19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel eðlilegt að Alþingi verði við þeirri sjálfsögðu beiðni sem hér er komin frá hæstv. fjmrh. og ríkisstj., að gerðar verði ráðstafanir til þess að ríkissjóður geti starfað með eðlilegum hætti á fyrstu dögum hins nýja árs, 1980. Ég tel hins vegar enga ástæðu til að hafa þetta ótímabundið og tel rétt að setja í 1. gr. frv. ákvæði um að þessar heimildir til greiðslna handa ríkisstj. yrðu bundnar fast settum tímamörkum.

Ég gæti ímyndað mér — án þess að ég hafi mótað mér á því endanlega skoðun og eftir er að ræða það í þingflokkum og fjh.- og viðskn. — að hér ætti að vera t.d. dagsetningin 31. jan. eða svo, að ríkisstj. hefði þessa heimild til 31. jan. 1980.

Mér sýnist að efnisákvæði 1. gr. séu í rauninni eðlileg að öðru leyti en því, að þarna þurfi að vera tímamörkun. Í 2. gr. er gert ráð fyrir að fjmrh. verði heimilt á árinu 1980 að stofna til tímabundins yfirdráttar á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum vegna árstíðabundinnar sveiflu í fjármálum ríkisins. Þarna held ég að tímamörkun ætti einnig að vera. Og ég vil í þessu sambandi óska eftir því, vegna mikilla umr., einkum af hálfu aðalaðstandenda núv. hæstv. ráðh., um að þeir hafi nú á tiltölulega mjög skömmum tíma bætt svo stöðu ríkissjóðs að þess eru engin dæmi í sögu Íslands frá því land byggðist, að fá um það upplýsingar hvort í rauninni sé nokkur þörf fyrir þessa yfirdráttarheimild í janúar. Ef þörf er fyrir hana, þá þýðir það að brestur hefur orðið í snilldinni núna í svartasta skammdeginu, og ef þörf er, hver er þá hugsanlega í janúarmánuði sú heimild sem hæstv. fjmrh. telur nauðsynlegt að fá til að draga yfir á reikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum. (Gripið fram í.) Það gæti verið alveg óþarfi fyrir þá að fá þessa heimild, og þess vegna bar ég þessa spurningu fram. Það er rétt aths. hjá hv. 1. þm. Vestf.

Í 3. gr. er fjallað um lánsfjárheimild, erlent lán upp á 12 milljarða kr., og í grg. kemur fram að skv. fyrirliggjandi frumdrögum að lánsfjáráætlun vegna opinberra framkvæmda á vegum A- og B-hluta stofnana og sveitarfélaga má ætla að erlendar lántökur þeirra vegna þurfi að nema um 23 milljörðum kr. á árinu 1980 — öllu árinu 1980. Hér er hins vegar talan 12 milljarðar, og ég held að það sé alla vega ljóst, að ef hér yrði veitt tímabundin heimild ætti talan að vera miklu lægri en 12 milljarðar. Og spurning er hvort nokkur þörf er á að hafa þessa grein hér fyrir janúarmánuð einan. Það kann að vera að það sé nauðsynlegt, og þá upplýsir hæstv. fjmrh. mig um það. En ég held að heimildartalan hljóti að geta verið allmiklu lægri fyrir þennan eina mánuð — eða segjum tvo ef veitt yrði og miðað við það sem endanlega afgreiðslu málsins hér á hv. Alþingi.

Allar byggjast þessar aths. mínar að sjálfsögðu á því, að Alþ. verði reiðubúið til að ganga í verkin strax eftir áramótin, þing komi tiltölulega mjög fljótt saman eftir áramót til að fjalla um þau mál sem hér verða vafalaust og greinilega óleyst þegar Alþ. stendur upp nú um helgina. Það verður væntanlega að hefja þinghald tiltölulega mjög snemma eða fyrr en venja er til í janúarmánuði, og ég geri ráð fyrir að allir hv. alþm. séu reiðubúnir til að leggja þar allt nauðsynlegt lið, þannig að mál geti gengið áfram með eðlilegum hætti á hinu nýja ári sem senn kemur.