03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

88. mál, grunnskólar

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta frv., sem flutt er á þskj. 98 og hefur málsnúmerið 88, er endurflutt á þessu þingi og var flutt fyrir tveimur árum hið fyrra sinn. Að þessu sinni flytjum við frv. í sameiningu þrjú. Flm. ásamt mér eru þeir hv. þm. Halldór Blöndal og Friðrik Sophusson.

Ég vil strax taka það fram, að þótt svo standi á, að flm. þessa frv. séu eingöngu sjálfstæðismenn, er það svo almennt að efni til að ég hygg að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þm. úr öllum flokkum geti sameinast um að koma því áfram. Ég vona a.m.k. að svo verði.

Efni þessa frv. er í raun og veru mjög einfalt. Aðalatriði þess er að tryggja rétt foreldra til þess að fylgjast betur með því starfi, sem fram fer í grunnskólunum, og eiga aðild að þeim ákvörðunum sem þar eru teknar og varða börn þeirra. M.ö.o.: þetta frv., ef samþ. verður, á að stuðla að því, að foreldrar geti sinnt þeirri skyldu og ábyrgð sem á þeim hvílir í uppeldi barna þeirra.

Þessi ábyrgð hefur verið viðurkennd víða um heim með því að viðurkenna foreldrum til handa rétt til þess, að þær stofnanir, sem starfa við hlið og til hjálpar heimilum að uppeldi barna, taki mið af þeirri ábyrgð sem hvílir á foreldrum að þessu leyti. M.ö.o.: það hefur verið viðurkennt í t.d. mannréttindasáttmála Evrópuráðsins, að virða skuli rétt foreldra til að tryggja að uppeldi og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra. Þetta atriði þykir vera mjög sjálfsagt í öllum lýðræðisríkjum Evrópu og þar sem við höfum verið aðilar að mannréttindasáttmála Evrópuráðsins um langt skeið þykir eðlilegt að sú skuldbinding, sem við tökumst á hendur með aðild að þeim sáttmála, sé staðfest í lögum landsins. Það er ekki einasta að það sé eðlilegt, eða að það sé mitt álit að það,sé eðlilegt, heldur er það beinlínis skylda sem löndin takast á hendur þegar þau gerast aðilar að slíkum yfirlýsingum. Það er þjóðréttarleg skuldbinding. Það er útbreiddur misskilningur að mannréttindasáttmálinn hafi lagagildi á Íslandi. Svo er ekki. En hitt er annað mál, að við erum skuldbundin til að sjá svo um að ákvæði laga séu í samræmi við innihald hans.

Það er ástæða til þess á þeim tímum sem hið opinbera kerfi þenst sífellt út að tryggja einstaklingunum þann rétt, sem sjálfsagður er, að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar eru teknar, því að það eru einstaklingarnir sem byggja upp þetta kerfi og standa á bak við það. Þess vegna er í 1. gr. þessa frv. lagt til að í stefnumörkunargrein grunnskólalaganna verði bætt við þessu atriði sem ég nefndi og tekur mið af mannréttindasáttmála Evrópuráðsins og er fólgið í því að virða rétt foreldra eða forráðamanna, svo að notað sé orðaval grunnskólalaganna, til að tryggja að menntun og fræðsla gangi ekki gegn trúar- og lífsskoðunum þeirra. Enn fremur er í þessari grein kveðið á um að í skólastarfinu skuli forðast einhliða áróður um slíkar skoðanir eða um álitaefni og ágreiningsmál í þjóðfélaginu. Þetta eru atriði sem ég get varla ímyndað mér annað en að samviskusamir uppfræðarar og kennarar hljóti að vera samþykkir. Auk þessa er þarna um atriði að ræða sem tryggir sjálfsögð mannréttindi foreldra og barna á þann veg að uppeldisaðilar, bæði heimilin og skólarnir, séu samstiga í uppeldismarkmiðum sínum. Það er alveg ljóst, að það atriði er til þess fallið að stuðla að andlegu öryggi barnanna sem námið stunda. Ég hygg raunar að þetta atriði sé svo sjálfsagt að það sé nánast af vangá að það sé ekki þegar skráð í grunnskólalögum.

2. og 3. gr. frv. fjalla um ýmsar upplýsingar sem veittar eru um nemendur eða af nemendum sjálfum um sig og sína hagi í skólastarfinu.

2. gr. frv. felur í sér breytingu á 57. gr. grunnskólalaganna, sem fjallar um upplýsingar um vitnisburði nemenda. Þar er gert ráð fyrir að skólastjóra sé heimilt að veita þessar upplýsingar að fengnu samþykki forráðamanna vegna fræðilegra rannsókna, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu. Og enn fremur: Ef um er að ræða víðtæka fræðilega rannsókn, sem ætla má að hafi verulegt gildi, þurfi ekki einu sinni samþykki skólastjóra og fræðslustjóra, en menntmrn. sé heimilt að mæla svo fyrir að þær séu veittar, enda sé leyfisveitingin birt opinberlega. Hér er bent á Lögbirtingablaðið sem slíkan vettvang og þar væri þess getið, hverjum leyfið væri veitt og í hvaða skyni.

Þetta felur í raun og veru ekki í sér hugmynd um breytta framkvæmd frá því sem ætlað var þegar grunnskólalögin voru sett, heldur má segja að hér sé um að ræða ákvæði sem felur í sér það sem kallað er á stofnanamáli „fyrirbyggjandi aðgerð.“ Það er tryggilegar gengið frá þessu atriði með þessari breytingu en er nú í gildandi lagagrein um þetta efni, en þar stendur einfaldlega nú, með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra, nema nauðsyn beri til vegna flutnings nemenda milli skóla. Þó skal heimilt að veita öðrum þessar upplýsingar vegna fræðilegra rannsókna, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu.“

Í breytingunni, sem lögð er til í frv., er vikið að því nánar, hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja, en vitanlega er mjög teygjanlegt hvað teljist fræðileg rannsókn.

