21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv., sem hér er til umr., og meiri hl. n., sem skipaður er þm. þriggja flokka, þm. Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl., leggur til að frv. verði samþ. með brtt. sem flutt er á þskj. 186, þar sem því er bætt við upphaflegan texta 2. gr. frv., að Byggðasjóður skuli á næstu 3 – 5 árum greiða allt að helmingi lánsins.

Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls hér í hv. Ed. var talið æskilegra af ýmsum að kveðið væri nánar á um greiðslu lánsins, og eftir athugun í n. og umr. milli flokkanna, sem að þessu nál. standa, eða þm. þeirra varð að samkomulagi að orða greinina á þennan hátt. Ég tel það sjálfur verulegan áfanga fyrir málefni landbúnaðarins að með þessum hætti sé viðurkennt að landbúnaður sé verulegur þáttur í eflingu og viðhaldi byggðar í þessu landi og hægt sé að skapa svo breiða samstöðu sem hér hefur náðst um þá fjármögnun sem þetta frv. kveður á um. Fulltrúi Alþfl. í n. skilar hins vegar séráliti,og mun hann væntanlega gera grein fyrir skoðun sinni við umr.

Ég vil sérstaklega þakka þeim meðnm. mínum í fjh.og viðskn. sem unnu að því að koma þessu samkomulagi á, hv. þm. Framsfl. og Sjálfstfl., því að ég tel afar mikilvægt að öflug samstaða geti skapast um afgreiðslu málsins hér á Alþ. eins og sést í afgreiðslu meiri hl. fjh.- og viðskn. á málinu.

Það væri vissulega tilefni til að taka hér til umr. vandamál landbúnaðarins almennt, en ég ætta ekki að gera það þar eð boðað er að ríkisstj. muni beita sér fyrir því, að lögð verði fyrir þingið sérstök till. um framtíðarstefnumótun í landbúnaðarmálum, og þá gefst tilefni til að taka afstöðu til þeirra þátta. Sú fjármögnun, sem hér er til umr., er hins vegar greiðsla á gamalli skuld, ef svo mætti orða, og er nauðsynlegt að afgreiða hér með skjótum hætti. Það hefur dregist allt of lengi að málið yrði afgreitt, svo að hægt væri að takast á við framtíðarstefnumótun í landbúnaði með nokkurn veginn hreint borð.

Að svo mættu vil ég endurtaka þakkir mínar til meðnm. minna allra fyrir afgreiðslu málsins og sérstaklega þeirra, sem standa að þessum meiri hl., og vænti þess, að hv. d. afgreiði málið á þennan hátt.