21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 187, en jafnframt hefur verið dreift nál. á þskj. 188.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenskur landbúnaður er í ógöngum. Þessum ógöngum má kannske lýsa í mjög fáum orðum með eftirfarandi hætti:

Öngþveitið í landbúnaði er í því fólgið að íslenskir bændur slíta sér út fyrir aldur fram við að framleiða vörur sem ekki eru seljanlegar nema til komi stórkostlegar niðurgreiðslur í formi útflutningsbóta sem greiddar eru með skattlagningu á fólkið í landinu. Niðurstaða þeirrar stefnu, sem hefur verið rekin, birtist því í ferþættri eða fimmþættri mynd. Við höfum fyrir okkur útslitna bændur, skattpíndan almúga til að greiða niður mat ofan í útlendinga, við höfum fyrir okkur lífskjaraskerðingu þjóðarinnar sem heildar og við höfum fyrir okkur glaðbeitta útlendinga sem njóta vitleysunnar og hlæja að henni. Og síðast en ekki síst göngum við á gróðurinn í landinu með ofbeit. — En þetta ástand, þessar ógöngur eða þetta öngþveiti, er auðvitað sorglegt því að það slítur út þjóðinni, bændum jafnt sem launþegum.

Það sorglegasta við þetta allt saman er að sífellt er troðinn sami hringurinn. Þrátt fyrir allt tal og umræður um vandamál landbúnaðarins er sama taktfasta, venjubundna hringrásin troðin. Það frv., sem ríkisstj. hefur nú flutt og hér er til umr., er einungis eitt skref enn í hringrás vanans og uppgjafarinnar — uppgjafar við stefnumótun. Þetta er með sama gamla markinu brennt, nefnilega að raunhæfum aðgerðum er skotið á frest, en peningum dælt til greinarinnar til stundlegrar friðþægingar. Menn kaupa frest, kaupa frið og velta málinu áfram, rétt eins og menn trúi því að vandamálið muni gufa upp eða leysast af sjálfu sér. Þó ættu allir að vita að til þess er engin von. Hitt er sönnu nær, að vandinn hefur sífellt magnast á undanförnum árum og hann mun að öllu óbreyttu stigmagnast á komandi árum.

Hér var talað um 1200 millj. fyrir ári umfram útflutningsbótahámark, 3000 millj. núna, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, er verið að tala um 7 milljarða í haust í aukareikning á ríkissjóð umfram þær útflutningsbætur sem að hámarki samkv. lögum teljast 1.0% af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða, en þær upphæðir, þessi 10% viðmiðun, voru 5.3 milljarðar á árinu 1979 og áætlast 8.5 milljarðar á árinu 1980. Við erum þannig í rauninni að tala um 8.3 milljarða kr. skattlagningu á þjóðina bara vegna útflutnings á afurðum vegna framleiðslu ársins 1978–1979 og þá væntanlega um 15 milljarða vegna framleiðslu ársins 1979 –1980. Ég spyr: Á að halda þessu áfram með árlegri tvöföldun, eins og birtist í tölunum 8 – 15, þannig að næst verður þetta 30 og svo 60 milljarðar þar til landbúnaðurinn og allir bændur landsins eru múlbundnir á klafa ríkisframlaga, sem kreist eru út úr skattborgurunum því að ekki sækir ríkið fé sitt annað en í álögum á þjóðina? Og hvar stendur íslenskur landbúnaður við þessar aðstæður?

Það er sannfæring mín að nokkur sársauki nú og stefnubreyting út úr öngþveitinu sé áreiðanlega heilbrigðari og heillavænlegri en sú kvalafulla ringulreið og uppflosnun eða jafnvel sprenging, uppreisn fólksins gegn þessu kerfi, sem leiðir af óbreyttri stefnu. En ástandið, sem við búum við, og sú framtíðarsýn, sem við blasir, verður ekki bændum kennd, þeim verður ekki um ástandið kennt. Það er kerfið, sem við höfum búið okkur, sem óhjákvæmilega hefur haft og hlýtur að hafa þessar afleiðingar.

