20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

109. mál, tollskrá

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Segja má að hér sé hreyft athyglisverðu máli. Það er að sjálfsögðu gott málefni, sem hér er um fjallað, að hækka lagaheimildir til þess að fella niður innflutningsgjöld af bifreiðum fyrir öryrkja, hreyfihamlað fólk, eins og það heitir víst nú orðið. En ég vil aðeins vekja athygli á því, að það er búið að lofa býsna miklu á þessum síðustu vikum. Það á að gera ýmislegt fyrir fólkið í landinu, en það er ekki nóg að samþykkja hér í Nd. — og jafnvel þó það sé gert í Ed. líka — lagaheimildir af þessu tagi, heldur er nauðsynlegt að ráð sé fyrir því gert í fjárlögum. Og ég saknaði þess í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh., að hann skyldi ekki láta þess getið, hvaða undirtektir það hefði fengið í fjmrn. að hækka þær fjárhæðir sem hér er um að ræða.

Það hefur komið fram og síast út, að þótt sáttmálsörkin sé býsna fallegt plagg og þótt þar sé talað um það, að í félagsmálapakkann eigi að fara einhverjir milljarðar, þá standi ekki til að efna margt af þessu strax á þessu ári. Og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. í sjónvarpinu í gærkvöld, að hann hygðist enn hækka launaskattana á þessu ári, sem nú er að ganga yfir, um a.m.k. helming þeirrar fjárhæðar sem í sáttmálsörkinni er lofað að rétta sem dúsu upp í launafólk í landinu. Ég vil í því efni einnig minna á það, að á s.l. ári, þegar sú vinstri stjórn, sem þá sat, var að fá launþega til þess að gefa eftir af sínum verðbótum 1. des., þá var því heitið að lækka beina skatta í þeim fjárlögum sem samþykkt yrðu fyrir árið 1979. En eins og við vitum var ekki við þetta staðið, heldur þvert á móti voru hinir beinu skattar hækkaðir þvert ofan í skattamálasamþykktir Alþýðusambandsins, eins og ég veit að hv. 7. þm. Reykv. man eftir, þar sem m.a. hefur verið komist að þeirri niðurstöðu, að tekjuskattar bitni fyrst og fremst á launafólki í landinu, séu launaskattar.

Ég vil þess vegna leggja mjög mikið upp úr því, að fyrir liggi strax við þessa umræðu yfirlýsing um það frá hæstv. heilbr.- og trmrh. og frá hæstv. fjmrh., að ekki muni standa á því af þeirra hálfu að gera ráð fyrir fjármagni í þessu skyni, ef þetta frv. kæmist í gegnum þingið nú á þessum vetrardögum. Það væri einnig skemmtilegt að fá um það nánari upplýsingar, hvaða upphæðir, hvaða fjármagn liggur á bak við þau orð sem hæstv. trmrh. viðhafði áðan. Það er nefnilega ekki nóg að koma upp í þennan ræðustól og lýsa yfir að það eigi að gera hvað eina fyrir hvern sem er í þessu landi, en vera á hinn bóginn ekki reiðubúinn til að gera ráð fyrir neinu fjármagni í fjárlögum til þess að standa við loforðið. Þess vegna væri mjög fróðlegt og skemmtilegt ef hæstv. trmrh. leyfði Alþ. að fylgjast með því, hvernig hann ætlar sér að standa við þau orð sem hann sagði hér áðan, og ef hann gæti núna einnig upplýst okkur nánar um það, hvað hann hafði í huga þegar hann sagði þetta, eða hvort það muni kannske vera eins og mig grunar, að sú ræða, sem hann flutti áðan, hafi orðið til á stundinni ógrunduð og hann eigi eftir að ræða þessi mál nánar við félaga sinn, hæstv. fjmrh., sem — eins og við heyrðum í sjónvarpinu í gærkvöld — ætlaði ekki að vera neitt örlátari en hans fyrirrennarar, svo að hann gengur jafnvel fram af jafnörlátum manni og Guðmundur J. Guðmundsson annars er, hv. 7. þm. Reykv.

