19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt í íslenskri pólitík þó að menn deili hart innbyrðis og beri hver annan ýmsum sökum, bæði sönnum og lognum, um afstöðuna í innanlandsmálum. Hitt held ég að hafi aldrei gerst fyrr en á s.l. ári, að þm. á Alþingi hafi brigslað samþm. sínum um landráð vegna afstöðu þeirra til deilumáls sem Íslendingar áttu í við aðrar þjóðir. Það hefur hingað til verið styrkur okkar Íslendinga og kannske Alþingis fyrst og fremst, að við höfum átt innan dyra á Alþingi menn sem kunnað hafa að gæta sóma síns, jafnvel þó svo að þeir hafi oft verið ósammála. Maður, sem heldur því fram um andstæðing sinn í stjórnmálum að hann sé að selja landsréttindi Íslands fyrir erlent gull, á hingað ekki neitt erindi, alveg sama hvað honum sjálfum kann að finnast. Ísland verður aldrei sterkt í glímu við andstæðinga um hagsmunamál þjóðarinnar ef þm. ætla að fara að taka upp á þeim sið að berjast með slíkum vopnum. Ég vil frábiðja mér að þurfa að taka þátt í slíkum umræðum. Ég trúi því um samhaldsmenn mína sem andstæðinga í stjórnmálum, að fyrir þeim vaki að gera Íslandi sem mest gagn sem þeir geta, það hafi þeir allir, jafnt andstæðingar mínir sem flokksbræður, að leiðarljósi í samskiptum sínum við erlenda aðila um deilumál sem upp kunna að koma milli okkar og þeirra. Ég vorkenni þeim alþm. sem telja sér til sóma að setja landráðastimpil á andstæðinga sína og halda því fram innan veggja Alþingis og utan að hluti af þeim 60 mönnum, sem kjörnir voru hingað á Alþingi til að gæta hagsmuna þjóðarinnar, sé að selja þá hagsmuni fyrir erlent gull.