Hér hefur ríkt óheft framleiðslustefna. Sú stefna átti við fyrir nokkrum áratugum, en sá tími og það ástand er úr sögunni. Nú er sú stefna baggi á þjóðinni og á leiðinni að verða vítafen fyrir bændur þessa lands. En meðan þessi stefna ríkir hlýtur hver bóndi að bjargast sem best hann má og þá m.a. og ekki síst með framleiðsluaukningu. Það liggur í hlutarins eðli við þessa stefnumörkun. Það er því ekki við bóndann að sakast. Sökudólgarnir eru mennirnir í þessu húsi, alþm. og þingflokkar Framsfl., Sjálfstfl. og nú nýverið Alþb., sem bera ábyrgð á þessari stefnu og vilja viðhalda henni í ævintýralegum misskilningi á því, í hverju hagsmunir bænda og þjóðarinnar allrar eru fólgnir.

Alþfl. hefur sem kunnugt er um alllangt árabil barist fyrir stefnubreytingu í þessum efnum, — stefnubreytingu í þá veru að barðbærum útflutningi á landbúnaðarafurðum yrði hætt og framleiðslan miðaðist við innanlandsþarfir. Á seinustu misserum þóttumst við Alþfl.menn sjá merki þess, að aðrir flokkar væru að átta sig á að stefnubreyting af því tagi væri nauðsynleg, og svo mikið er víst, að launþegahreyfingunni og öllum almenningi er fyllilega ljóst að öngþveitið, sem þríflokkarnir hafa boðað, má ekki standa. En nú er að sjá sem þær týrur, sem kviknað höfðu hjá þessum flokkum þremur, séu að slokkna. Skal tvennt tilfært til að styðja þá röksemd:

Í fyrsta lagi verður lítið ráðið um vilja eða stefnumörkun til þessarar áttar af þeim orðum sem raðað hefur verið saman undir titlinum. „Stjórnarsáttmáli ríkisstj. Gunnars Thoroddsens“. Í annan stað hélt hæstv. landbrh. ræðu á Búnaðarþingi nýverið sem gekk einmitt í þveröfuga átt og hverrar megininntak var meiri framleiðsla. — Við Alþfl.-menn vörum bændur og þjóðina alla við afleiðingum slíkrar mörkunar framleiðslustefnu. Þær afleiðingar verða hörmulegar. Til þess eru vítin að varast þau, en ekki að sökkva dýpra eins og hæstv. landbrh. virðist leggja til.

Með því frv., sem ríkisstj. hefur nú lagt fram og er hér til umr., eru bændur enn hafðir að ölmusumönnum án þess að nokkuð fleira komi til. Ég held að það sé ljóst, að bændur vilja ekki feta þá braut áfram með stighækkandi bakreikninga af þessu tagi. Sú brtt., sem ég mæli hér fyrir og hef lagt fram, felur hins vegar í sér breytta stefnumörkun og að koma þessum málum úr ölmusufarveginum. Hún nær ekki yfir nemahluta þeirrar stefnubreytingar sem nauðsynleg er, en hins vegar nær hún yfir mikilvægan þátt og þá þann þáttinn sem beint tengist því frv. sem ríkisstj. hefur flutt og hér er til umræðu þótt fyllsta ástæða hefði verið til ítarlegri tillöguflutnings hef ég látið það ógert að þessu sinni, heldur látið brtt. einskorðast við það svið sem beint tengist frv. ríkisstj. Hins vegar gefast væntanlega tækifæri síðar til að flytja tillögur um aðra þætti hinnar nauðsynlegu stefnumörkunar og þeirra nýju vinnubragða sem upp verður að taka í málefnum landbúnaðarins.

Við Alþfl.-menn höfum aldrei synjað fyrir að greiða gæti þurft úr stundarvanda með fjárútvegun eða fjárútlátum, en við höfum viljað binda það því skilyrði að skilmerkileg og fastbundin stefnubreyting til frambúðar næði fram að ganga. Það má orða þetta svo, að við höfum talið að útgjöld núna ættu að vera aðgöngumiði að framtíðinni eða aðgöngumiði að frambúðarlausn. Hinu er ekki að leyna, að við höfum talið og teljum hollast að bændur taki sjálfir á sig hluta vandans.

