21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Málefnaleg afstaða okkar Alþfl.-manna í þessu máli hefur vitanlega legið fyrir í mörg ár. Það er hins vegar yfirlýst af okkar hálfu, að við værum reiðubúnir til að greiða fyrir að þessu máli mætti ljúka. Það er auðvitað ekki hugmynd okkar að halda uppi neinu óheyrilegu málþófi í þessu máli, þó við hljótum að gera grein fyrir skoðunum okkar með eðlilegum hætti eins og ég tel að ég hafi gert í dag á skaplega skömmum tíma. Það er því algjör misskilningur ef einhverjum dettur í hug að Alþfl. ætli að halda uppi málþófi í þessu máli og hindra að það geti fengið afgreiðslu.