20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

109. mál, tollskrá

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það hvarflaði að mér áðan, þegar hv. 7. landsk. þm. var að tala, að hann væri reiður einhverra hluta vegna. Það kann að vera að skýringin á geðbrigðum hans felist í innanhúsástandinu í Sjálfstfl., svo að ég blanda mér ekki í þau mál. Þau verður að leysa á vettvangi þess ríkis sem þar er um að ræða. (Forseti: Eru þau ekki á dagskrá?) Þau eru ekki á dagskrá þessa fundar, nei, hæstv. forseti, — og skipti hann nú og skapi.

Það, sem hér er hins vegar á dagskrá og hv. 1. þm. Vesturl. og aðrir hv. þm. eru að ræða, er frv. það sem Alexander Stefánsson og Þórarinn Sigurjónsson hafa lagt fram um breytingu á lögum um tollskrá. Í tilefni af því hefur hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, séð ástæðu til þess að mæla nokkur vísdómsorð um afkomu ríkissjóðs og nauðsyn þess að gæta jafnan aðhalds á því sviði. Þakka ég honum þá hvatningu, sem hann hefur hér flutt, og veit að hann mælir þar manna heilastur. Þar er um að ræða heilræði sem flutt eru af drengskap og heilindum í garð þeirrar ríkisstj. sem nú situr í landinu.

En mér kemur í hug nú undir ræðu hv. þm., að í stjórnarmyndunarviðræðunum, sem fram fóru hér um jóla- og nýársleytið, voru fluttar till. um lækkun á sköttum ríkissjóðs um u.þ.b. 25 milljarða kr. Það, sem vantaði upp á, átti helst að leysa með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði, hitt átti „að vera með gati“, eins og það var kallað. Þetta var sú fjármálaspeki sem við fengum að kynnast um áramótin úr herbúðum hv. þm., af hálfu nokkurra aðila í Sjálfstfl., sem þó vildu ekki kannast við málið þegar til kom, og varð að kenna till. við einhvern Mr. X, sem af skiljanlegum ástæðum hefur enn ekki gefið sig fram í opinberu þjóðlífi hér á landi.

Eftir að þessar till. komu fram um áramótin hefur það greinilega gerst, að hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, telur ástæðu til að hvetja núv. ríkisstj. til aðhalds og aðgátar, sparnaðar í ríkisrekstrinum. Þá ábendingu þakka ég. Ríkisstj. mun vafalaust reyna að halda þannig á málum að aðhalds sé gætt.

Það var einnig athyglisvert við þá ræðu sem hv. þm. flutti hér áðan, að ævinlega þegar upp koma mál af því tagi sem hv. þm. Alexander Stefánsson flytur hér núna og fjöldamörg önnur mál í opinberri umræðu um margra ára skeið, þá spretta þeir upp, þm. Sjálfstfl., og tala um veisluhöld, eins og þeir gerðu 1971 þegar hækkaður var elli — og örorkulífeyrir úr 4.900 kr. í 7500 kr. á mánuði. Þetta voru kölluð ófyrirgefanleg veisluhöld fyrir aldraða og öryrkja í þessu landi. Og það er sérkennilegt með eins velviljaða menn og ég er sannfærður um að hv. ?. landsk. þm. er, að þeir skuli ævinlega, þegar að svona málum kemur, spretta upp með þessum neikvæða hætti.

Auðvitað gerum við okkur það ljóst, að þetta kostar fé. Auðvitað gerum við okkur það ljóst, að framlög til verkamannabústaða kosta peninga, framlög til elliheimila kosta peninga, til sjúkrahúsa, til dvalarheimila aldraðra, og þannig mætti lengi telja, til skólakerfisins og þessir peningar eru fengnir með skattlagningu á landinu. Það er ekki hægt að fá þá öðruvísi. Og það er ekki um það að ræða, að til sé einhver vondur, óhlutgerður aðill sem heiti ríki og hirði af mönnum þessa fjármuni. Hugmyndin er sú, að ríkið sé þarna millifærsluaðili milli borgaranna og taki skatta af mönnum sem síðar eru fluttir til hinnar félagslegu þjónustu. Mér þætti hins vegar fróðlegt að vita hvað það er, sem hér væri hugsanlegt að spara. Vafalaust er það eitthvað. Ég dreg ekki í efa að í 330 milljarða fjárlögum sé hægt að spara einhverjar upphæðir. Ég dreg það ekki í efa. Mönnum hefur oft gengið það dálítið illa, en við skulum reyna það. Reynslan er bara sú, að það tekur tíma að láta slíkan sparnað skila sér. En við skulum samt sem áður athuga það.