Í fyrsta lagi er ólíklegt, mjög ólíklegt, næstum ómögulegt, að tilkostnaður vaxi í beinu hlutfalli við afurðamagn í góðæti eða við framleiðsluaukningu, eins og kostnaðartölur, tekjuskerðingartölur og þar með þær tölur, sem skilgreina stærð vandans, gefa til kynna. Það vex ekki svo hratt. Í annan stað er ekkert sem mælir með því að bændur einir allra stétta skuli vera „stikkfrí“ fyrir öllum vandamálum af tekjutagi eins og hér á við. Að vera þannig algjörlega „stikkfrí“ er engri stétt hollt. Í sjávarútvegi er afli takmarkaður með ýmsum hætti. Sjómenn og útgerðarmenn láta sér lynda að búa þannig við minni tekjur um sinn en þeir gætu annars haft. Þeir gera það til að tryggja framtíðarafkomu sína og afkomuöryggi. Þeir leggja þannig sitt af mörkum í aðgangseyri að framtíðinni. Og hvort heldur menn telja takmarkanir of miklar eða of litlar, rétt eða rangt að þeim staðið er þó a.m.k. yfirgnæfandi meiri hluti þings og þjóðar á því að takmörkun verði að vera og þar með aðgangseyrir að framtíðinni í sjávarútvegi. Á sama hátt verður að ætla bændum að bera nokkurn hluta byrðanna af offramleiðslu landbúnaðarins og greiða þannig hluta aðgangseyris, þótt aðstæður geri á hinn bóginn eðlilegt að ríkið komi í þeim efnum og í þessari grein nokkuð til móts og útvegi nokkurt fé, t.d. með lánsábyrgð eins og hér er lagt til, svo hörmulega sem til hefur tekist um stefnumörkun af opinberri hálfu. En það á að gera því aðeins að hér sé um að ræða aðgangseyri að endurbættri stefnu sem skili árangri.

Um að byrðunum skuli deilt með þessum hætti má reyndar segja að ríkt hafi samstaða fyrir ekki alllöngu. Í svonefndri harðindanefnd, sem skipuð var fulltrúum allra flokka og skilaði áliti í byrjun ágústmánaðar s.l., birtist þessi skoðun með svofelldum hætti:

Vandinn, eins og það er orðað, var skilgreindur þá sem 4.5 milljarðar kr. Meiri hl. n. vildi mæta honum af opinberri hálfu að 2/3 hlutum eða með 3 milljörðum kr. Minni hl., Eiður Guðnason alþm., vildi mæta honum með 1/3 að viðbættum 1/2 milljarði til að greiða fyrir að bændur, sem þess æsktu, gætu lagt niður búskap, eða alls með 2 milljörðum kr.

Nú er það svo, að „vandinn“, sem svo er nefndur, hefur reynst samkvæmt nýjustu áætlunum 3.5 milljarðar kr. Samkvæmt áliti meiri hl. harðindanefndar ætti þá að mæta honum með sem nemur 2.3 milljörðum kr. af opinberri hálfu, en með 1.2 + 0.5 milljörðum samkv. tillögum Eiðs Guðnasonar. Auðvitað er ævinlega matsatriði hver sé réttlát deiling byrðanna, en í þeirri brtt., sem ég flyt hér, er farið bil beggja og valið bræðralag helmingaskiptanna og þannig gerð till. um helming af 3.5 milljörðum kr. í opinberri peningafyrirgreiðslu eða 1750 milljónir kr.

Nú er það svo, að í frv. því sem hér liggur fyrir, þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður ábyrgist allt að 3 milljarða kr. lántöku Framleiðsluráðs landbúnaðarins, er jafnframt tekið fram að ríkissjóður annist afborganir, vexti og kostnað allan af láni þessu að því leyti sem aðrir bjóðast ekki til að taka á sig greiðslurnar, svo notað sé orðalag hæstv. fjmrh. fyrir nokkrum dögum, en það verður að álita harla ólíklegan kost. Þannig er um það að ræða samkv. þessu frv., eins og ríkisstj. hefur lagt það fram, að ríkissjóður lýsi því yfir fyrir fram og afli sér lagaheimildar til að standa undir greiðslu á láni sem aðili úti í bæ tekur með ríkisábyrgð.

Þessi aðferð er fordæmislaus eða á sér a.m.k. mjög hæpin fordæmi, og brýtur að líkindum í bága við lög nr. 52/1966, um ríkisreikninga, eða verður a.m.k. að teljast mjög vafasöm í samhengi við þau lög. Auk þess er hér farið inn á stórvarasama braut.

