20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

110. mál, lögskráning sjómanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að hafa langt mál um það frv. sem hér er til umr., en ég vil þó nota tækifærið til að lýsa stuðningi mínum við þetta mál. Ég hygg að ef grannt væri skoðað kæmust menn, því miður, að þeirri niðurstöðu að víða er ábótavant að því er varðar lögskráningu á íslensk skip. Full þörf er á að Alþ. geri það sem það getur, og því ber í raun og veru skylda til að koma í veg fyrir þau mistök sem hafa átt sér stað og enn eiga sér stað í sambandi við lögskráningu. Þetta er einn þáttur af því máli. Aðrir hafa komið til umræðu hér, og sumir hafa verið í hinum margumtalaða félagsmálapakka til sjómanna. Frv. af því tagi liggja fyrir þinginu nú, en þetta er aðeins eitt til viðbótar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta mál. Það er auðvitað alveg augljóst að Alþ. á ekki að vera þrándur í götu þess að sjómenn í þessu tilfelli nái þeim rétti sem þeir eru búnir að ná í kjarasamningum við viðsemjendur sína. Ég sé því ekki að það sé nein ástæða til þess að Alþ. verði ekki við því að samþ. breyt. þá sem hér um ræðir.

Vel má vera að það komi upp í hug einhverra, — einhverra segi ég, ég vona að þeir verði ekki margir, — að verið sé að leggja á ríkissjóð óeðlilega greiðslubyrði ef til þess kæmi að viðkomandi útgerðarmaður gæti ekki innt skyldu sína af höndum. En þetta er svo mikið réttlætismál og stórmál gagnvart þeim sem hér eiga í hlut, að ég held að menn hljóti að geta orðið sammála um að ríkissjóður verði að koma til. Þeir aðilar, sem hér um ræðir, eiga ekki að bera ábyrgð á axarsköftum, ef svo má orða, embættismanna ríkisins.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um málið fleiri orð, en mér fannst rétt strax við 1. umr. málsins að lýsa afstöðu minni til þess og að ég væri meðmæltur frv. og styddi það.