19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég harma þau stóryrði sem tveir síðustu hv. ræðumenn létu falla í garð fyrrv. utanrrh. (EKJ. Ég hafði engin stóryrði í garð hans. Ég talaði um ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar.) Já, ég tók samt svo eftir að því væri beint að hæstv. fyrrv. utanrrh. og hann nafngreindur í því sambandi. En það má vera sem vill.

Ég ætla ekki að fara út í rökræður um þessi mál á þessu stigi. Ég tel eðlilegra að þau séu undirbúin og rædd í þeim nefndum sem eðlilega hljóta um þau að fjalla, landhelgisnefnd og auðvitað utanrmn. sem er fulltrúi þingsins til að fylgjast með utanríkismálum almennt og skal vera til ráðuneytis í þeim.

Ég álít ákaflega mikils vert fyrir mál sem þessi, og alveg sérstaklega Jan Mayen-málið, að þau séu sett ofar þröngum flokkslegum sjónarmiðum og menn hugsi um að fyrst og fremst í sambandi við þau mál að vera Íslendingar og vinna að málunum á þeim grundvelli. Það hefur verið styrkur okkar í landhelgismálinu að undanförnu, og af þeim sökum höfum við unnið sigra, að við höfum staðið saman. Þeirri stefnu eigum við að mínu áliti að fylgja áfram. Ég vonast til þess að enginn láti freistast til að láta nokkur ímynduð þröng flokkshagsmunasjónarmið hafa áhrif í efnum sem þessum.

Ég mun reyna að fylgja fram þeirri stefnu að láta þessa aðila, sem ég nefndi áðan, landhelgisnefnd og utanrmn., fylgjast með í málinu og hafa aðstöðu til að láta uppi álit og tillögur í þeim efnum, þ. á m. að móta þá stefnu sem fylgt verður fram á Hafréttarráðstefnunni. En það er rétt, að eftir er, að nokkru a.m.k., að fjalla um það efni og þarf sjálfsagt að móta þá stefnu ákveðnar en gert hefur verið. Hins vegar verður það náttúrlega og hlýtur að falla nokkuð í hlut þeirra fulltrúa, sem fara á Hafréttarráðstefnuna, að fylgjast þar nákvæmlega með frá degi til dags og taka afstöðu í því máli. Að sjálfsögðu hafa þeir samband við utanrrn., a.m.k. eftír því sem nokkur kostur er. En hitt vita þeir sem hafa verið þar, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, að það geta komið þar upp, kannske á hverjum degi, einhver mál sem þarf að taka afstöðu til.

Við erum svo heppnir að við höfum þann formann sendinefndarinnar sem nýtur alveg sérstaks álits í þessum málum og er í hópi þeirra manna á Hafréttarráðstefnunni sem e.t.v. er tekið hvað mest tillit til við þá ákvarðanatöku sem þar kemur til greina. En matsatriðin í þessu efni eru mörg og hagsmunirnir rekast á hjá hinum ýmsu ríkjum. Þeir rekast t.d. á varðandi 121. gr. Þarf að meta hvaða stefna í þeim efnum samrýmist best hagsmunum Íslands. Þetta þarf að meta út frá því sjónarmiði, sem ég hef minnst á, að við verðum að reyna að standa saman í þessu efni. Það viðhorf mun reynast okkur best. Ég leyfi mér að fullyrða að fyrrv. utanrrh. hafi unnið í þeim anda.