21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. komst svo að orði, að hann hefði haldið að engum kæmi á óvart að það stæði fyrir dyrum þinghlé. Ég gaf ekkert tilefni til að ætla að mér kæmi það á óvart. Ég minntist ekki á að mér kæmi það neitt á óvart. Okkur kemur það ekkert á óvart. Það sem kemur á óvart er að það skuli vera hlaupið frá afgreiðstu þessa máls.

Hæstv. ráðh. hefur nú gefið þá skýringu, að ágreiningur Alþfl. valdi því að málið nái ekki fram að ganga fyrir þinghlé. Ég stóð í þeirri meiningu, að leitað hefði verið eftir samkomulagi þingflokkanna um þetta þinghlé. Ef ég man rétt hefur mér skilist að Alþfl. hefði ekkert við það að athuga. Ég læt mér ekki detta í hug, að ef það er samkomulag að einhverju leyti um þetta þinghlé þýði það að menn séu með málþóf til að rifta í framkvæmd því samkomulagi. En mér skilst af ummælum hæstv. forsrh., að hann óttist að Alþfl. hafi ekki látið sér nægja að gera ágreining í þessu máli, heldur muni hann beita málþófi og draga þingið svo að útilokað sé að málinu ljúki fyrir þinghlé.

Ég er hræddur um að hæstv. ríkisstj. takist seint að ná einhverjum árangri í landbúnaðarmálunum ef hún ætlar að láta Alþfl. hindra sig svo í störfum sem virðist samkv. þessari yfirlýsingu.