19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. Hér er óskað eftir heimildum til lántöku erlendis frá upp á 12 þús. milljónir, og í 3. gr., sem er til skýringar á þessu, er rætt um að langveigamestu verkefni séu á sviði orkumála.

Ég fagna því að sjálfsögðu, að hér er það sett fram skýrum stöfum að Vesturlína er með í þessum framkvæmdum. Mér er ljóst að það verður að taka ákvörðun snemma á árinu um allar framkvæmdir, eigi að vinna skipulega að þeim, og þess vegna held ég að það sé rétt að fyrir liggi sú heildarupphæð sem hér er talað um, en ekki að verið sé að veita þetta í smáskömmtum.

Staðan í orkumálunum á Íslandi er mjög alvarleg. Talið er að það þurfi að keyra dísilstöðvar næsta vetur fyrir um 4 milljarða kr. Nú blasir það við, að valkostir okkar til að auka raforkuframleiðslu fyrir næsta haust eru harla fáir, og í ljósi þess vil ég fá skýlaus svör við því, hvort ríkisstj. hyggst verða við beiðni frá RARIK um boranir við Kröflu. Ég veit að það liggur fyrir ósk frá þeim þess efnis, að boraðar verði þar tvær nýjar holur, og ljóst er að eigi þær að komast í gagnið fyrir næsta haust er ótækt að bíða með ákvarðanatöku til þeirra hluta. Þetta mál varðar einnig uppbyggingu byggðalinanna, því að ef enginn stórvirkjun verður á þessu svæði verður að byggja byggðalínurnar upp á annan hátt gagnvart þéttivirkjum og er það mjög svo kostnaðarsöm framkvæmd, að talið er, og bara gagnvart Norðurlandi einu mun það auka kostnaðinn um 11/2 milljarð.

Allmikið hefur verið deilt um Kröflu í sölum þingsins og ég ætla ekki að blanda mér í þær umr. En ég tel það algjört ábyrgðarleysi, eins og mál eru komin, ef við förum nú ekki að ráðum RARIK og þeirra sérfræðinga og borum við Kröflu í stað þess að bíða þar í úrræðaleysi eins og gert hefur verið nú seinustu mánuði.