03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

Afgreiðsla máls úr nefnd

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að sitja hér fyrir svörum. Hitt er svo annað mál, að ég er reiðubúinn að veita hv. þm. Halldóri Blöndal allar upplýsingar um þetta mál. Hann tjáði mér fyrir nokkrum mínútum að hann ætlaði að fara að tala um þetta mál utan dagskrár. Ég hef ekki haft ráðrúm til að láta ná í fundargerðabók nefndarinnar, en bað starfsmann þingsins um að gera það. Það hefði verið betra ef ég hefði getað rakið málið upp úr fundargerðabók nefndarinnar.

Mál þetta var strax tekið fyrir í nefndinni, það var sent til umsagnar með eðlilegum hætti og ég er reiðubúinn að halda fund í nefndinni um þetta mál hvenær sem er. Hitt er svo annað mál, að ég mun ekki beita mér fyrir því í fjh.- og viðskn. að mál séu þar afgreidd fyrr en þau hafa hlotið eðlilega meðferð. Það er eins með þetta mál og önnur, að það hefur hlotið fyllilega eðlilega meðferð í nefndinni. Einn flm. frv. er í nefndinni. Ég veit að hann getur ekki síður en hv. þm. Halldór Blöndal talað vel fyrir þessu máli. Það var full samstaða í nefndinni um meðferð þessa máls. Ég vísa því algerlega til föðurhúsanna, að þetta mál hafi ekki hlotið þar eðlilega afgreiðslu, og eins því, sem hv. þm. sagði, að nefndin ætti ekki að ákveða þetta mál, heldur Alþingi. Að sjálfsögðu á nefndin að fjalla um það áður en það kemur til afgreiðslu hér, og það mun hún gera og mun gera það þegar hún hefur fengið þær umsagnir sem hún telur nauðsynlegar í málinu, en ekki fyrr.