Í 3. gr. frv. er vikið að frekari atriðum sem um væri að ræða í rannsóknum og könnunum sem fram færu í skólunum. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að slíkar kannanir geti farið fram, enda er sérstakur kafli í grunnskólalögunum um skólarannsóknir þar sem gert er ráð fyrir ýmiss konar könnunarstarfi í þeim tilgangi að endurbæta fræðslustarfið í skólunum. En í þessu tilfelli er rannsóknarandlagið lifandi manneskja, þ.e. barn í grunnskólanum er sá miðill sem á að upplýsa það sem rannsakað er. Þegar svo stendur á er eðlilegt að gæta þurfi fleiri sjónarmiða en þegar rannsóknarmenn, t.d. á sviði raunvísinda, eiga við sýnishorn í tilraunaglasi eða tilraunadýr í búri. Barnið í skólastofunni hefur sjálfstæð mannréttindi og ber að taka tillit til sömu atriða í umgengni við það og við fullorðið fólk. Raunar þarf enn meiri tillitsemi gagnvart barninu. Það er vegna þess að fáir aðilar í þjóðfélaginu hafa eins slæma aðstöðu og börnin til að vera kunnugir að öllu leyti bæði eigin rétti og svo hinu, að hvaða leyti hann kynni að rekast á við þær spurningar sem lagðar væru fyrir í víðtækum könnunum sem fram færu í skólanum.

Í þessari grein er gert ráð fyrir að menntmrn., fræðslustjórum, skólastjórum, kennurum og öðrum starfsmönnum grunnskóla svo og námsstjórum og starfsmönnum við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu sé heimilt að stunda fræðilegar rannsóknir í skólunum og heimill aðgangur að gögnum þeirra. Þessir aðilar skulu þó skýra rn. frá því fyrir fram ef þeir framkvæma slíkar rannsóknir. Rn. skal þá setja nauðsynleg skilyrði sem rannsóknin þurfi að fullnægja, sem auðvitað ætti að vera sjálfsagt. Í frv. er tekið fram og lagt til að það standi í lagagr. um þetta atriði að ef skilyrðunum sé ekki fullnægt geti rannsóknin ekki farið fram. Það þurfi að líta til fræðilegs gildis og það þurfi að líta til menntunar og reynslu þeirra, sem rannsóknina vilja stunda, og rannsókna- og úrvinnsluaðferða. Enn fremur þurfi leyfi fræðslustjóra, skólastjóra og forráðamanna barnanna. Í flestum tilvikum er þetta vitanlega auðsótt. Í þessari frvgr. er líka tekið fram að rn. geti jafnvel leyft rannsóknirnar gegn áliti fræðslustjóra og skólastjóra ef ætla má að þær hafi verulegt gildi. Ef rannsóknin varðar ekki einkahagi eða skoðanir nemenda, heimilishagi þeirra, hagi forráðamanna, nemenda eða annarra þarf ekki leyfi forráðamanna. Menntmrn. getur leyft samkv. þessari frvgr., ef samþ. yrði, öðrum en þeim aðilum, sem upp voru taldir nú, fræðilegar rannsóknir í grunnskólum og á gögnum skólanna, en um leyfi til þeirra rannsókna fari þó eftir fyrri málsgr. Það þarf sem sé leyfi fræðslustjóra og skólastjóra, og ef um er að ræða heimilishagi forráðamanna nemenda eða annarra eða einkahagi eða skoðanir nemenda þarf einnig leyfi forráðamanna. En leyfi samkv. þeirri málsgr. ætti aðeins að veita ef fyrir liggur rannsóknaráætlun og starfsmenn við rannsóknina hafa nægilega menntun og reynslu, rannsóknin hafi verulegt fræðilegt gildi og með trúverðugum hætti sé gætt hagsmuna sem varða friðhelgi einkalífs.

Ég hef vikið sérstaklega að þessu atriði og rakið með þessum orðum það sem raunar stendur í frv., vegna þess að ég hef orðið þess vör að innihald frv. hefur verið túlkað mjög ranglega á þann veg, að ekki sé gert ráð fyrir að neinar félagslegar kannanir geti farið fram í skólanum. Það er alrangt. Það er vitanlega viðurkennt að slíkt getur haft mikið gildi, en tilgangur frv. er að ganga frá því í lögum að fullt tillit sé tekið til þess, að skólastofan er allt annars konar rannsóknarstaður en tilraunastofa raunvísindamanns. Skólastofan er með fjölda mannlegra einstaklinga sem hafa sinn sjálfstæða rétt er mönnum ber að taka fyllsta og trúverðugt tillit til. Enn fremur má geta þess, að ef ekki liggja fyrir nákvæm ákvæði um þetta atriði getur orðið um töluverðar truflanir á skólastarfi að ræða. Mér hafa tjáð skólamenn að rannsóknir utanaðkomandi aðila á hinum margvíslegustu hlutum hafi orðið til nokkurrar truflunar á skólastarfinu.

Þetta eru þau sjónarmið sem til greina koma að því er varðar þennan kafla frv., en aðalatriði þess er í heild að tryggja að áhrif heimilanna, áhrif foreldranna verði meiri í skólanum og það þyki sjálfsagt að taka mið af því, að börnum beri réttur til þess að alast upp hjá foreldrum sínum og foreldrum beri réttur til þess að stjórna uppeldi þeirra.