22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þó ég hafi talað tvisvar hef ég ekki notað langan tíma. Ég tek undir það með hæstv. utanrrh., að mál er að linni þessari umr. hér.

Ég benti aðeins á tvö höfuðatriði: Hæstv. ráðh. hefur þegar borð fyrir báru með skattlagningu á þessu ári og þessi framkvæmd á álagningu skatta á börn núna er með þeim hætti, að það væri sæmst að draga hana til baka, fresta innheimtu og afnema þessa skatta í ár vegna þess hversu þeir koma seint og hversu þeir koma mönnum í opna skjöldu.

Hæstv. ráðh. las á bls. 176 í fjárlagafrv. og vildi vefengja orð mín með því. Ég vitnaði beint í þetta ágæta plagg sem hann ber fram á hinu háa Alþingi, en þar stendur, eins og hann sagði, að um 39 milljarðar verði innheimtir af tekjuskatti einstaklinga á árinu 1980. Hann fór hér með fjarlagatöluna. Ég minni hann á að það stendur í fjárlögum ársins í ár, að fjárlagaáætlun geri ráð fyrir 38.2 milljörðum í tekjuskatt. (Fjmrh.: plús byggingarsjóðsgjald.) Já, en hér er ekki, að því er séð verður byggingarsjóðsgjaldið tekið inn í. Ekki fæ ég séð það. En það er nú ekki nema 500 milljónir, þannig að þarna er þrátt fyrir alla þessa fyrirvara, sem ég hef fyrirvara um að séu nauðsynlegir þegar verið er að reyna að fá þessa tölu niður í fjárlagaáætlun, samt sem áður borð fyrir báru fyrir þessari skattalækkun.