Það er þetta sem ég vildi segja. Talað er um að bjarga þurfi sæmd Alþingis. Maður hefur heyrt mikið talað um það upp á síðkastið. Einnig hefur verið talað um það, að nauðsynlegt sé að fá einhverja ríkisstj. í landið. Og þeir menn, sem núna sitja, hafa fengið mikið fylgi hjá fólkinu. Það hvílir mikil ábyrgð á þeirra herðum. Fólkið ber mikið traust til þeirra. Það ætlast til þess, að þessir háu ráðherrar, sem njóta svo óskoraðs trausts fyrir dugnaðinn og fyrir að hafa nú komið á ríkisstj. í landinu, séu ekki að fleipra hér í ráðherrastólunum rétt eins og þeim sýnist og hvenær sem þeim þóknast.

Við heyrðum það í gærkvöld, að þeir ætluðu að hækka skattana. Það var eftir að skoðanakönnunin fór fram. Maður veit því ekki hvort þeir eru nú jafntraustir í sessi og þá, af þeim sökum. Það eru ýmsir hér sem þykir nóg um. Það eru ýmsir sem gera sér grein fyrir því, að á sama tíma og þjóðartekjur minnka í landinu er kannske ekki óeðlilegt að ríkið minnki líka sinn hlut.

Við vitum það, að ef þjóðartekjurnar minnka hlýtur að minnka það sem hver og einn hefur til skipta, allir hafa til skipta, kakan minnkar. Og ef á að gera ráð fyrir því, að um leið og þjóðartekjurnar minnka haldi ríkið enn áfram að auka sína skatta, þá þýðir það annað tveggja að raðstöfunarfé einstaklinganna minnkar eða skuldasöfnunin erlendis vex.

Það var gert mikið spé að því, að við sjálfstæðismenn værum reiðubúnir til þess að koma margvíslegum umbótum á hér í þjóðfélaginu með því að spara á móti. Við heyrðum það í sjónvarpinu í gær, að hæstv. fjmrh. er ekki þeirrar skoðunar, heldur hyggst hann halda áfram að hækka skattana. Ég vona að eitthvað af því fé, sem þannig á að innheimta af skattkúguðum lýðnum, megi renna í vasa þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, öryrkjanna, þeirra sem bágast eiga. Ég vil einnig segja það, að ekki væri kannske heldur úr vegi að ýmislegt af þessari auknu skattheimtu í landinu megi renna til aldraðs fólks. Ég held að við getum ekki verið stottir af því, Íslendingar, hvernig aðbúnaður þess er að mörgu leyti hér. Við dáumst að því mikla framtaki, sem gert er með hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi, og gerum okkur grein fyrir því, að ríkisvaldið mundi aldrei sýna þvílíkan dugnað til að hjálpa þessu fólki.

Það liggur t.d. fyrir, að hv. 1. landsk. þm. hefur beitt sér fyrir miklu framtaki í þessa veru í Hafnarfirði, þar sem hjúkrunarheimili aldraðra er nú í byggingu. Það væri ánægjulegt ef eitthvað af þeirri skattahækkun, sem boðuð var í gærkvöld, gæti runnið til þess að létta þar undir, — eða er kannske meiningin að þetta fari allt saman í eyðslu? Það getur vel verið. Við höfum reynslu af því af fyrri vinstri stjórnum, að eyðslan hefur viljað vaxa. Og ef ég man rétt frá þeim tímum þegar Gunnar Thoroddsen, hæstv. forsrh., var borgarstjóri Reykjavíkur, þá minnir mig að ýmsum andstæðingum hans, sem nú sitja með honum í ríkisstj., hafi þótt nóg um eyðsluna í borgarapparatinu þá. Ég held að þeir hafi ekki haft sérstakt orð á því, að dregið hafi úr eyðslu undir hans stjórn. En það verður náttúrlega fróðlegt að fylgjast með þessu.

Það, sem ég fer fram á og vil spyrja um er í fyrsta lagi þetta: Má búast við því, að Nd. Alþingis fái tíma til að fjalla um þetta frv., eða megum við búast við því, að hæstv. ríkisstj. ætli að fá legáta sína til þess að senda þm. heim úr því húsi hvers sæmd þeir hafa bjargað upp á síðkastið, eða megum við kannske búast við því að fá umræður um stefnuræðu hæstv. forsrh. áður en við verðum sendir heim? Hver er meiningin í þessu máli? Það er þetta sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram.