20.02.1980
Efri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að tala um hver er prókúruhafi fyrir grundvallarstefnu Sjálfstfl. eða prókúruhafi fyrir pappírstígrisdýr í Alþb. eða súkkulaðidrengi. Ég vil aðeins upplýsa hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson um það, af því að hann vildi fá að vita það og virtist vera mjög forvitinn, hvort þetta mál hefði verið rætt í þingflokki Sjálfstfl. Það var rætt og samþ. í þingflokki Sjálfstfl., sem boðað var til eftir fund í Sþ. í gær. Ef hv. þm. Ólafi Ragnari hægist við þetta, þá er sjálfsagt að gefa honum þessar upplýsingar.

Hann taldi að við hefðum farið í smiðju til Alþfl. í þessu máli. Ég er ekkert feiminn við að játa það, að við erum meðflm. tillagna Alþfl. Ég tók það skýrt fram, að till. eru hliðstæðar því sem Alþfl. flutti áður. Ef Alþfl. tekur upp mál sem Sjálfstfl. er búinn að hafa á sinni stefnuskrá í áratugi þá finnst mér ekkert að því að fylgja þeim málum þótt Alþfl. sé með þau á sinni stefnuskrá. Ég sé ekkert athugavert við það. Sjálfstfl. hefur haft þessa skoðun í skattamálum í áratugi. Þessi skoðun er yngri í Alþfl. En batnandi mönnum er best að lifa, og það er ágætt að fylgja Alþfl.- mönnum ef þeir eru á sömu skoðun og er talin og hefur verið talin heilbrigð af okkur í langan tíma.

Ég skal fúslega ganga til samvinnu við hv. formann fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. um það að athuga þetta mál. En það er hann og það er stuðningslið ríkisstj. sem ætlar að reka þingið heim — það er nú öll virðingin fyrir Alþingi þegar mál liggja fyrir til afgreiðslu sem eru eins mikilvæg fyrir almenning í landinu og hv. þm. sagði.

Ég get haldið hér nokkuð langa tölu um afstöðu manna til virðingar Alþingis ef hv. þm. vill og vinnubrögð sem viðhöfð eru þessa daga í sölum Alþingis. Svo kemur þessi maður hér, breiðir sig út og talar um óþingræðisleg vinnubrögð í þessu efni. Ég vil leggja það til við hæstv. forseta, að hann fresti fundi og við göngum til þess að athuga þessa skattstigamál í fjh.- og viðskn. hv. d. Ég legg það til hér og nú.