Tillögur meiri hl. n. um að Byggðasjóður greiði allt að helmingi lánsins breyta hér auðvitað engu um, enda getur Byggðasjóður reyndar samkv. því valið að greiða ekkert af láninu þar eð engin neðri mörk eru tilgreind á greiðslu af hans hálfu, heldur einungis talað um að hann skuli greiða „allt að“ helmingi lánsins, en það vill svo til að talan núll er einnig þar innifalin. Frv. ríkisstj. og till. meiri hl. mega því ekki standa óbreyttar.

Sú aðferð er hins vegar að ýmsu leyti rétt, að Framleiðsluráð landbúnaðarins geti tekið lán til að standa straum af sveiflum í landbúnaðarframleiðslu. En þá er á hinn bóginn sjálfsagt að Framleiðsluráðið standi skil á afborgunum og vöxtum af því láni eins og aðrir lántakendur. Af þessum sökum er vitaskuld rétt að fella niður 2. gr. frv., eins og hún birtist af hálfu ríkisstj. eða meiri hl. n., og breyta jafnframt lögunum um framleiðsluráð landbúnaðarins þannig að Framleiðsluráðið geti tekið lán af þessu tagi og risið undir þeim.

Eins og ég sagði áðan er ljóst að sú offramleiðslustefna, sem ríkt hefur í landbúnaði, hefur leitt til ófarnaðar. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að breyta þegar um stefnu í þeim efnum og miða framleiðsluna við innanlandsþarfir. Þjóðin verður ekki skattpínd öllu lengur til að standa undir niðurgreiðslu á mat ofan í útlendinga, og bændur hafa vitaskuld ekki geð í sér til að gerast eilífir og sívaxandi ölmusumenn skattborgaranna og stefna þannig málum sínum í stórhættu. Fjárhagslega fyrirgreiðslu til úrlausnar á stundarvanda á því að tengja nýrri stefnumörkun í landbúnaðarmálum þjóðinni til heilla og lífskjarabóta jafnframt því að tryggja frambúðaröryggi og sjálfstæði bænda. Útgjöld á líðandi stund eiga því, eins og ég sagði, að vera aðgöngumiði að framtíðinni, en ekki skilyrðislaus ávísanaútskrift á skattþegnana, eins og frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að því frv., sem hér liggur fyrir, verði breytt með tilliti til heillavænlegrar frambúðarstefnu.

Eins og ég gat um áðan hefur Alþfl. um alllangt árabil talað fyrir stefnubreytingu í þessum efnum og varað við því í hvert óefni væri komið. Nýverið hefur þessi stefnumörkun m.a. birst í till. flokksins um niðurtalningu útflutningsbóta, sbr. till. í stjórnarmyndunartilraunum formanns flokksins, Benedikts Gröndals. Sú braut, niðurtalning útflutningsbóta, mun gæfusamleg fyrir bændur þessa lands og þjóðina í heild.

Til þess nú að greiða fyrir því, að lántaka á vegum Framleiðsluráðsins geti verið með eðlilegum hætti og stangist á engan hátt á við lögin í landinu, jafnframt því að tryggja stefnubreytingu í stjórn landbúnaðarmála og skynsamlega dreifingu á byrðum af stundarvanda, legg ég til í brtt. á sérstöku þskj. að brugðist verði við með ákveðnum hætti. Þessar till. fela í sér, að í stað 2. gr. frv. komi breyt. á framleiðsluráðslögunum sem nái einmitt þeim markmiðum að tryggja stefnubreytingu í stjórn landbúnaðarmála, að ná fram skynsamlegri dreifingu byrðanna og að tryggja að Framleiðsluráðið geti með eðlilegum hætti tekið lán af því tagi sem felst í 1. gr.

Nú kann hv. d. að þykja að langt sé sælst, og læddist sá grunur að mér að gagnrýna mætti hversu þinglegt væri að standa svona að málum, að breyta framleiðsluráðslögunum í þessu samhengi. Því bar ég þessi mál undir þann mann, sem fróðastur mun vera um þau, skrifstofustjóra Alþingis, og hann taldi að ekki væru meinbugir á því að standa að málum með þeim hætti sem ég hef hér gert, enda reyndar einmitt vitnað í 12. gr. laga um Framleiðsluráð í nefndri 2. gr. eins og hún kemur frá ríkisstj.