Við skulum líta á stærsta liðinn á fjárlögum íslenska ríkisins, sem er heilbr.- og trmrn. með 110 milljarða kr. Ég hef ekki orðið var við eina einustu till. hér á hv. Alþ. um það, að hægt sé að spara eina einustu krónu á þessum lið. Ég hygg að þarna mætti ná einhverju fram til sparnaðar án þess að þjónustan versnaði en till. á hv. Alþ. ganga allar út á það, að þarna þurfi að auka við. Og ég er sammála því, að þarna þarf að auka við. En ég segi þá líka, eins og hv. þm. Halldór Blöndal benti á áðan, að til þess að auka þarna við verða menn að þora að grípa til skattlagningar og sækja peningana í þ jóðfélaginu þangað sem hægt er að sækja þá. Það eru til peningar í þessu þjóðfélagi. Það eru til aðilar sem hafa stoppið furðuvel við að greiða til samneyslunnar hér á undanförnum árum, en þeir eiga að gera það og það þarf að búa þannig um hnútana, að þeir geri það.

Þessi orð mín eru flutt í tilefni af ræðu þeirri sem hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, flutti áðan, en líka í tilefni af mörgum öðrum ræðum sem eru iðulega fluttar hér á hv. Alþ. um nauðsyn stórfelldra skattalækkana, meðan menn sjá æpandi alls staðar í þjóðfélaginu þarfir, kröfur, sanngjarnar kröfur til úrbóta hjá fólki sem býr raunverulega við mjög lakan kost. Áður en við förum að belgja okkur út með till. og hugmyndir um skattalækkanir skulum við gera okkur grein fyrir því, að hér á Íslandi er fólk sem enn þá þarf að lifa á innan við 200 þús. kr. á mánuði. Mér þætti gaman að sjá þá hv. alþm., sem hér sitja, leika þá list að tóra, að skrimta af þeim upphæðum sem ákveðnum einstaklingum er ætlað að lifa af. Við verðum að taka tillit til þessarar grundvallarstaðreyndar, ef við ætlum að stjórna. En til þess er ríki og ríkissjóður að stýra málum og færa til fjármuni í þjóðfélaginu eftir því sem brýn nauðsyn krefur. Þó verða menn auðvitað að gæta sín í þeim efnum, að ganga ekki eins langt og mörg dæmi eru til um frá Svíþjóð t.d., en ég hirði ekki um að rekja þau hér og er ekki sérlega hrifinn af þeim.

Af því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er búinn að kveðja sér hljóðs og ættar að segja eitthvað hér á eftir, þá ætla ég að víkja nokkrum orðum sérstaklega til hans og ávarpa hann fyrir fram. Alþýðuflokkurinn á Íslandi er flokkur sem í öðru orðinu berst fyrir félagslegum framförum, fyrir jafnrétti. Mörg mál, sem þm. Alþfl. hafa flutt hér á Alþ., t.d. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og fyrrv. hæstv. félmrh., Magnús H. Magnússon, eru ákaflega jákvæð og hafa framfarir í för með sér ef þeim er fylgt eftir. En þetta kostar fjármuni. Og við verðum að gera okkur það ljóst, að til þess að koma þessum málum í framkvæmd verðum við að sækja þessa fjármuni. Ef við þorum ekki að segja það, að við þurfum að sækja þessa fjármuni hér í landinu, þá erum við um leið að segja að við séum að dæma þessi félagslegu umbótamál úr leik, henda þeim út um gluggann. Og mér finnst það kostulegt að flokkur, stofnaður 1916, um leið og Alþýðusamband Íslands, með alla sína fortíð og sögu á bakinu, glæsilega fortíð að mörgu leyti á þessum sviðum, skuli nú allt í einu vera kominn — mér liggur við að segja: hægra megin við íhaldið á ýmsum sviðum að því er þessi mál varðar. Mér finnst það kostulegt að svo skuli vera. Og þessi lokaorð flutti ég bara til þess að koma í veg fyrir það, að Sighvatur Björgvinsson hefði ekkert að segja í ræðustól, sem væri nýlunda á Alþingi.