20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

109. mál, tollskrá

Sighvatur Björgvinsson:

Hæstv. forseti. Ég er að vísu ekki með tollskrána hérna með mér, heldur Tímann. En það getur komið í sama stað niður, því að eins og allir vita er mörg matarholan á banakringlunni og víða hægt að vitna í tollskrá í þessu sambandi.

Ég vil aðeins taka það fram í sambandi við frv. það sem hér er flutt af þeim hv. þm. Alexander Stefánssyni og Þórarni Sigurjónssyni, að út af fyrir sig held ég að það sé til bóta, en þó væri til athugunar að breyta þessum ákvæðum þannig, að í staðinn fyrir að tiltaka krónutöluupphæðir í lögum með þessum hætti sem heimilt er að lækka gjöld af bifreiðum til öryrkja og annarra sjúklinga, þá væri þessi krónutöluupphæð lögð á vald fjmrh. með reglugerð, þannig að ekki þyrfti ávallt að koma til lagabreytinga þegar þyrfti að hækka þessa frádrætti eða þessar niðurfellingar vegna mikillar verðbólguþróunar í landinu. Þegar verðbólga er um 50%, eins og verið hefur á undanförnum árum og því miður eru ekki miklar líkur á því að hún fari minnkandi, a.m.k. ekki meðan núv. hæstv. ríkisstj. situr, þá er óeðlilegt og mjög óæskilegt að hafa slíkar krónutölur bundnar í lögum, þannig að frv. þurfi að fara í gegnum þrjár umr. í Nd. og þrjár umr. í Ed:, þ.e. lagabreytingaprósessinn allan, til þess að hægt sé að breyta slíkum krónutöluupphæðum. Ég held að það væri miklu nær að leggja þetta á vald félmrh., eins og raunar brtt. er komin fram um.

Ég vil aðeins í sambandi við ummæli hæstv. félmrh. áðan um þá hækkun, sem varð á bótagreiðslum almannatrygginga sumarið 1971 þegar gildistöku tekjutryggingarinnar, sem var nýmæli í þeim lögum, var flýtt um fjóra mánuði, taka fram að hæstv. ráðh. gleymdi að geta um það sem er meginatriði í málinu, að reikningurinn fyrir þennan kostnað er enn þá ógreiddur. Þegar ákvörðunin var tekin um að flýta gildistöku tekjutryggingarinnar um fjóra mánuði var ekki útvegað neitt fé til þess að það væri hægt, heldur var með þeirri ákvörðun gefin út innistæðulaus ávísun. Sú innistæðulausa ávísun hefur enn ekki verið greidd. Eins og nú standa sakir mun skuld ríkissjóðs við Tryggingastofnun ríkisins vera um 5 milljarðar kr., eða var það um s.l. áramót, og hún stafaði af þessari ákvörðun sem fyrirrennari hæstv. ráðh. og flokksbróðir, þáv. félmrh., tók sumarið 1971 án þess að hafa nokkurt fé til þess að greiða fyrir hana. Síðan eru menn búnir að velta þessari skuld á undan sér árum saman og engin ríkisstj. hefur treyst sér til þess að gera hana upp, með þeim afleiðingum að nú skuldar ríkissjóður Tryggingastofnun ríkisins um 5 milljarða kr. og meginhlutinn af þeirri skuld stafar af þeirri ákvörðun sem tekin var sumarið 1971 án þess að nokkurt fé væri fyrir hendi til þess að greiða þær tryggingabótahækkanir sem þar voru ákveðnar. Þetta held ég að hæstv. félmrh. ætti að muna og hvorki telja það sér né sínum flokki til sérstaks ávinnings að hafa tekið ákvörðun af þessu tagi.

Ég ætlaði mér ekki að ræða önnur mál undir þessum dagskrárlið. Hins vegar óskaði hæstv. ráðh. eftir því, þegar hann beindi orðum sínum til mín áðan, að ég gerði það. Það er sjálfsagt að láta af því verða, þótt ég takmarki ræðutíma minn og stytti mál mitt, m.a. vegna þess að hér liggur fyrir þinginu till. til þál. frá skrifara þessarar d. þar sem hann segir að till. sé flutt til að bæta úr ástandi deilna. Ég held að það þyrfti mjög að bæta úr ástandi deilna hér í þinginu og ætla að gera mitt til þess, að úr ástandi deilna verði bætt, með því að verða ekki langorður um þessi mál að þessu sinni.

En það er ekki að ástæðulausu sem menn af góðum hug vilja gefa hæstv. félmrh. góð ráð. Hvernig skyldi standa á því? Auðvitað gefa menn þau ráð af heilum hug. Þau eru af góðum hug gefin, eins og hæstv. ráðh. tók fram. Ástæðan skýrist í því blaði af Tímanum sem ég er með hérna, frá 19. febr. s.l. Þar er rætt við einn af fremstu verkalýðsleiðtogum Alþb., Ingólf nokkurn Ingólfsson, fyrrum formann Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Og hvað segir Ingólfur? Hann segir, með leyfi forseta: „Það er ljóst, að þeir, sem ferðinni ráða (í Alþb.), telja betur komið málefnum flokksins án þessara manna (verkalýðsmannanna) en með þá innanborðs“. Svo kemur innskot blaðamannsins: Nú gæti flestum sýnst að verkalýðsflokkur teldi æskilegt að hafa fulltrúa launþega innan flokksins. „Ekki sýnist það alltaf vera í reynd, enda ekki einsdæmi að menn skreyti sig með lánsfjöðrum,“ svaraði Ingólfur. „Verkalýðsforingjar mættu líka svo sem vel vera innan flokksins, en helst ekkí þar í flokki sem þeir gætu haft einhver áhrif eða verið til erfiðleika.“

M.ö.o.: Þessi verkalýðsforingi Alþb. segir að menn í pólitískri forustu þess flokks vilji ekkert hafa með ráð þeirra manna að gera sem hafa tileinkað sér reynsluþekkingu á efnahags- og atvinnumálum. En hann segir líka, hann vekur athygli á því, að í Alþb. hafi þeim mönnum ekki heldur verið hossað hátt sem sýnt hafi sérfræðilega innsýn í efnahagsmál. Þeir hafa yfirleitt verið lagðir til hliðar, þótt einhverjum gæti dottið í hug að eftirsókn væri eftir slíkum mönnum, einkanlega þegar flokkurinn hefur sig talsvert í frammi með spaklegum yfirlýsingum um stefnu í efnahagsmálum. M.ö.o.: hin pólitíska forusta Alþb. vísar ekki aðeins á bug ráðum þeirra, sem yfir reynsluþekkingu búa í efnahags- og atvinnumálum, heldur einnig ráðum hinna, sem yfir sérfræðilegri þekkingu búa sem þeir hafa aflað sér með skólagöngu. Og eins og hv. þm. Alþb., Guðmundur J. Guðmundsson, sagði í morgun í morgunútvarpi, þá standa spekingarnir eftir. Það er því ekki skrýtið þó menn vilji af góðum hug gefa þeim mönnum ráð og vekja af svefni, sem hvorki vilja tileinka sér ráð þeirra, sem yfir reynsluþekkingu búa í flokki sínum, né hinna, sem hafa aflað sér þekkingarinnar með menntun.