Meginatriði breytinganna, sem ég lít á sem meginatriði þess sem gera þarf á þessari stundu, eru breytingar á framleiðsluráðslögunum og eru þessar:

Í fyrsta lagi: Í stað ákvæða í gildandi lögum um hámark útflutningsbóta komi ákvæði um að ríkissjóður greiði Framleiðsluráði landbúnaðarins tilteknar fjárhæðir næstu fjögur ár í formi framleiðslu- og framfarastyrks, sem miðist við 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar fyrstu tvö árin, en lækki síðan um 1% stig á ári næstu tvö ár þar á eftir.

Í öðru lagi þessum framleiðslu- og framfarastyrk skuli Framleiðsluráðið verja til eftirfarandi atriða:

a) útflutningsbóta samkv. sérstökum reglum, sbr. það sem ég mun rekja í 3. lið hér á eftir;

b) til að standa undir lánum sem ráðið kann að taka til afkomujöfnunar, sbr. fyrirliggjandi frv.;

c) til að greiða fyrir því að bændur, sem þess æskja, geti hætt búskap;

d) til að styrkja nýjar arðvænlegar búgreinar, svo sem ylrækt, garðrækt, fiskeldi og loðdýrarækt.

Í þriðja lagi er það nýmæli, að við ákvörðun útflutningsbóta skuli gilda eftirfarandi:

a) Hámark heildarupphæðar í þessu skyni sé 9% af heildarframleiðsluverðmæti næstu tvö árin, en þar á eftir 8% og síðan 7% af heildarframleiðslu á sauðfjár - og nautgripaafurðum.

b) Útflutningsbætur fari aldrei fram úr 100% af útflutningsverði af hverri einstakri sölu.

Með þessum hætti verður Framleiðsluráðið sjálfstæður stjórnunaraðili innan þeirra marka sem lögin setja og fær svigrúm til að ryðja braut nýrri stefnumörkun, jafnframt því að geta staðið undir greiðslum á lánum eins og fyrirliggjandi frv. gerir ráð fyrir.

Hér er sem sagt um tvíþætta niðurtalningu að ræða: annars vegar er tekið upp það nýmæli, að sérstakur framleiðslu- og framfarastyrkur sé veittur til Framleiðsluráðsins sem fari stiglækkandi á næstu árum, að vísu mjög hægt, en hins vegar að þessum styrk megi verja til fjölþættra verkefna, þ. á m. til útflutningsbóta, en þó sett ákveðið hámark á útflutningsbæturnar, sem í rauninni eru einu prósentustigi lægri hvert ár en gert er ráð fyrir að framleiðslu- og framfarastyrkurinn nemi.Þennan mismun, 1%, getur ráðið notað til að standa undir lánum af því tagi sem hér er verið að taka og skortir mjög tilfinnanlega að ráðið geti tekið í raun og sannleika, eins og málin eru nú í pott búin af hálfu ríkisstj. Ráðið getur notað hluta af mismuninum til að greiða fyrir því, að bændur, sem þess æskja, hætti búskap, og til að styrkja nýjar og arðvænlegar búgreinar. Framleiðsluráðið verður þannig sjálfstæður stjórnunaraðili innan þessara marka, og með þessum hætti er engin hætta á að dregið verði í efa að hér sé löglega að farið með því að veita lán af því tagi sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv.

Það væri vissulega ástæða til að reifa ýmislegt annað varðandi stefnumörkun í landbúnaði í þessu samhengi Ég skal stytta mál mitt mjög í þeim efnum, en ég get ekki stillt mig um að minna á fáein atriði í þessu sambandi.

Fyrir utan það, sem hér er sett fram, er áreiðanlega nauðsynlegt að endurskoða verðlagningarkerfi búvara þannig að greiðsla fyrir afurðirnar standi í beinu sambandi við söluverðmæti þeirra og markaðsaðstæður. Í þessu sambandi held ég að kanna eigi sérstaklega að koma á samningum milli bænda og mjólkurvinnslustöðva um mismunandi verð á mjólk, stórmismunandi verð á mjólk eftir árstíðum, og stiglækkandi verð á mjólk með auknu framleiðslumagni. Í öðru lagi og á sama hátt þarf að koma á samningum milli dilkakjötsframleiðenda og sláturleyfishafa um stiglækkandi verð á dilkakjöti með auknu framleiðslumagni. — Þetta eru áreiðanlega brýn verkefni að því er varðar verðlagningarkerfi búvara. Auk þess er vafalaust nauðsynlegt að gera þann uppskurð á verðlagningarákvörðun búvara að greinileg skil verði á milli í verðlagningunni að því er varðar verð til bænda, þ.e. skil á milli bænda og vinnslustöðva.

