20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

109. mál, tollskrá

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi mínum við þetta frv., sem fram er komið, um breyt. á lögum um tollskrá o.fl., með síðari breytingum. Eins og fram kom hjá frsm. var sambærilegt frv. við það, sem flutt er nú, flutt á 100. þingi, en hér er einungis um að ræða hækkanir á þeirri upphæð, sem þá var samþ., með tilliti til verðhækkana sem orðið hafa.

Ég vil taka undir með frsm. og segi að ég tel eðlilegt að þetta fylgi verðlagsþróun á hverjum tíma. Ég hafði reyndar áður en frsm. kom inn á það mál ætlað mér að flytja brtt. við frv., þannig að tekið yrði tillit til verðlagsþróunar á hverjum tíma. Ég tel að rýmka þurfi heimildina, sem felst í frv., þannig að svo sjálfsögð breyting, sem hér um ræðir, þurfi ekki að koma fyrir þingið á hverju ári. Ég tel að eðlilegt sé að rýmka þessa heimild og að upphæðin breytist árlega með tilliti til verðlagsþróunar.

Ég held ég haldi mér við að flytja brtt., enda mun það stuðla frekar að því að nefndin skoði hana samhliða frv. Ég vil því leyfa mér að flytja eftirfarandi brtt., svo að nefndin hafi hana til skoðunar samhliða frv.:

„Við 2. mgr. 1. gr. bætist:

Heimilt er að hækka þessa undanþágu árlega með tilliti til verðlagsþróunar á hverjum tíma.“