03.12.1980
Efri deild: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir fyrirvara okkar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar við þetta mál. Hann er einvörðungu í því fólginn, að við teljum að það þurfi að gera frekari róttækar breytingar á öllu lífeyrissjóðakerfi allra landsmanna.

Ég vil í sambandi við það, sem hér hefur komið til umræðu, hvort um sé að ræða auknar greiðslur lífeyrissjóðsins, taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni. Það var ekki upplýst á þessum fundi að svo væri, enda frv. nánast um það að samræma réttindi bænda til lífeyrisgreiðslu. Ég get ímyndað mér að þar sé um óverulegar auknar greiðslur að ræða.

Hins vegar bar það á góma einmitt á þessum nefndarfundi, að það vill oft verða mjög mikill misbrestur á því um stjfrv. að ákvæði svonefndra Ólafslaga séu virt og kostnaðaráætlun fylgi þeirri lagasmíð sem veldur auknum útgjöldum úr ríkissjóði. Það er því miður svo, að það eru ekki einu ákvæði þeirra ágætu laga sem eru illa í heiðri höfð. Það er ástæða til að taka mjög undir það. Ég held að það sé heilbrigð innanhúsregla fyrir Alþingi og ríkisstj., hver sem hún er, að hafa í heiðri, hvort sem það er í lögum eða ekki, að varðandi öll frv., alla vega stjfrv., sem fela í sér aukin útgjöld, sé „gerð grein fyrir því, þegar verið er að setja viðkomandi lög hver útgjöld þau hafa í för með sér og að menn gangi þá með opin augu í að smíða þau lög.