21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er, eins og kunnugt er, flutt af hæstv. fjmrh., enda fjallar það um ábyrgðar- og greiðsluheimildir ríkissjóðs vegna lántöku Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Frv. var lagt fram s.l. mánudag og kemur nú fyrst til 2. umr., þrátt fyrir að þess væri mjög óskað að frv. gengi fram með skjótum hætti. Ég vil taka það fram, að ég hef lagt á það mikla áherslu að frv. þetta geti náð afgreiðstu og orðið að lögum áður en þinghlé hefst, sem væntanlega verður um þessa helgi. Því miður hefur sá dráttur, sem hér hefur orðið á afgreiðslu þessa máls, og málatilbúnaður, sem þessu máli er samfara, gert horfur á afgreiðslu þess fyrir næstu helgi harla slæmar. Ég vil eigi að síður þakka meiri hl. n. fyrir að hafa náð svo víðtækri samstöðu sem þar kemur fram og þakka n. fyrir að hafa á ýmsan hátt lagt sig í líma við að greiða fyrir þeirri samstöðu sem náðst hefur.

Ég tel ekki ástæðu til að hefja um þetta mál langar umræður. Allir þekkja forsögu þess. Mál þetta bar á góma í ýmsum myndum þegar á 100. löggjafarþinginu og náði þá eigi afgreiðslu. Það voru flutt þmfrv. um þetta mál á síðasta Alþ. og þegar á þessu Alþ., en ríkisstj. tók ákvörðun um að flytja frv. í því formi sem það er í nú. Þetta frv., sem hér liggur því fyrir til 2. umr., er þess efnis að greiða úr skuld sem myndast hafði á síðasta ári. Þetta frv. er flutt til að bæta úr arfleifð sem núv. ríkisstj. tekur við af þeirri hæstv. ríkisstj. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sat í fyrir fáum mánuðum.

Ég tel ekki ástæðu til að hefja hér umræður um stefnu í landbúnaði. Ég tel að þær brtt., sem fram hafa komið frá hv. 2. þm. Reykn., séu sumpart þess efnis, að þær megi vel skoða í sambandi við stefnumálin í landbúnaði, en þær eiga lítið erindi með þessu frv. Þetta frv. er óháð stefnu í landbúnaði. Þetta frv. er til að bæta úr bráðabirgðaástandi, til að bæta úr vanda sem hlaðist hefur upp, — vanda sem við hefur verið að etja allt s.l. ár og hefur þegar verið dregið of lengi að bæta úr.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson hafði hér mörg orð um landbúnaðarstefnuna sem vissulega væri ástæða til að gera að umtalsefni. Ég vil þó ekki gera það nema með sem allra fæstum orðum.

Hann sagði að landbúnaðarstefnan væri í ógöngum, afleiðingar þess væru útslitnir bændur, skattpíndur almúgi í landinu, sem hv. þm. er sjálfsagt gleggsta dæmið um sjálfur, glaðbeittir útlendingar, sem nytu þess að fá ódýrar og góðar vörur, og ofbeitt gróðurlendi. — Þetta voru þau einkunnarorð sem hv. 2. þm. Reykn. valdi landbúnaðinum og landbúnaðarstefnunni. Ég tel að á ýmsan hátt sé ómaklega og illa að orði komist.

Ég tel að í þessu frv. birtist t.a.m. á engan hátt stundleg friðþæging, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson orðaði það. Hér er verið að greiða úr máli sem er m.a. erfðasynd frá þessum hv. þm. þegar hann var ráðh. Það er nauðsynlegt, að áður en ný stefna tekur að verka í landbúnaði sé búið að gera nokkurn veginn hreint borð miðað við það ástand sem nú ríkir.

Hv. þm. tók svo til orða, að vandamálum hefði verið skotið á frest. Það er sannarlega vel að orði komist, því að hvort tveggja var, að sú hæstv. ríkisstj., sem sat í 13 mánuði og hv. þm. var ráðh. í, skaut þessu máli á frest, en einnig og ekki síður sú bráðabirgðastjórn, minnihlutastjórn Alþfl., sem settist að völdum í októbermánuði s.l. og sat til 8. febr. Hún skaut sannarlega málum á frest. Í hennar tíð hlóðust upp vandamál bæði að því er snertir landbúnaðinn og aðra þætti þjóðmála. Aðkoma núv. ríkisstj. var því sannarlega ekki glæsileg eftir þá stjórnarsetu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar.

Ég vil aðeins segja það um þetta mál, að núv, ríkisstj. hefur boðað að hún muni birta stefnu sína í málefnum landbúnaðarins. Enn hefur ríkisstj. ekki setið nema tæpan hálfan mánuð. Enn er þess vegna ekki hægt að krefjast þess að hún hafi fullmótað þá stefnu sem hún hyggst starfa eftir í landbúnaðarmálum. Ég vil því ekki segja margt um þá stefnu að þessu sinni, en með þeim orðum hv, þm., þar sem hann vitnaði til ræðu minnar á Búnaðarþingi, að þar hefði verið talað í þveröfuga átt við það sem hann taldi að helst hefðu heyrst skynsemisraddir um á síðustu mánuðum og misserum, kann að vera að hann eigi við þá þætti í ræðu minni sem fjölluðu um að í sambandi við stefnumótun. í landbúnaði þyrfti að taka til athugunar hagkvæmni umframframleiðslu í landbúnaði fyrir þjóðfélagið í heild, það þyrfti t.a.m. að fá úr því skorið hvort ekki væri þjóðinni hagstætt, þegar allt kemur til alls, að nokkru meira væri framleitt af sauðfjárafurðum en þjóðin neytir af kjöti með tilliti til þess mikla vinnumagns sem kjötframleiðslunni er tengt, þeirrar miklu þjónustu og ýmiss konar atvinnu, þeim iðnaði sem er ein helsta grein útflutningsiðnaðarins, svo nokkuð sé nefnt, sem yrði stórum að draga saman ef þessi atvinnugrein miðaðist aðeins við innanlandsmarkaðinn. Ef það er í manni hv. 2. þm. Reykn. að stefna í öfuga átt að leita svara. við því, hvað þjóðfélaginu er hagstætt, þá er það glöggt dæmi þess hvað vel menntaðir skrifborðsmenn geta látið sér um munn fara þegar þeir ræða málefni atvinnustétta í landinu. Og þetta er glöggt dæmi þess, hvernig spekingar Alþfl. hafa talað árum saman um málefni landbúnaðarins.

Ég tel ekki ástæðu til að skipta orðum við hv. þm. um málefni landbúnaðarins að neinu verulegu marki út af þeirri ræðu sem hann hefur hér flutt. Ég vil enn leggja á það áherslu, að hv. deild hraði afgreiðslu þessa máls, og ég vil ljúka máli mínu með því að segja, að ég styð þá brtt., sem flutt er af meiri hl. n., og vænti þess, að málið nái afgreiðslu eins og það liggur fyrir frá meiri hl. hv. fjh.og viðskn.