Í annan stað er vafalaust nauðsynlegt — og brýn nauðsyn, að fjárfestingarstefnan í landbúnaði verði tekin til endurskoðunar og miðist beinlínis að því að koma í veg fyrir framleiðsluaukningu. Jarðræktarframlög ætti þannig að afnema í áföngum á næstu þremur árum eða svo, og hluta af því, sem þannig sparast, mætti verja til sams konar verkefna og ég hef talað um hér áður, til nýrra búgreina, svo sem garðyrkju, ylræktar, fiskeldis og framleiðslu á svína-, hænsna- og nautakjöti, og í annan stað til að aðstoða bændur, sem þess æskja, að hverfa frá búskap. Jafnframt ætti auðvitað að sjá til þess, að fjárfestingarlán verði á þessu stigi ekki veitt til nýframkvæmda við peningshús yfir nautgripi og sauðfé, og enn fremur er ekki ástæða til að veita fjárfestingarlán til nýframkvæmda við vinnslustöðvar landbúnaðarins á næstu árum.

Ég vildi einungis drepa stuttlega á þessi atriði vegna þess að ég tel þau mjög mikilvæg að því er varðar stefnumörkun í landbúnaðarmálum. Ég skal svo ekki tefja d. með lengri ræðu um þetta mál. En ég bendi enn á þá meginþætti sem felast í þeim brtt. sem ég hef lagt fram.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir lægri fjárhæð sem lánuð yrði og veitt ríkisábyrgð út á, 1750 millj. kr. í stað 3000 millj. kr. Í öðru lagi er tekin upp ný stefnumörkun í landbúnaðarmálum, nýtt stjórnunarkerfi, þar sem sjálfstæði bænda, innan þess ramma sem þar er markaður, er aukið. Framleiðsluráðinu er gert kleift, ekki bara núna, heldur í framtíðinni, að standa undir lántökum til sveiflujöfnunar þegar því sýnist svo og það treystir sér til að standa undir lántökum af þessu tagi. Það kann að vera gott til sveiflujöfnunar. Það fær svigrúm til að stuðla að framförum í greininni. Jafnframt getur það varið ákveðnu hámarki af því fé, sem það fær þannig í framleiðstu- og framfarastyrk, til útflutningsbóta. Það verður svo í hag bændanna sjálfra að draga í áföngum úr því, sem þannig fer í að greiða niður mat ofan í útlendinga, og geta fengið meira fé handa á milli til framfara í greininni stig af stigi.

Ég tel að með frv. svona breyttu væri stigið verulegt framfaraspor í málefnum íslensks landbúnaðar til heilla fyrir bændur þessa lands og þjóðina alla.

Íslenskur landbúnaður er í ógöngum, sem birtist í útslitnum bændum, í ofnýttu gróðurlendi, í skattpíndum almúga og í þjóðfélagslegri lífskjaraskerðingu. Þrátt fyrir mikla umræðu um þennan vanda er sífellt troðin sama taktfasta, venjubundna hringrásin. Fyrirliggjandi frv. ríkisstj. óbreytt mundi vera enn eitt skrefið í hringrás vanans og uppgjafarinnar, þar sem raunhæfum aðgerðum er skotið á frest, en stundleg friðþæging keypt á kostnað skattborgaranna. Í þeim brtt. sem ég legg fram, er lagt til að þessi vítahringur vitleysunnar verði rofinn, bændur fái sjálfstæði um ákvörðun mála sinna innan stefnumarkandi ramma og skattborgurunum verði tryggt að þeim sé ekki ætlað að standa undir óarðbærri framleiðslu til frambúðar. Útgjöld núna, miðað við skynsamlega dreifingu byrðanna milli bænda og fólksins í landinu í heild, eru skoðuð sem aðgangseyrir að frambúðarstefnu á skynsamlegum grunni. Ég legg því til að frv. verði samþ. með þeim breyt. sem birtast á þskj.187.