrh. verður að taka myndarlega forustuhlutverkið í þessu máli einmitt vegna þeirrar vanrækslu sem málið hefur hlotið á síðustu misserum.