21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vonir stóðu til að mál þetta yrði afgreitt í dag, en það er nú enn ekki komið til atkvgr. í fyrri deild við 2. umr. og bersýnilega engar líkur á að það verði afgreitt fyrir helgi. Ég held að það blasi við öllum sem eitthvað þekkja til starfshátta hér á Alþ., að þegar einn stjórnmálaflokkur spyrnir mjög fast á móti máli, sem hér er til afgreiðstu, tekur alltaf einhvern tíma að afgreiða það með eðlilegum hætti á þingi, enda hafa þm. auðvitað góð tök á að láta umræður verða hæfilega ítarlegar um mál sem vissulega er mikið deilumál, þó það þurfi ekki endilega að vera málþóf út af fyrir sig. Hins vegar er ljóst nú, að það liggur fyrir samkomulag þriggja flokka um hvernig þetta mál skuli afgreitt, og það ríkir ekki lengur nokkur minnsti vafi um að þetta mál verður afgreitt innan tíðar og því komið heilu í höfn. Það liggur nú alveg ljóst fyrir.

Ég veit að hv. alþm. gera sér fyllilega grein fyrir því, að ekki er nóg að samþ. þetta mál hér á Alþ. Það þarf að gera meira. Það þarf að útvega lánið. Það þarf að undirbúa lántökuna. Vissulega tekur það líka einhvern tíma. Ég lít svo á, að nú, þegar ljóst er að samkomulag hefur tekist með þremur flokkum um í hvaða búningi þetta mál verði afgreitt, sé eðlilegt að fjmrn. hefji undirbúning að því að lán af þessu tagi verði tekið, enda þótt að sjálfsögðu verði beðið eftir að Alþ. afgreiði málið. Mér sýnist að ef tíminn í þinghléi verður notaður til að undirbúa lántökuna muni það koma næstum að segja í sama stað niður þó að svo fari að þinghlé verði gert áður en þetta mál verður endanlega afgreitt.