21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf við fyrirspurnum mínum, þar sem hann staðfesti það, að ekki verður gerð tilraun til að afgreiða fyrir þinghlé önnur mál en þau, sem hann ræddi um við mig og formann þingflokks Sjálfstfl. í gær. Það er ekki tilgangur ríkisstj. samkvæmt því að fá fram þá afgreiðslu á frv. um tekjustofna sveitarfélaga sem gerð var tilraun til að gera í félmn. þessarar hv. d. í morgun. Hitt er síðan mál sem þarf sérstakrar skoðunar við, ef það er rétt að nál, sé sett í prentun með nöfnum nefndarmanna án þess að þeir hafi undirritað það. Þetta eru dálítið einkennileg vinnubrögð. Fyrst ekki stendur til af hálfu hæstv. ríkisstj. að afgreiða þetta mál, þá vil ég mjög eindregið fara þess á leit við hv. félmn. þessarar d. að draga þetta þskj. til baka, þegar það liggur í fyrsta lagi fyrir að málið á ekki að afgreiða og í öðru lagi liggur fyrir athugasemd frá nm. um að sett hafi verið í prentun nál., væntanlega með nafni nm. undir, án hans vitneskju. Ég held að sæmilegast væri fyrir hv. félmn., miðað við allar aðstæður, að þetta þskj. yrði dregið til baka, því yrði ekki dreift á þessum fundi og því síður gerð tilraun til þess að taka málið fyrir með afbrigðum, annaðhvort á þessum fundi eða á fundi síðar í dag.