03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

Afgreiðsla máls úr nefnd

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hinn 27. okt. s.l. lögðum við þrír þm. Sjálfstfl. fram frv., einfalt í sniðum, þess efnis að álagður tekjuskattur, útsvar, sjúkratryggingagjald og kirkjugarðsgjald á börn, sem voru innan 16 ára aldurs á tekjuárinu 1979, skyldi falla niður á skattárinu 1980 og koma til endurgreiðslu þar sem gjöld þessi hafa verið greidd. Í „Beinni línu“ í Ríkisútvarpinu kom það fram, að hæstv. forsrh. var þeirrar skoðunar, að mistök hefðu átt sér stað þegar börn voru skattlögð með þessum hætti, og lofaði því, að þetta mál yrði tekið til afgreiðslu og leiðréttingar. Þessu máli var vísað til fjh.og viðskn. hinn 10. nóv. s.l., en síðan hefur hvorki heyrst stuna né hósti frá nefndinni. Nú er það fsp. mín til formanns nefndarinnar, hvar þetta mál sé statt, hvort hugmyndin sé að málið fái eðlilega afgreiðslu á þessu ári. Samkv. eðli þessa frv. hefði þn. átt að taka það til afgreiðslu þegar í stað til þess að það kæmi að haldi. Ég álít að það sé Alþingis að kveða upp úr um þetta mál, en ekki þn., og óska eftir því, að hæstv. forseti beiti sér fyrir því, að málið komist úr n. og verði tekið hér til 2. umr. svo sem þingsköp mæla fyrir.